Vötnin gáfu boltafiska sem fyrr. Sem dæmi má nefna að 11,4 punda urriðar veiddust bæði í Hraunsvötnum og Ónýtavatni og 10 punda veiddist í Stóra Fossvatni. Þá veiddist 9,8 punda í Skyggnisvatni, 9,4 punda í Litlasjó og 9,2 punda í Litla Breiðavatni. Ítarlega upplýsingar um veiðina í Veiðivötnum í sumar er á vefnum: www.veidivotn.is
Norðurá var lokahollinu gjöful sem var komið með 128 laxa á tveimur dögum og átti eftir eina vakt þegar fréttir bárust 3. september. Hefur það tæpast gerst áður að aflahæsta holl sumarsins sé jafnframt það síðasta. Þess má geta að SVFR ákvað að bjóða staka daga, 5. - 12. september eftir að formlegri vertíð lauk. Upplýsingar eru á vef félagsins.
Slæmar fréttir bárust úr Tungufljóti í Skaftafellssýslu en laxar sem þar hafa veiðst bera nánast allir merki eftir Sæsteinsugu. Í Tungufljóti líður að tíma sjóbirtingsins og eru fréttir af sæsteinsmugunni varla góður fyrirboði. Sjóbirtingur hefur veiðst í Kúðafljóti og því telja fróðir menn að sjóbirtingurinn muni fást fljótlega í Tungufljóti. Stærstur hluti aflans í Kúðafljóti, eða 80%, ber merki steinsugubits. Veiðimálastofnun kannar útbreiðslu sæsteinsugunnar en enn hefur ekki fengist staðfest að hún hrygni hér við land. Fjallað var um sæsteinsmuguna í Flugufréttum nýverið.
Á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal er besti tíminn nú mánuði seinna en menn eiga að venjast og hefur veiðin verið góð undanfarið. Sömu sögu er að segja um Laxá á Ásum sem hefur gefið vel eftir að hafa farið óvenju seint af stað. Því er spáð að hún muni fara yfir 500 laxa markið þetta sumarið.
Það hefur verið stuð á veiðimönnum í Miðfjarðará og nýlega fékk eitt hollið 137 laxa á tveimur og hálfum degi. Mun áin að líkindum fara yfir 1000 laxa múrinn.
Veiðisögur frá Eystri Rangá hafa verið með ólíkindum og er áin nú rétt öðru hvoru megin við 5000 laxa. Í Langánni er áfram mok, eins og sagt er, þar eru komnir ríflega 1050 laxar.
- Og að lokum ein ánægjuleg frétt sem var í Morgunblaðinu í dag, 4. september. Þar var sagt frá athafnatengdu útinámi þar sem veggir grunnskólanna eru færðir utan um alla Þingeyjarsýslu, eins og það er orðað í fréttinni. Hugmyndasmiðurinn er Hermann Báðarson, umhverfisfræðingur. Markmiðið er að þroska heildstæða náttúru- og samfélagsvitund nemendanna. Mikið er lagt upp úr undirbúningi fyrir vettvangsferð og síðan úrvinnslu gagna heima í skóla og er skipt upp í þrjá mismunandi hópa eftir verkefnum. Í fyrsta lagi er veiðihópur sem fær að veiða silung undir leiðsögn reyndra veiðimanna og fiskur sem veiðist er mældur og vigtaður. Þá eru einnig tekin hreisturs- og magasýni. Öðrum fiskum er sleppt og þeir merktir. Í öðru lagi er sýnatökuhópur sem vinnur að því að skýra fæðukeðjuna, hann kannar botndýraflóruna og tekur sýni á mismunandi botnsvæðum. Tveir líffræðingar leiðbeina nemendum og börnin fá að mæla straumhraða og reyna að læra hve umhverfið hefur mikil áhrif á fiskana. - Það er gaman í skóla!
|