21.7.2007
Margar aðferðir í Elliðatni
,,Þeir fiska sem róa" er Sveinn vanur að segja og getur hann trútt um talað, fáir sækja jafn stíft í vatnið og hann.... í hitanum á dögunum veiddi hann vel og hélt sig eins og fleiri í kaldavatninu í Helluvatni og Álnum þar sem fiskurinn liggur djúpt, en sleppti öllum sem hann veiddi, stórum og smáum...,,það er gagnslaust að hirða þá, ættingjar og vinir eru búnir að fá nóg, þeir draga gluggatjöldin fyrir þegar ég nálgast"...
Maður kemur siglandi á tuðru með utanborðsmótor úr Herdísarvík í Helluvatni undir brúna og út yfir sjálfan Álinn þar sem þetta tiltæki vekur urg meðal veiðimanna enda andstætt öllum góðum reglum... Rykmýið magnast með hverjum degi. Í dag er slegið hitamet, hann fór upp í 21 stig við Rauðhóla. Gusturinn á vatninu kemur sér vel í þessu mikla sólskini og endurskini. Það þyrfti að rigna duglega á næstunni, inni í Mörkinni er rykið á eftir bílunum eins og þoka svo veitir ekki af þokuljósum... Þegar kvöldar læðast tveir veiðiþjófar í Helluvatnið en vörðurinn kemur og grípur þá..... enginn fer á hausinn þó hann borgi eitt lítið silungsleyfi, það veit sá sem allt veit...
Makrílmaðurinn kom um helgina. Fáir eru brúnni og fáir eru þaulsetnari á bakkanum neðan við bæinn. Hann er girtur axlaböndum og reykir mikið og hefur auga með stöngunum, hann er með tvær stangir og segist aðeins veiða á makríl, annað dugi ekki í vatninu. Sumir segja að makríllinn fari fyrst að virka vel þegar búið er að frysta og afþíða hann nokkrum sinnum því þá fer hann að lykta mikið. Makríllinn er stundum fluttur inn frá Indlandi og þykir gera sama gagn og sá sem veiddur er í nærliggjandi höfum...Makrílmaðurinn er með aðra stöngina til vara, ef hin klikkar. Hann var að prófa nýju stöngina og hjólið með græna girninu í þetta sinn, ef það græna virkar ekki verður skipt...Hann var búinn að ná tveimur urriðum á gömlu stöngina þegar síðast fréttist..Þeir fiska sem róa.
(Frá veiðiverði).