Bleikjurnar voru allar af sömu stærð, um 2 pund, nýrunnar, og að auki veiddist einn urriði. Veiðin hefur það sem af er verið afar góð í Eyjafjarðará eða a.m.k. farið líflega af stað. Mönnum gengur mjög misvel en ekki er óalgengt að stangir taki kvótann, sem er raunar aðeins 4 fiskar á dag. Einnig hefur frést af góðri bleikjuveiði á efstu svæðum Fnjóskár og sjóbleikjan er komin á kreik í Hörgá þar sem nokkrir fiskar fengust ofarlega á 3. svæði um síðustu helgi. Loks fór bleikjuveiðin í Vatnsdalsá og Víðidalsá afar vel af stað.
Menn binda því talsverðar vonir við að sjóbleikjan sé að sækja í sig veðrið, en á hitt ber þó að líta, nefnilega að sjóbleikjuveiðin hófst einnig með talsverðum hvelli síðasta sumar - en síðan datt botninn algjörlega úr henni. Við spyrjum að leikslokum.