13.7.2007
8 punda úr Eyjafjarðará

Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri, krækti í 8 punda bleikju á þriðja svæði í Eyjafjarðará í kvöld. Hann átti ekki annarra kosta völ en að fela syni sínum að landa fiskinum.
Kristján hafði skotist í heimsókn til Gunnars og ágætra veiðifélaga hans, Braga Guðbranssonar og Ragnars Hólm, sem voru að veiðum á þriðja svæði, fékk að taka nokkur köst, hér um bil á blankskónum, og það var ekki að sökum að spyrja: Heljarmikil kusa tók Pheasant Tail og straujaði út svo kvein í hjólinu, hún fór með allt niður á undirlínu. Gunnar varð að koma til bjargar þar sem skóbúnaður alþingismannsins var ekki ætlaður til stórræðanna í veiðiskap og tókst Gunnari að landa fiskinum eftir um 20 mínútna baráttu. Fiskurinn var nákvæmlega 4 kíló og 68 sm, gullfallegur sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Ekki er vitað til þess að stærri fiskur hafi komið úr ánni í sumar.