Öfugur Watson Fancy hefur tekið þá nokkra í Elliðavatni að undanförnu, þetta afbrigði kallast Homminn segja þeir sem þekkja til á bökkum vatnsins, eins og veiðivörður og pennavinur okkar segir frá...
Úr dagbók veiðivarðar við Elliðavatn
...Lóan og lóuþrællinn spígspora saman í túninu við bæinn þessa dagana og virðast hafa nóg að éta. Lóuþrællinn flýgur mjög hratt og hefur skemmtileg hljóð sem eru jafn eftirtektarverð og hinn angurværi lóusöngur eða hinn undarlegi himbrimavæll sem stundur ómar yfir allt vatnið ...Rykmýið er farið að mynda stróka hér og þar þegar lygnir, þykir þó sumum minna fara fyrir því en vant er...en hvað vitum við, kannski er sveiflan svipuð og við Mývatn?......
,,Ég hef veitt vel á Hommann að undanförnu," sagði þekktur jassleikari kominn um áttrætt þegar hann sótti leyfið sitt, og bætti við:,,Homminn er öfugur Watson Fancy"..... Hann hafði lítinn tíma í þetta sinn og ætlaði að reyna undir steininum neðan við vestari brúna þar sem hann liggur oft...
... Einar Óskarsson var veiðivörður í nokkur ár við vatnið og þótti öflugur, en er nú kominn í Haukadalsskóg. Einar hændi að sér álftir með brauðgjöfum og var sjón að sjá þegar ungarnir stækkuðu og álftafjölskyldan kom í fæði að bakkanum. Einar smíðaði bekk sem merktur er Jóhannesi veiðimanni sem starfaði í byggingabransanum, en dó í fyrra og hafði þeim Einari orðið vel til vina. Bekkurinn er á nesi einu neðan og austan við bæinn, kalla sumir nesið Jóhannes, en samkvæmt fróðum manni heitir nesið ekki Jóhannes heldur steinninn þar út af og kenndur við fyrrnefndan Jóhannes sem stóð þar klukkustundum saman og veiddi oft vel. Sagt er að honum hafi verið illa við að bregða sér í land af ótta við að missa steininn. Þótti ýmsum nóg um einokun Jóhannesar á steininum því þaðan er stutt að kasta á góðan stað...Engin átök urðu þó vegna þessa því friður ríkir að öllu jöfnu við vatnið og Jóhannes slakur eftir erilsaman dag í vinnunni....
Kúluvarparinn Alois náði 3. punda fiski í gær, hann hefur veitt vel að undanförnu, notar gult flotholt og langan mjóan taum... Hann nær aðeins fiski á Peacock nr. 10 en aldrei nr. 12, hvernig sem á því stendur..