Það var heldur betur létt yfir Bjarna Júlíussyni þegar Flugufréttir heyrðu í honum undir lok fyrstu vaktarinnar í Laxá í Mývatnssveit en veiðin hófst þar í dag.
Bjarni og synir hans voru með Hofstaðalandið og hófu veiðar í Sauðavaði og fengu þar tug af fallegum og vel höldnum urriðum. "Þegar leið á morguninn færðum við okkur yfir í Brotaflóann og sem tók mjög vel á móti okkur. Við erum fyrst og fremst að veiða á pallinum okkar megin við hvítrfyssið efst í flóanum. Þar er hann í bullandi æti og reyndar neðar líka þar sem hann hefur verið að taka straumflugur líka. Sonur minn fékk að minnsta kosti einn á Rektor þar."
Afar gott verður er í Mývatnssveit, um 20 stiga hiti og lífríkið sannarlega vaknað og urriðinn er í bullandi æti. Þegar við heyrðum í Bjarna höfðu þeir náð yfir 20 urriðum og sett í rúmlega tíu til viðbótar. "Þetta er algerlega galin veiði og einhver besta opnum sem ég man eftir hér í Laxá," segir Bjarni sem hlakkar til seinni vaktarinnar en þá eiga þeir félagarnir Geldingey en það svæði var hvílt í morgun.