2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
10.1.2021

Veiðisumarið 2021

Flugur.is tóku tal af Ólafi Finnbogasyni stjórnarmanni í SVFR og fyrrum leiðsögumanni í Langá.

Við lögðum fyrir hann spurninguna:

Hvar á að veiða sumari 2021?

Sumarið mun byrja í Eldvatninu í apríl sem gaf mér stærsta birting sem ég hef veitt um ævina. Þetta var 87 cm hrygna sem hefur klárlega skilað mörgum hrognum í haustið á undan og aftur síðastliðið haust. Síðan er ég í hópi með miklum veiðimönnum sem kunna silungsveiði upp á 10 í Mývatnssveitinni frá 4.-7. júní. Þar eru menn eins og Sigurbrandur Dagbjartsson, Sigþór Óla, Þorgils Helga og fleiri menn sem sitja í efstu hillunni í silungaveiði sem er nú ekki mín sérgrein þó svo að ég geri mitt besta og sé yfir mig heillaður af andstreymisveiði og þurrfluguveiði. 

Eftir Mývó tekur laxinn við og hefst laxveiðin  hjá mér og eiginkonu minni í Langá á Mýrum með 11 öðrum hjónum. Alltaf er mikill spenningur fyrir þessum túr enda erum við þar með hópi af frábæru fólki og nýgenginn lax bíður eftir manni. Þarna er verið að njóta að vera með góðum vinum og borða frábæran mat hjá Viktori og Hinna. (Ég á samt erfitt með að njóta þar til fyrsti laxinn kemst á land). 

Eftir Langá förum við með góðum vinum í Laxá í Aðaldal og ætlum að prufa að veiða alla ána í fyrsta sinn. Eiginkonan kemur líka með sem er orðin minn helsti veiðifélagi. Þar verðum við frá 5-8 júlí, svo er smá pása og farið í Flekkuna með fjölskylduna 19-21 júlí. Þar höfum við veitt einu sinni áður og hlökkum mikið til. Árlega förum við saman í Langá um Verslunarmannahelgina í þrjá daga. 

Eftir þann túr fer ég með góðum vinum aftur í Drottinguna í Aðaldalnum og veiði með mínum bestu veiðifélögum til 16 ára um miðjan ágúst í þrjá daga. Þessi hópur kom saman fyrst sem leiðsögumenn úr Laxá, Langá og Laxá í Leir og höfum við veitt saman á hverju ári og sumir oft á ári í 16 ár. Laxá í Aðaldal hefur verið okkar heimavöllur síðasta áratuginn en áður var það Langá. Hópurinn heitir Veiðifélagið Kippurnar og þar eru einungis alvöru menn innanborðs. 

Um mánaðarmótin ágúst- sept verður síðan farið í útlegð á Austurlandið og byrjað í Hofsá í Vopnafirði sem ég veiddi í fyrsta sinn í fyrra en þar veiddi afi minn og nafni í mörg ár með Sigurði eldri Helgasyni hjá Flugleiðum og var ég því mjög spenntur og varð ekki fyrir vonbrigðum enda guðdómlega falleg á og frábær félagsskapur. Þegar þeim túr er lokið verður farið beint með Dögg eiginkonu minni í Sandá í Þistilfirði sem hefur verið draumur minn í nánast 20 ár að fá að veiða. Þar verðum við í frábærum félagsskap og veit ég lítið sem ekkert um ánna. 

Vonandi verð ég svo heppinn að fá kannski einn til tíu aðra túra þarna á milli. 

Svona að lokum Ólafur, hver er sú á sem þig langar mest að veiða sem þú hefur ekki veitt áður?

Sandá í Þistilfirði var sú á og mun það rædast í sumar og svo langar mig mikið til þess að veiða Jöklu sjálfa, hef veitt Kaldá og fékk eina fallega hrygnu en er heillaður af þeim myndum og sögum sem ég hef heyrt um og séð. 

Einnig er Haffjarðará á listanum en það er líklega langt í það.

Á myndinni er Ólafur með fallegu hrygnuna úr Eldvatninu og glæsilegt buff frá SVFR sem tók svolítið athyglina af þessum fallega fisk.