Hver langferð byrjar á einu skrefi og hér er það: Þú ert á leið til doktorsgráðu í silungapúpum og ætlar að kjafta þig í gegnum inntökuprófið. Þetta er það sem þú þarft að vita ef þú ert á leið í litla sæta silungsá eða ætlar í veiðivatn með urriða og bleikju í þokkalegu úrvali. Fyrst þarftu að koma við í veiðibúð ? því þú ert ekki byrjuð að hnýta og maðurinn þinn ekki heldur. Það kemur næsta vetur. En nú þurfið þið silungsveiðahjónin að versla því annars fæst ekkert á grillið. Þið kaupið púpur, því þær eru almennt séð veiðnari en almennar sígildar votflugur, sem þó er alltaf gaman að eiga.
1) Peacock. Hún er mest notaða silungapúpa á Íslandi og til að vera viss kaupir þú hana bæði með og án kúluhauss. Stærðir 10- 12 eru ágætar.
2) Teal and Black púpan. Sígild og er hér komin vegna þess að hún líkir svo vel eftir lirfum mýflugna. Stórir silungar taka hana og litlir líka. Hún er fulltrúi svörtu púpunnar í þessu safni. Ég myndi vilja sjá boxið ykkar með stærðum 10-16.
3) Peter Ross púpan. Snillingar gera hana sjálfir í ýmsum afbrigðum. Sagt er að ekki sé til sá silungur sem einhvern tíma dagsins taki ekki Peter Ross. Kúnstin er bara að hitta á þá stund. Ráðið er að standa bara stöðugt við. Peter Ross er frábær fluga og púpa og gaman að eiga hana.
4) Killer. Nafnið segir allt sem segja þarf. Á Þingvöllum er hún í heiðurssæti. Með kúlu og rauðum kraga, eða án kúlu og bara svört með vafningum.
5) Tailor. Nafnið segir ekki neitt. En reynsla ólyginna er sú að hún gefi alls staðar fisk þar sem fiskar éta lirfur flugna. Þú skalt eiga hana brúna og svarta, að minnsta kosti.
Hvað stærðir þarftu?
Þegar komið er fram í júlí og ágúst smækka silungaflugurnar, sem þýðir að menn nota flugur með hærri númerum. Þetta er ein af lífsgátum fluguveiðinnar og þér nægir að vita þetta í bili. Þess vegna þarftu að eiga Teal and Black, Peter Ross og Tailor í stærðum 12, 14 og jafnvel 16. Það eru smáar flugur sem kalla á granna tauma. Fimm punda taumur nægir. Reyndar eru fimm punda taumar afskaplega misjafnlega sverir, og ég hef á tilfinningunni að nú sé komið að því að fara inn á flugur.is og skoða myndir af þessum púpum og mörgum fleiri, og lesa greinar um línur og tauma. Því að eiga flugurnar er bara byrjunin. Á flugur.is er grein sem lýsir vali á flugum fyrir 200 ár og vötn á Íslandi ef þú vilt fá fleiri hugmyndir!
Það sem margir flaska á er að reyna ekki nógu smáar flugur. Stærð 16 er frekar smá en stundum of stór. Þegar komið er fram á mitt sumar er svo margt að gerast í lífríkinu að úrvalið í boxinu þarf að vera sæmilegt. Skoði maður í maga silungs kemur oft í ljós hve agnarsmá skordýrin eru. Ekki hika við að smækka og grenna tauminn. Og hafðu tauminn þá langan. Rúmlega stangarlengd en ekki styttri
Og já. Ég geymdi bestu fluguna þar til síðast. Pheasant tail. Með kúluhaus og án, í öllum stærðum, í sem flestum gerðum. Og ef þú vilt vera alveg örugg og slá manninum þínum við skaltu laumast til að ná þér í ,,flugu 20.aldarinnar? ? Héraeyra.
Hér á vefnum er ótrúlegur fjöldi greina um púpur og flugur, gjörðu svo vel!
Allt efni á vefnum ókeypis-
fyrir áskrifendur Flugufrétta.
-Allar greinar
-Aðgangur að gagnabanka gegnum leitarvélina
-Flugufréttir alla föstudaga
Já! Ég vil gerast félagi í netklúbbnum
og gerst áskrifandi nú þegar!
Smelltu hér til að skrá þig.
Endurbirt heilræði SJH