2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
16.8.2020

Veiddu betur með réttri stöng: Byrjendur

 

Veiðistöngin getur hæglega orðið besti vinur mannsins ? jafnvel þótt hann eigi hund.  En það þarf að vanda valið eigi sambandið að verða gott og endast lengi. Þorsteinn G. Gunnarsson hefur lengi velt fyrir sér stöngum og vali þeirra, og leitaði til nokkurra álitsgjafa sér til halds og trausts áður en hann setti saman leiðarvísi fyrir þá sem ætla að endurnýja hjá sér fyrir vertíðina, eða jafnvel ráðast í það stórvirki sem fylgir því að festa ráð sitt í fyrsta skipti. Ferðalag Þorsteins um undraheima veiðistanganna byrjar á flugustöngunum:

Það er afskaplega erfitt að ráðleggja mönnum um stangarval, sérstaklega um
val á flugustöngum. Ábyrgðin er mikil enda er í mörgum tilvikum verið að
ráðleggja um val á lífsförunaut sem fylgir manninum árum saman og veitir
honum unað við það sem honum þykir skemmtilegast að gera. Því má með rökum
halda því fram að ámóta erfitt sé að velja sér stöng og maka. Að velja stöng
fyrir einhvern annan er því enn erfiðara.

Það er útbreiddur misskilningur að það dýrasta sé alltaf það besta. Í Bókinni um veginn segir
kínverski heimspekingurinn Laó-tse eitthvað á þá leið að í rokinu svigni
stráin en eikurnar brotni. Þessi einfalda en um leið magnaða speki á
nefnilega glettilega vel við um flugustangir. Margir byrjendur halda að þeim
sé fyrir bestu að kaupa það dýrasta enda trúa þeir að árangurinn verði
bestur með dýrustu stönginni. En dýrustu stangirnar eru oft þær hröðustu og
hrökkva í sundur við minnsta átak, jafnvel þegar lítt reyndir kastarar taka
vitlaust og allt of aflmikið framkast. Það er gremjulegt að brjóta stöngina
sína á þann hátt, jafnvel þótt hún sé með lífstíðar ábyrgð og verði bætt að
fullu.

En hvernig stöng á þá að kaupa? Kannski þá ódýrustu? Enn er erfitt að svara,
en gott að byrja á því að velta mýktinni fyrir sér. Enskar stangir eru til
að mynda mýkri, hægari og lengri en þær bandarísku. Ástæðan liggur í
mismundandi veiðiaðferðum þessara þjóða. Englendingar veiða mikið í
,,vernduðu umhverfi" í uppistöðulónum oft með steyptum bökkum, vaða lítið og
dunda sér í rólegheitunum meðan Bandaríkjamenn eru meira eins og við, vilja
kraft og hraða. Vitaskuld er þetta mjög einfölduð mynd af veiðiskap tveggja
þjóða en endurspeglar engu að síður muninn á stöngum þessara þjóða.

Hraðar og hægar stangir

En hver er munurinn á hægum og hröðum stöngum? Hægar stangir búa yfir þeim
eiginleika að vinna frá ,,toppi til táar". Í bak- og framkastinu sveigjast
þær frá toppnum og alveg niður að handfangi. Oft er talað um að öll stöngin
vinni. Það gefur því auga leið að kastið verður hægra og veiðimaðurinn þarf
að gefa stönginni tíma til að vinna sig í gegnum kastið. Þessar stangir
henta síst fyrir íslenskar aðstæður, því framhraði línunnar er lítill í hægu
kasti og áhrif vindsins því meiri í kastinu. Í kyrru veðri er hins vegar
alger draumur að kasta með góðum hægum stöngum sem nánast sjá sjálfar um
kastið. En þeir dagar eru allt of fáir til þess að það borgi sig að kaupa
þannig stangir.

Millihraðar stangir sveigjast niður undir miðju og skjóta línunni mun betur
en hægu stangirnar. Dæmi um millihraða stöng er Sage II, einhver vinsælasta
flugustöngin hér á landi síðustu ár. Vinnslan í hraðri stöng er mest í
toppnum og hún skýtur línunni af töluverðum krafti en það þarf nokkra leikni
í fluguköstum til þess að geta nýtt alla þessa eiginleika stangarinnar. Dæmi
um hraða stöng er Sage III og Sage IV sem er enn hraðari, alger fallbyssa.

Fyrir byrjendur, meðalmanninn og þá sem eru þar fyrir ofan er öruggast að
mæla með millihraðri stöng.

Þekkt merki eða óþekkt?

Lítt þekkt merki hafa nú á síðustu árum eignað sér þróunarstarf
stangarisanna, ekki ósvipað og þegar einkaleyfi á lyfjum rennur úr og
ódýrari samheitalyf koma á markaðinn. Það er komið vel á annan áratug síðan
Sage kynnti það sem kallað var "aðra kynslóð" grafítstanga, Sage II. Nokkrum
árum síðar kom Sage III sem gerð var úr þriðju kynslóð grafítefna. Nú eru
þessi grafítefni ekki lengur leyndarmál og því má vel finna frábærar
stangir, millihraðar og hraðar, frá öðrum framleiðendum og eini munurinn er
verðið. Í stað þess að borga 30 - 50.000 krónur fyrir stöngina fást ,,nánast
sambærilegar" stangir á 10 - 15.000 krónur. Og þessar ódýru stangir eru meira
að segja margar hverjar með lífstíðarábyrgð.  

Það er erfitt fyrir lítt reyndan fluguveiðimann að ganga inn í búð, að
stangarrekkanum og sjá á örskotsstundu hvaða stöng er mjúk, hvaða hröð og
hverjar eru þar á milli. En það má alltaf spyrja sölumanninn því sölumenn í
íslenskum veiðibúðum eru undantekningalítið mjög heiðarlegir og vel að sér.
Láttu þá sýna þér muninn á hægri og millihraðri stöng. En hann getur það
ekki er hann ekki starfi sínu vaxinn og þú ferð í aðra búð.

Línan

"Stöngin er sá bogi og línan er sú ör," segir Stefán heitinn Jónsson í
bókinni ófáanlegu Með flugu í höfðinu. Þar er mönnum bent á að byrja að
velja sér bráðina, fluguna, línu og síðan stöng fyrir línuna. Þetta er gott
ráð sem fæstir fara reyndar eftir, enda hefur línuvalið verið nokkuð
sjálfsagt hérlendis síðustu áratugina. Lengi vel kom ekki til greina að vera
með annað en línu átta, einfaldlega til þess að geta komið henni frá sér í
íslenskri veðráttu. Lína númer átta var og er alhliða lína, hentar vel til
laxveiða, er kjörin fyrir urriða í straumvatni og sjóbirting sömuleiðis. Hún
er kannski of groddaleg fyrir vatnaveiði þar sem við þurfum að leggja
fluguna laglega á kyrrt vatnið.

Fluguveiðimenn hafa í auknum mæli fært sig yfir í léttari línur og nettari
stangir og segja má að lína númer sex hafi tekið við af línu númer átta.
Þessi þróun er eðlileg í ljósi þess að grafítið í stöngunum verður sífellt
betra og aðstæður sem áður kröfðust línu númer átta eru vel viðráðanlegar
með línu númer sex.

Í hverju felast gæðin?

Til þess að vera viss um gæðin á ódýru stönginni sem þú ert ef til vill að
velta fyrir þér að kaupa er gott að athuga lykkjurnar. Á níu feta stöng er
gott ef þær eru níu, sjö á fremri hlutanum og tvær á þeim aftari. Lykkjurnar
eiga að vera nokkuð opnar, sérstaklega nálægt handfanginu svo línan renni
greiðlega út. Línan rennur betur ef lykkjurnar eru opnar snákalykkjur.
Skoðaðu fráganginn við lykkjurnar, hvernig þær eru festar niður og strjúktu
yfir festingarnar til að sannfærast um að vel sé lakkað yfir þær. Skoðaðu
korkinn í handfanginu, sérstaklega samskeytin og gakktu úr skugga um að
hjólastæðið sé vandað og gefi sig ekki með tímanum. Ef stangarframleiðandi
sparar lykkjur eða gengur hroðvirknislega frá stönginni er nokkuð ljóst að
um lélega framleiðslu er að ræða.

Hver er munurinn?

Línunúmerin eru samkvæmt alþjóðlegum staðli og eru til frá númer 0 upp í
númer 14. Því hærra sem númerið er, þeim mun þyngri er línan. Þyngd línunnar
hefur hins vegar ekkert með það að gera hvort hún fljóti eða sökkvi, það eru
til flotlínur í öllum þyngdarflokkum, meira um það hér á eftir.

Lína númer sex er því léttari en lína númer átta. Söng fyrir línu sex er
nettari en stöng fyrir línu átta, því það þarf minni kraft í stönginni til
þess að kasta henni. En það skemmtilegasta er að veiðimaðurinn finnur meira
fyrir fiskinum eftir því sem línan er léttari og stöngin nettari. Baráttan
verður skemmtilegri og glíman við þriggja punda urriða á línu númer sex er
kannski ámóta og viðureign við 1,5 punda fisk ef notuð er lína númer átta.

Gott er að eiga tvær stangir, eina fyrir línu númer átta í laxinn og stóra
sjóbirtinginn en aðra léttari fyrir vatnaveiðina og minni ár, til dæmis
fyrir línu númer fimm eða sex.

Sökk, flot eða hvað?

Ef veiðimönnum þykir stangarfrumskógurinn þykkur og mikill þá er hann eins
og kjarr við hliðina á línufrumskóginum. En það er til gera flókið mál
einfalt þá komast menn af með tvær línur en best er að vera með þrjár.
Flotlína er alger nauðsyn. Hana notum við þegar fiskurinn er í yfirborðinu.
Hægsökkvandi línu notum við þegar fiskurinn er rétt undir yfirborðinu. Með
því að bíða rólegur og gefa þeirri línu tóm til að sökkva getum við skannað
mismunandi dýpi vatnsins. Hraðsökkvandi lína er nauðsynleg þegar við þurfum
að koma flugunni niður að bráðinni, sérstaklega í straumvatni. Við þær
aðstæður dugar hægsökkvandi lína ekki.

Athugið:

Millihröð stöng hentar flestum
Ódýr stöng getur verið jafngóð eða betri en sú dýra
Skoðaðu fráganginn á lykkjum og handfangi
Kauptu hjól sem hentar stönginni og mundu að radíusinn er stærri á stóru hjóli og því þarf að snúa færri hringi þegar línan er dregin inn.

 

Nafnið segir ekki allt, en ýmislegt samt!

 

Eins og fram kemur í greininni er nafnið ? eða ,,merkið? á flugustönginni ekki alltaf nægilegur vitnisburður um gæði, né verðið.  Almennt má þó segja að dýr stöng sé góð stöng (þótt hún þurfi ekki að vera hentug við þær aðstæður sem nota á hana við).  Og almennt má segja að ,,fræg? merki séu nokkuð traust, sem þýðir alls ekki að óþekkt merki séu vonlaus.

 

Byrjandi sem fer á vit veiðistanga á eflaust eftir að heyra um fræg merki:  G. Loomis og Thomas and Thomas hafa náð fótfestu hér á landi, og margir þekkja ekkert annað en Sage.  Hardys þóttu stórmerkar í eina tíð, en svo hafa menn kynnst Loop, Cortland, Reddington og Diamondback.  Daiwa kemur víða við á bökkum.  Scierra merkið er farið að sjást víðar og Scott er gamalgróið og vel kynnt merki.  Eitt merki er að koma inn hérlendis en hefur lengi þekkst ytra, St. Croix.  Orvis telst til frægra stanga og eflaust gleymast nokkur af þeim þekktari sem byrjendur velta fyrir sér þegar þeir hætta sér inn í undraheim fluguveiðanna.  Af þeim sem sérstaklega eru framleiddar fyrir íslenskar búðir má nefna Nielsen og Islandia, og fleiri sem Flugufréttir hafa kynnt upp á síðkastið.  Besta ráðið er að finna sér trúnaðarvin með reynslu og spyrja.  Og leita sér síðan viðbótarálits fleiri ef hægt er.

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði