1.
Mér sýnist sambandið milli jazzins og fluguveiða vera augljóst KK. Þetta byggir hvort tveggja á tilfinningu; hraðabreytingum, ballöðum, og svo heilu sólóunum.
,,Já, það er nokkuð til í því og helst ef maður er með erfiðan fisk, eins og allir sextán pundararnir mínir voru. Það var oft þegar ég var að eiga við þá, að mér datt í hug að það þyrfti svolitla músík til að fylgja þeim eftir svo ég missti þá ekki. Það má ekki halda of fast í þá, samt stöðugt og plata þá svo í restina og landa þeim.??
Slíkar viðureignir eru þá einskonar sóló er það ekki?
,,Þetta er ansi mikill spuni vegna þess að þú veist aldrei um næstu hreyfingu fiskins. Það er málið.??
Svo veltum við þessari samlíkingu aðeins áfram fyrir okkur, þangað til mér verður á að líkja sumum veiðimönnum við óstýrláta trommara, sem geta ómögulega haldið sama takti og hljómsveitin.
,,Þú mátt ekki tala um þetta í samhengi við trommara. Ég held að við Gunnar Ormslev sálugi höfum gert okkur grein fyrir því í Kaupmannahöfn fyrir mörgum árum. Þar var það trommarinn sem stjórnaði danska útvarpsbandinu í Tívolí og bókstaflega lyfti öllu saman upp. Svo þú skalt ekki tala illa um trommara?? bætir hann við og hlær.
En hefur þú fundið fyrir þessum spuna, að hann sé lykilatriðið, að laga sig að náttúrunni sem væri þá ígildi allrar hljómsveitarinnar og ná þannig réttum takti, eða lagi sem liggur þarna einhverstaðar í loftinu? Nú eða ofaní vatninu?
,,Náttúran er eiginlega públikum sem maður er að spila fyrir. Maður verður smávegis að leika á hana, selja henni músíkina, ekki rétt? Eins verður maður að selja fiskinum fluguna sjáðu.??
Þú fórst trúlega ekki mikið í Orvis búðina í New York, þegar þú varst þar við nám á fimmta áratug síðustu aldar?
,,Nei, ég var ekki kominn í fluguveiðina þá. Ég átti heima á 123 stræti og Harlem byrjaði á 125. Appolo leikhúsið var steinsnar frá og þangað fór ég alltaf á laugardögum. Þarna var orð dagsins jazzmúsík, allt var að koma til New York. Ef maður gæti aðeins upplifað svona á nýjan leik.?? Hann lygnir aðeins aftur augunum.
?Það sem ég man best eftir frá þessum árum var bar sem ég kom inná. Hann var álíka og þetta herbergi sem Litla flugan er í, heldur lengri. Alveg útí horni var Count Basie bandið og Ella Fitgerald. Ég var svona þremur metrum frá henni þar sem ég sat, það var eins og ég væri inní hljómsveitinni. Þetta var cool. Ég er ekki frá því að þetta hafi komið mér eitthvað til góða í veiðinni.??
2.
Frá New York í íslenska vorið. Ég held að vorveiðin byrji alls ekki 1. apríl Kristján. Mér sýnist menn veiða í sínum eigin hugarheimi alla daga og nætur næstum því. Veðrið í apríl er heldur ekki oft uppá marga fiska, einsog raunin varð á nú í aprílbyrjun.
?Þetta er kannski rétt hjá þér?? segir Kristján. Stutt þögn. ,, Í rauninni er það heldur ekki fyrr en 1.maí sem veiðin byrjar af einhverri alvöru eins og í Hlíðarvatni. ??
KK kynntist einmitt Hlíðarvatni í Selvogi löngu áður en nokkur fór þangað að ráði. Hann keypti veiðileyfin hjá fremur sérstökum manni vestur í bæ.
?Ég þurfti að koma í sparifötunum?? segir KK.?Maður fékk ekki leyfi ef maður var ekki vel klæddur. Ég keypti gjarna tvær stangir og stundum gat ég alls ekki fengið neinn með mér. Það breyttist svo fljótlega, nú er slegist um þetta.??
Hvaða flugur varstu að setja undir svona snemma vors, einsog í maí?
?Þegar ég byrjaði fyrst var ég með venjulegar flugur, eins og Alexöndru, Teal and black og allt þetta. Ég var einfaldlega bara með flugur sem voru einu númeri stærri en þær sem ég notaði í Elliðavatni, númer 10 eða 12. Svo eftir að púpurnar komu til sögunnar þá fór veiðin að ganga miklu betur.??
Leitaðir þú gjarna að fiski með dropper?
?Já, ég gerði það en ég gafst fljótlega upp á því. Ég var kominn með reynslu af ákveðinni flugu og byrjaði einfaldlega með hana. Ég notaði hægt sökkvandi
línu eða bara flotlínu, eftir því hvað ég var að reyna í það og það skiptið. Svo var auðvelt að skipta um línu, sem menn gera reyndar alltof sjaldan.??
Mér finnst einmitt Kristján einsog stærsti óvinur veiðimanna séu þeir sjálfir. Menn eru svo ótrúlega íhaldssamir á línur, svo ekki sé minnst á sérviskuna varðandi flugur?
?Það er rétt, ef maður hefur bitið í sig ákveðna flugu er erfitt að skipta, jafnvel þótt hún sé orðin óhrjáleg. Ég minnist þess þegar að við Egill sálugi Kristinsson vorum að veiða í Hlíðarvatni. Ég var alltaf í stórfiski og var með Teal and black. Ég var búinn að fá fimm sex fiska í beit og varð litið á fluguna. Þá var farið að trosna töluvert af belgnum á henni og aftur
úr henni, tvær þrjár flugulengdir. Svo ég segi við Egil: Best ég klippi þetta af. Neineinei, sagði Egill. Og það var tilfellið, ég veiddi tvo í viðbót á þessa flugu, sem var varla fluga lengur, heldur ófreskja. Svo tók
hætti veiðin jafn skyndilega og hún byrjaði.??
Það er einmitt þetta undur Kristján, sem enginn skilur, þegar tekur fyrir veiðina einsog ský fyrir sólu.
KK hlær. ?Það segir þú satt.??
Það var oft kalt við Hlíðarvatn á vorin og óþarfi að tala um það í þátíð. Kristján rifjar upp hversu misvindasamt var undir Hlíðarfjallinu, ekki ósvipað og þekkist undir Eyjafjöllum. Ég hitti einu sinni bónda sem lýsti því á stórbrotinn hátt þegar vindurinn var úr öllum áttum. Ef þú værir að fara í Hlíðarvatn í fyrramálið KK, hvað værir þú að hnýta nákvæmlega núna?
?Ef ég ætti ekki nóg af Peacock þá myndi ég hnýta eina svoleiðis, með kúlu, stærð svona 10 ? 12. Það er bara verkurinn, að síðan ég fór að sjá illa, þá gengur mér heldur ekki vel að hnýta fluguna á tauminn. En ég get alveg kastað, það er allt í þessu fína. Ég er yfirleitt með góðu fólki og það hjálpar mér við þetta.??
Hvenær fór sjónin að dofna svona?
?Það blæddi inná hægra augað fyrir nokkrum árum og svo fór smátt og smátt að hverfa sjónin á vinstra auganu líka. Svo nú get ég ekkert hnýtt, því
miður.??
Það er andstyggilegt er það ekki?
?Nei, nei, þetta er partur af lífinu??, segir hann hægt og fer að undirbúa neftóbaksinntöku. Uppkastið að rauða Francesnum í væssnum er auðsjánalega með fáeinum neftóbakskornum, sem sennilega var ekki í upprunalegu uppskriftinni. KK hefur líka hnýtt sinn skammt um dagana, sennilega tugþúsundir flugna, og á ennþá sitt lítið af hverju sem hann seldi ekki með
Litlu flugunni. Ég velti því upp við hann, hvort menn hnýti ekki færri straumflugur til silungsveiða en áður, eftir að púpurnar komu til sögunnar.
?Jú, það má segja það. Það eru mjög fáir sem nota straumflugur í vatnaveiði en ég þekki menn sem hafa gert það með góðum árangri. Ég hef einstöku sinnum sett út Black ghost og fengið á hana en ég hef ekki stundað að nota straumflugur í vötnunum. Þetta eru jú straum flugur, ég nota þær helst í straumi.??
Hvernig hefur þér reynst að veiða á straumflugu og nota líka dropper við silungsveiðar í ám?
?Það hef ég reynt þótt ég hafi ekki notað púpur. Ég var í Hrútafjarðaránni á silungsveiðum, Árni Baldursson var með mér. Ég var með straumflugu á endanum og Black brahan sem dropper. Svo fékk ég lax á dropperinn og ég var fljótur að færa hana niður því ég var svo hræddur um að slíta tauminn. Þarna fékk ég fullt af fiski. Árni kom svo og tók við af mér þegar það var smávegis eftir af tímanum. Ég sagði við hann að hann ætti eftir að setja þrjá laxa og missa einn. En ég sagði honum ekki að hann myndi detta í ána líka, á bólakaf.
En allt hitt stóðst?
?Jájájá.?? Og KK fær sér í nefið, til minningar um þessa 8 eða 9 punda fiska.
3.
Það er mikill munur að hafa góðar græjur eða lélegar. KK sýnir enga miskun í þeim efnum; alltaf að kaupa það besta. Það er auðveldlega hægt að losa sig við það besta fyrir gott verð en draslið safnar bara ryki útí skúr. Svo nefnir Kristján bestu laxaflugurnar sínar, sem óhætt er að leggja sig eftir að muna:
?Black brahan er eftirlætið mitt?? segir hann. ?Líka Yellow dog og Garry. ?? KK stendur hægt á fætur og sækir eina af hverri tegund í skúffur sínar. Brahan er hnýtt með mjög löngu skotti.
Black brahan er grátlega einföld fluga KK?
?Það segir þú satt. Hún var upprunalega með ullarbúk, en mér finnst hún best með Lúrexi og rauðum haus. Það eru ekki allir ánægðir með að hafa hana með rauðum haus en ég vil hafa hana þannig.??
Og hvaða stærðir myndir þú nota að vori, eða snemmsumars?
?Ég myndi byrja á númer 8 eða 10. Garry nota ég aldrei nema í númer 8, það er nú svo skrýtið. Ég hef hnýtt hana mikið í stærð 10 og selt mikið af henni, en ég nota ekki þá stærð sjálfur. Einu sinni var ég að veiða í Vatnsdalsánni með Þórarni Tyrfingssyni. Við vorum báðir með Black brahan undir, hann með númer 4 eða 6, ég með stærð 12. Við skiptum um stöng og urðum hvorugur varir. En um leið og við skiptum aftur og notuðum okkar eigin stangir, okkar eigin stærðir af flugum, þá vorum við báðir í fiski.??
Það er vitaskuld alkunna, að margir veiða vel á þær flugur sem þeir trúa á, þótt það sé líka augljóst að það séu flugurnar sem þeir reyna mest. Þetta vekur upp sígildar spurningar um sambandið milli flugunnar sem maður hefur undir og trúarinnar á að hún gefi.
,,Þetta fer eftir svo mörgu sjáðu. Þumalputtareglan er auðvitað ljósar flugur í sólskyni, dökkar í þykkviðri. Maður reynir þetta kannski fyrst og smækkar flugurnar eða stækkar eftir því hvað er að gerast. Það sem mér finnst alltaf skrýtið er að fara úr flugum númer 8 í 10-12, og síðan að nota stórar túpur sem fiskurinn kannski tekur loksins.??
Þú ert nú þykist ég vita Kristján þrjóskur maður í veiði. Þú hættir sennilega aldrei eftir þrjú fjögur köst?
Svolítil þögn. ,,Ég er þolinmóður í veiði skulum við segja. ?? Svo hlær hann góðlega. ?Ég hef alltaf verið svona. Ég er búinn að vera nokkuð mörg ár í þessu og hef alltaf jafn gaman að því koma að veiðiá. Ef til vill fengust fimm laxar deginum áður á þrjár stangir, eða einn, skiptir engu máli. Þá hugsa ég stundum með mér: Já, það fékkst bara einn í gær. Þá hlýtur að vera eitthvað eftir. Maður er óforbetranlegur í þessum málum.??
Iðan er staður sem þú þekkir orðið vel?
,,Já, heldur betur. Það er svo gott fyrir mig núna, þegar ég er farinn að sjá illa, að ég þarf ekkert að vaða út í. Þarna kemur Stóra Laxá næst manni og gruggið utar. Ég kasta þangað og venjulega tekur hann á mörkum Laxárinnar og Hvítárinnar, í skilunum. Stundum held ég flugunni í Stóru Laxá og er löngu kominn framhjá skilunum og þá er tekið. Nú er svo komið að takan er aðalatriðið, að ná fiskinum er orðið aukaatriði. ??
Þú sérð þetta eingöngu fyrir þér í huganum Kristján, núorðið?
,,Sennilega já. Ég kasta 45 gráður niður og þó ég sjái ekki hvar flugan kemur niður, þá veit ég það svona nokkurn veginn, af fyrri reynslu. Ég er búinn að sjá þetta svo oft. ??
Svo er það inndrátturinn, það eru þúsund aðferðir við að draga inn línu. Mér sýnist að margir hafi aðeins trú á strippinu sem kallað er, dragi eins og komið sé að skuldadögum? Er það líka þín helsta aðferð?
,,Neineinei. Ég læt strauminn fyrst og fremst um þetta, alveg þangað til að flugan er beint niður undan mér. Þá bíð ég svolítið og dreg mjög hægt. Það kemur auðvitað fyrir að ég strippi línuna, ef ég hef fundið fyrir fiski. Þá kasta ég á nákvæmlega sama stað og strippa.??
Og svo tvö skref til hægri, einsog í dansskólanum og heldur áfram niður með ánni?
?Ekki eru það alveg tvö skref. Ég man eftir því að ég var leiðsögumaður hjá Englendingum í Kjósinni í gamla daga, þá fóru þeir alltaf eitt skref í einu með tvíhendurnar sínar. Það var aldrei annað og allir gerðu eins, tvíhendukarlarnir.??
Það er kannski nákvæmlega þetta augnablik KK, eftir að línan er komin úr straumnum, sem getur verið svo ólýsanlega erfitt og langt. Það eru fæstir sem bíða nógu lengi eftir að línan rétti út sér, hvaðþá þeir leyfi henni að liggja andartak, heldur byrja strax að draga inn?
,,Það er trúlegt. Það er oft sem hann tekur þá, þótt hann taki ekki um leið og flugan kemur útúr skilunum.??
Hvað er ráðlagt að bíða lengi Kristján, þessi augnablik virðast oft vera heil eilífið?
,,Neineinei.?? Hann hlær hátt og bætir við: ,,Þetta er ekki heil eilífið nema fyrir byrjendur.??
Er rétt að bíða einn, tvo takta kannski einsog í góðum jazzstandard, eitthvað svoleiðis? .
,,Því ekki það.??
4.
Hættulegasti óvinur veiðimannsins
Einn hættulegasti óvinur veiðimanna KK eru þeir sjálfir kannski, þessir menn sem segja alltaf: Ég veit. Kannast þú við þessa tegund veiðimanna sem
þykjast vita alla skapaða hluti?
Þarf ég að nefna nöfn??? KK hlær innlega, með þessum smitandi djúpa hlátri. Því ekki það, segi ég.
Það er mjög mikið atriði, að menn taki mark á þeim sem hafa reynslu. Svo geta þeir vinsað úr þeim upplýsingum öllum saman. En að koma í fyrsta skipti á veiðistað og vita þetta allt saman, það er mesta fjarstæða. Og ég nefni engin nöfn.??
Finnst þér þessi tími KK, vorið sjálft, ekki vera fyrir veiðimann einsog fyrsta ástin í raun og veru?
,,Það er mikið til í því. Árni Ísleifsson sagði einhverju sinni við mig: Við byrjum alltaf of snemma að veiða og hættum of seint. Það var oft svo mikill kuldi á vorin að það var ekki eins mikil ánægja út úr veiðiskapnum. En það er þessi ásókn manns í að veiða, það er ekki gott að afskrifa hana.??
KK er enn að veiða silung, segist fara stundum uppí Elliðavatn og á Þingvöll. Þjóðgarðurinn er reyndar orðinn mjög þétt setinn veiðimönnum. Það liggur við að Öfugsnáðinn sem einu sinni var kallaður leynistaður, sé orðinn líktog Lækjartorg á góðum degi.
?Það eru margir aðrir staðir þarna á Þingvöllum?? svarar KK. ?Þótt aðstaðan á Öfugsnáðanum sé afskaplega góð, ég viðurkenni það, þá eru margir fleiri
staðir góðir. Ég komst einu sinni ekki nema hálfa leið útá Lambhaga vegna þess að ég var alltaf í fiski á leiðinni.??
Svo fær KK sér aftur í nefið.
Finnst þér ekki skrýtið að koma hingað í Litlu fluguna núna, segi ég. Það eru nokkur ár síðan þú seldir mestallt útúr þessu herbergi hér. Má ef til vill bara segja að starfsemin liggi niðri um stundarsakir?
?Það var áfall þegar ég seldi Litli Fluguna, ég viðurkenni það. En það var orðið svo mikið að gera hjá mér, að ég mátti ekkert vera að því að fara í
veiði.??
En þú kemur hingað reglulega Kristján?
?Jjájá, en ég get svo sem ósköp lítið gert. Ég á líka sennilegast nóg af flugum ef út í það er farið. Í rauninni nota flestir bara þrjár fjórar flugur í veiðiferð. Ef þú ert í silungsveiði og byrjar á flugu sem gefur vel, afhverju ættir þú líka að skipta? Allflestir veiðimenn veiða ekki nema á fáar flugur þótt þeir séu með full box.??
En er ekki skemmtilegra að veiða á fallegar flugur en ljótar?
?Þegar allt kemur til alls þá skiptir mestu máli það sem fiskurinn tekur. Ég man eftir bræðrum sem komu gjarna hingað í Litlu fluguna. Annar hnýtti flugur sem gátu farið uppá vegg, hver einasta, þær voru svo fallegar. Hinn var fjári hroðvirkur. Svo fóru þeir í Þingvallavatn og sá sem var með ljótu flugurnar var með á í hverju kasti. Hinn varð ekki var.??
Fyrsta veiðferðin hjá KK í vor, er eiginlega sumarferð. Hann fer í Stóru Laxá, á fyrsta og annað svæði í júlí. Kristján segist ekki fara lengur í Laxá í Þingeyjasýslu, hann geti ekki lagt það á neinn að fara með sér, þegar hann sé orðinn svona aldraður og seinn í förum.
Annars er Laxá toppurinn og gleymdu því ekki drengur minn. Ég var staddur þarna einhverju sinni, og var einn í ánni sem var harla óvenjulegt. Ég leitaði skjóls í hellisskúta fyrir regndembu, þegar allt í einu kemur mannvera útúr rigningunni. Ég hélt fyrst að þetta væri draugur, en sá svo að þetta var ungur maður. Hann var með gamlar græjur frá pabba sínum, svo mikið drasl að ég hef aldrei vitað annað eins. Ég skipti um girni hjá honum og svo fór ég í boxið hans. Þar voru bara stórar laxaflugur, nema ég fann eina tvíkrækju, Black docktor, sennilega númer 8 og setti hana undir fyrir hann. Svo sagði ég honum að fara niður að á um leið og stytti upp og kasta á ákveðnum stað. Hann fékk eina þrjá fiska og var ótrúlega hamingjusamur með
þetta allt saman.??
Þarna er kannski komið eitt helsta einkenni góðs veiðimanns, hjálpsemin. KK á nóg af henni. Svo er kannski enginn veiðimaður kominn til fulls þroska, fyrr en hann kann að lesa vatnið líktog opna bók, en það er efni í annað, langt samtal. Svo ég dragi saman stemninguna sem enn ríkir í Litlu flugunni: Keyptu bestu græjurnar, vertu ófeiminn við að leita ráða og hjálpa öðrum, og svo skaltu sjá til hvernig tekst til með sveifluna.