Sjóbleikjan er oft mesta ögrun stangveiðimanna á Íslandi. Á flugur.is eru margar greinar um sjóbleikjuveiðar og kannski segir titill
einnar meira en nóg: ,,Þegar Heimasætan og Peacock eru ekki nóg". Og mætti bæta við, ,,og þegar ekki nægir einu sinni að kasta Flæðarmús líka!", svo dyntótt er hún. Margir fara aldrei af því stigi að veiða sjóbleikju með Flæðarmús, Heimasætu eða Peacock aðferðunum. Og tala svo um óstjórnlega dynti ef þeir fá ekki neitt og allt vaðandi í fiski í kringum þá! Ég tók því saman nokkrar grundvallarreglur til að minna menn á flest það sem þarf að hafa í huga. En á flugur.is er sagt að segja svo mikið af heilræðum um sjóbleikjuveiðar að ætla mætti að þessi fiskur væri heilagur. Ja, er hann það ekki?
Hvaða aðferðir þarf sjóbleikjuveiðikonan að kunna?
1) Straumflugan. Hún er algengust og ofmetnust. Flæðarmús, Heimasæta,
nobbler, Black Ghost, Dentist og fleiri í það óendanlega.
En reynið að breyta um inndrátt í staðinn fyrir að skipta endalaust um flugu ef ekki tekur. Hefðbundin eru hæg inntog sem smám saman verða hraðari er flugan kemur nær landi. Reynið einnig: stutt ör tog, mismunandi
blæbrigði; eða: látið fluguna sökkva vel, dragið svo eins hratt og hægt er með hörðum rykkjum. Nobblerar frá Stefáni Hjaltested eru skæðir.
2) Kúluhausar. Næsta algengasta aðferðin. Andstreymis (já, líka á útfalli í ósum), og látið reka með straumi. En reynið líka að láta hana sökkva og draga svo inn með mishröðum og mislöngum rykkjum. Flugur: Peacock með kúluhaus, Pheasant tail, Blóðormur, Héraeyra, milljónir í viðbót!
3) Litlar þríkrækjur. Númer 12 eða 14 eða jafnvel 16. Rauð francis með gullkrók númer 14 eða 16 er algjör snilld. Reynið einnig litlar bláar.
Undir þennan flokk falla líka þríkrækjur eins og Whisky fly, Varði og laxaflugur eins og Undertaker, Hairy Mary. Gleymið ekki Green Brahan!
4) Gárubragðið. Bleikjan getur orðið vitlaus í flugur með gárubragði, sú aðferð er kennd á flugur.is. Reynið í hávaðaroki alveg eins og í logni.
5) Örtúpur í yfirborði. Vaðandi bleikja getur fúlsað við öllu eins og dæmin sanna, þar til örtúpa (er dregin hratt í gegnum torfuna í yfirborðinu. Langur taumur, létt köst, og dregið hratt inn. .
6) Marfló. Algengasta fæði sjóbleikju í ósum. Djöfullegt getur verið að hitta nákvæmlega á réttu marflóna. Litbrigði marflóar í bleikju geta verið: græn, grá, gul, appelsínugul og dökkt út í svart og miklu meira, stærðir frá númer 10-16. Mestu vandræði sem ég þekki í sjóbleikjuveiði eru þegar hún er í miklu af marfló og lítur bara við einu afbrigði, þessu sem hún étur þá stundina. Héraeyra getur bjargað manni svo undarlegt sem það virðist.
7) Lirfur, pöddur. ,,Litlar svartar" er safnheitið yfir þetta. Bleikjan getur læst sig í ákveðið æti smádýra, oft lirfu sem er á leið til yfirborðs að klekjast. Ef sést á hringi undan fiski undir yfirborði (ekki á yfirborði) er þetta málið. Oft má sjá glampa á kvið þegar þær snúa sér á eftir smádýrum. Og veiðimenn flaska á því að smækka ekki nóg, númer 18-26 gildir!
Flugur: MME, Tailor, Burton (er á flugur.is), Buzzer (svartur, rauður, grænn),
Pheasant tail. Allt án kúlu.
8) Leyniráð: Prófaðu Blóðorm. Hefur bjargað mörgum deginum hjá mér. Á flugur.is er myndband um það afbrigði sem ég held mikið uppá og svínvirkar.
9) Leyniráð 2: Lærðu að veiða á ,,viðhengi" (dropper). Settu 2-3 litlar
flugur í röð á grannan taum og leitaðu þannig að þeirri réttu. Smærra er oft betra. Hafðu þyngda flugu fremst. Til dæmis latex flugu með kúlu.
10) ,,And þurrfluga of course!" Black Gnat er augljós, en það er ekki nóg. ,,Caddis" flugur eru stór flokkur, taktu eftir hvílík fiðrildafjöld er á sveimi kringum þig. Notaðu langan grannan taum (4-6x) og veiddu eins og maður. Þetta er rækilega kennt á flugur.is. Tilfinningin að negla trega bleikju á þurrflugu er engu lík.
Þessar duga vel: Royal Coachman, Evrópa, CDC flugur (einkum frá Marc
Petitjean, sjá www.petitjean.ch), Moskító.
Hér eru 10 aðferðir til að veiða sjóbleikju, hver og ein er efni í bók. Einhver ætti að duga, en ef ekki er sú ellefta eftir: Oft hangir lirfa í yfirborðinu og er við það að klekjast út, er hvorki í kafi - né ofaná filmunni eins og þurrfluga. Þetta getur verið nákvæmlega það sem bleikjan vill. Hvað gerir þú þá? Ellefta boðorðið er á flugur.is og er stundum það eina sem dugar. Ekki nema von að manni finnist þetta heilagur fiskur. Einum hrár að japönskum hætti eða léttsoðinn með nýjum kartöflum og sméri.
Mjög margar greinar eru á flugur.is sem vert er að benda á:
Ítarefni: Helsta greinin um bleikjuna.
Sjóbleikjan, tíminn og tilveran.
Þá er greinaflokkur Pálma Gunn um bleikjuna á spjallsíðu, og með því að notar leitarvélina má finna gríðarlegt fjölbreytt efni um sjóbleikjuveiðar.