Kaffistofan
á barðinu
Flugufréttir munu á næstunni leita til nokkurra þjóðþekktra veiðimanna og biðja þá að segja frá sínum eftirlætis veiðistað og hvernig best sé að bera sig þar að.
Þýðandinn, þulurinn og veiðimaðurinn Gylfi Pálsson ríður á vaðið. Hann segir að svokölluð Kaffistofa á barðinu neðan við Tóftina og þaðan niður í Flóann sé hans eftirlætis veiðistaður. Við erum að tala um Bíldsfellsland í Sogi.
,,Þetta er í sjálfu sér einfalt," segir Gylfi. ,,Við byrjum neðan við bílastæðið, vöðum þar út í og köstum meðfram hraunbrúninni en yfirleitt tekur hann ekki fyrr en menn eru komnir niður að Tóftinni. Þar liggur hann, bæði við kantinn og jafnvel í holu inni á berginu. Það er meira að segja möguleiki á
því að setja í lax í lygnunni innan við en oftar er þar nú bleikja.
Eftir að hafa kannað þetta svæði í þaula er vaðið niður með hraunkantinum þar til komið er að nokkuð stórum steini. Ágætt er að fara upp á hann og þá er hæfileg kastlengd að því sem áður var kallað Efra-Horn og hefur
löngum þótt góður veiðistaður. Síðan höldum við að landi og fikrum okkur niður á sandbotninn út að dálítilli steinnibbu, þaðan nær maður að kasta á Kofastreng, þann gjöfula veiðistað sem gjarnan er dvalarstaður stórra fiska."
Að sögn Gylfa er gott að kasta eilítið upp fyrir sig í Kofastrengnum, þannig að flugan nái að sökkva, ,,og þá geta ævintýrin gerst. Rétt eins og þegar ég var þar einhverju sinni með Sweep, tvíkrækju númer 12 og sökklínu og fékk fjóra laxa í beit, frá 6 og upp í 12 pund. Við hverja töku var ég logandi
hræddur um að missa fiskinn sem tók þessa smáu flugu, en allir voru þeir það vel teknir að ég þurfti að skera fluguna lausa," segir Gylfi Pálsson sem veitt hefur þá nokkra í gagnum tíðina