Kynni mín af þessu lágvaxna, hægláta en fjörmikla og gjafmilda Bandaríkjamanni tókust fyrir nokkrum árum. Veiðifélagar hans voru á urriðaveiðum í Mývatnssveit og nutu leiðsagnar ekki ómerkari veiðimanna en Pálma Gunn, Engilberts Jensens og fleiri sem allir gátu sagt vel til. Krieger var sem kóngur í ríki sínu í þessum hópi. Mikilhæfur veiðimaður, eins og hver annar mannvinur í fasi og náttúrunnandi fram í fingurgóma. Besti flugnakastari sem ég hef komist í kynni við. Mörg myndbanda hans (og nú DVD diskar) hafa verið tekin upp hér á landi og Krieger tekið þátt í veiðimyndagerð með Íslendingum.
Krieger kastið
Síðar kom Krieger og kenndi köst á Miklatúni og víðar. Í mínum augum er hann einfaldlega yfirburðamaður. Kastaðferðin er einföld og fullyrðing hans um að hún sé sú ?öflugasta? - en með minnsta hugsanlegu erfiði - er trúlega rétt. Þegar hér var komið sögu á ferli mínum var ég sæmilega góður flugukastari til allra almennra veiða, ekkert meir. Eftir að hafa reynt að læra Krieger kastið kom ég varla út flugu í heilt sumar! Hann varaði mig við: Það er erfiðast að kenna gömlum hundi að sitja. Og þegar mismunandi kasttækni er blandað saman verður allt vitlaust. Þetta lærði ég þó. En smám saman hefur mér tekist að færa mig í átt að leiðbeiningum Kriegers. Best er að kunna ekkert þegar maður byrjar á Krieger kastinu! Byrjendur, njótið vel!
Ertu að fara í veiðitúr?
Fyrir mörgum árum var kona mín uppi við Elliðavatn að reyna að æfa sig, rifja upp það sem hún hafði lært á námskeiði um veturinn. Gekk illa. Flugan fór ekki út, línan fór í kös fyrir framan hana. Svona gekk heilt kvöld. Síðla gekk framhjá veiðimaður nokkur sem staðið hafði álengdar lengi. Staðnæmdist og spurði stundarhátt í kvöldkyrrðinni: ?Ertu að fara í veiðitúr?? Hún kvað já við. Hann sagðist sjá að hún væri að æfa sig ansi kröftuglega. Jújú. Og svo kom sagan. Hann gæti nefnilega einfaldað henni lífið. Sagði frá myndbandi sem hann hafði keypt um veturinn, tileinkað sér tæknina og allt gengi betur. Bauðst svo til að sýna henni undirstöðuatriðin. Köstin urðu strax betri. Tæknin afslöppuð og einföld. Þetta leit strax vel út.
Ekki blanda saman tækni!
Þegar við hjónin hittumst svo fyrir norðan sagði hún mér frá ?nýju tækninni?. Ég hnussaði. Borgaði sig ekki að hlusta á svona. Við höfðum fengið leiðsögn á námskeiði. Margreyndir menn reynt að fá úlnliðshnykkinn réttan, sveifluna góða. Ég vildi svo sannarlega ekki læra neitt sem einhver gaukur við Elliðavatn hafði numið af myndbandi! Þegar ég svo kynntist Krieger nokkrum árum síðar fékk kona mín uppreisn æru og ég varð að éta ofan í mig það sem áður var sagt. Nema ég fékk staðfest að það borgar sig ekki að blanda saman tækni. Það borgar sig að fylgja Krieger alveg eftir!
Einn sem kann að kasta!
?Hér er einn sem kann að kasta!? hrópaði Krieger í hópi annarra á Miklatúni. Það var ég. Svo sagði hann mér að ég myndi eiga erfitt með að venja mig á betri siði. Og það reyndist rétt. En það borgaði sig. Ég er fráleitt góður, en batna.
Hver er galdurinn?
Þessi grein er ekki til þess fallin að kenna mönnum fluguköst. Krieger gerir það sjálfur á bók (The Essence of Fly Casting) sem er prýðisgóð, og svo á myndböndum og diskum sem ég get mælt með. Krieger er áreiðanlega einn besti kennari sem völ er á, hann er svo ástríðufullur og skemmtilegur og einfaldar hlutina svo vel að hægt er að mæla með verkum hans af fullkominni einurð. Og svo kennir hann svo fjölbreyttar aðferðir!
Úti í á: Kastaðu svona!
Við fórum saman út í á. Hann kenndi mér strax ?reach cast? sem er einföld aðferð til að leggja fluguna fram þegar kastað er þvert yfir straum og yfir streng að bakka öndvert. Í hefðbundnu framkasti vísar stöngin beint fram frá veiðimanni. Línan leggst þvert á strauminn sem hrífur hana með sér og myndar bug, áður en flugan fær tóm til að sökkva. Einfalt ráð er við þessu. Þegar framkastið er hálfnað leggur maður stöngina til hliðar upp á móti straumi. Línan lendir þar með fyrir ofan veiðimann, en flugan þar sem henni var ætlað að lenda. Í stað þess að straumurinn dragi línuna strax niður fyrir fluguna, fær flugan tóm til að sökkva áður en til þess kemur, vegna þess að línan hefur lagst niður skáhallt fyrir ofan kastarann. Flókið? Alls ekki. Prófið bara næst þegar kastað er yfir straum að bakkanum hinum megin. Þegar flugan er í þann veg að lenda leggið þið stöngina þvert upp á móti straum og línuna þar með. Sjáið bara hvað gerist!
Veltikast
Tilgangur þessarar greinar er að minna á Mel Krieger fyrir þá sem vilja læra að kasta betur, verða sér úti um bækur hans eða myndefni. En við skulum líka læra eitt einfalt kast af Krieger. Allir geta lært það, líka þeir sem ekki tileinka sér tækni hans að öðru leyti.
Veltikastið er mjög mikilvægt þar sem hár bakki eða gróður er fyrir aftan mann og ómögulegt að bak-kasta. En það er líka áhrifaríkt þar sem einungis þarf að ná stuttum eða meðallöngum köstum, því erfiðið er svo lítið, og tíminn sem flugan er í loftinu miklu skemmri en ella. Hún vinnur meira fyrir sér!
Bragðið er einfalt. Stönginni er lyft og hún færð rólega aftur fyrir öxl ? og látin vísa örlítið aftur og til hliðar - án þess að línunni sé lyft af vatnsfletinum. Þetta er gert með rólegri hreyfingu. Þegar línan myndar dálítinn bug í loftinu fyrir aftan veiðimanninn, frá stangartoppi og niður, (eins og bóksstafurinn D) en liggur að öðru leyti á vatnsfletinum, er höndin færð snöggt fram með stöngina - og þetta átak þarf að vera snöggt. Síðan er stöðvað jafn snögglega, eins og þegar hamar hittir nagla. Engin úlnliðshreyfing. Vegna viðnámsins frá línunni sem lá á vatnsfletinum nær stöngin að skjóta henni fram ? eða velta. Þess vegna heitir þetta veltikast. Svona er hægt að veiða daglangt án þess að þeyta flugunni nokkru sinni aftur fyrir bak, og hámarka dvöl hennar í vatni og lágmarka lætin sem fylgja því að festa fluguna í bakka eða þræla stönginni fram og aftur liðlangan daginn! Þokkalega góður kastari nær tökum á þessu kasti á 5-10 mínútum. Flestir þurfa aðeins lengri tíma. Eftir hálfan dag er þetta komið. Þig mun undra hve langt þú veltikastar þegar æfingin skapar meistarann.
Sjá einnig:
Viltu læra veltikast?
Veltikastið einfaldað
Lærðu veltikast
Veltikastið, Pálmi Gunn.
Endurbirt heilræði
Höfundur SJH