2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
17.6.2020

Veitt og sleppt

 

Stór og hraustur urriði úr Vörðuflóa í Mývatnssveit. Veiðimaður Sigþór Steinn.

Það að veiða og sleppa er sífellt að verða algengara. Flestir eru veiðimenn sammála um ágæti þeirra aðferðar til verndunar og uppbyggingarstarf stofna. Margir veiðimenn kjósa hins vegar að sleppa því að veiða á slíkum svæðum og það er auðvitað val hvers og eins fyrir sig. Hér er endurbirt skemmtileg veiða&sleppa hugvekja frá árinu 2000 eftir Stefán Jón Hafstein. Þess má til gamans geta að núna tuttugu árum síðar er regla tvö orðin að skyldu í Elliðaánum, sitt sýnist hverjum um þá breytingu sem gerð var að kröfu Veiðimálastofnunnar. 

 Meistari minn í fluguveiði sagði að sumir fiskar séu svo dýrmætir að maður eigi ekki að drepa þá. Sama segir Veiðimálastofnun um stórlaxana.   Ég hef barist fyrir því að menn sleppi laxi í Elliðaánum, því þar er stofninn mjög veikur og í sögulegu lágmarki.   Annars staðar drep ég minn fisk á disk og er glaður með að fá góða máltíð til að deila með góðum vinum og fjölskyldu.  Að sleppa fiski á Íslandi er í flestum tilvikum óþarfi.

Það gera menn til að:

1) Vernda stórlax, og ætti alltaf að gera.
2) Hjálpa stofni sem á undir högg að sækja, eins og í Elliðaánum, stórlax og smálax.
3) Vernda viðkvæma staði sem þola ekki mikið álag.
4) Vernda álitlega hrygningarfiska sem greinilega eiga stutt í að fjölga í stofninum.
5) Kunna sér hóf, ekki hætta að veiða þegar vel gengur og allt er fullt af fiski í kössum, halda áfram og sleppa og njóta þess!

Þar sem er nóg af fiski og maður veiðir vel er í lagi að njóta bráðarinnar.  En, aldrei veiða í ruslatunnuna.  Það er höfuðsynd.  Kunna sér hóf.  Þess vegna þarf maður að kunna að veiða, og sleppa.

 

 

Góðar ástæður

 

Það eru nokkrar góðar ástæður fyrir því að veiða og sleppa:

 

Náttúran gerir siðferðislegar kröfur til okkar. Hvíti maðurinn drap vísunda út um glugga eimreiðanna á fleygiferð yfir sléttur villta vestursins. Því fylgdi siðferðisleg fordæming. Það sama gildir um maðkahollin sem koma í lok "flugutímans" í bestu árnar okkar. Hvaða vit er í að sópa upp 300 löxum á 10 stangir á þremur dögum? Þegar heildarveiðin í viðkomandi á er 8-900 laxar!

Alsiða erlendis, vísindin mæla með því að sleppa

 

Það er alsiða erlendis að veiða og sleppa og viðurkennt af vísindamönnum að hjálpar til.   19% laxa var sleppt í íslenskum ám 2008. . Nú hef ég kynnst ólíkum erlendum veiðimönnum, séð þá glíma við fiska og heyrt hve sjálfsagt þeim finnst að stilla fiskadrápi í hóf. Því miður eru sum veiðivötn okkar ekki nógu burðug til að þola það álag sem eitt sinn var í lagi. Og taumleysi við óréttlætanleg dráp sætir gagnrýni. Hvað getur ein fjölskylda laxveiðimanns torgað mörgum löxum?

 

En þá er það spurningin: hvernig á að veiða til að sleppa?

 

 

Mikilvæg aðferð

 

Í Veiðimanninum, (Júní 1997) er grein um málið. Bjarni Jónsson fiskifræðingur Hólaskóla í Hjaltadal skrifar um lífslíkur fiska sem er sleppt. Þær eru að sögn Bjarna mjög góðar hjá fluguveiddum fiskum, (veiðidauði 3-6%), mun síðri hjá maðk- eða spónveiddum fiskum (afföll upp í 40%, stundum enn hærra). Hann varar þó við að nýgenginn lax kunni að vera sérlega viðkvæmur. Rétt er að taka fram að allur fiskur er viðkvæmur.

Svo það er mikilvægt að veiða og meðhöndla fiska sem á að sleppa rétt.

Hér eru nokkrir punktar sem eru búnir að drepa nóg í frystikistuna:

 

1) Ekki þarf að taka fram að við veiðum á flugu.

 

2) Þá er að þreyta hann. Maður má ekki dauðþreyta hann. Því tekur maður fast á og færir hann fljótt og örugglega inn, eins og fiskurinn leyfir. Glíman verður mun harðari og skemmtilegri! Nú er lokið gaufi og taugatrekkjandi stríði sem er yfirskyggt af spurningunni: Sleppur hann? Hvað með það! Nei, nú nýtir maður stöngina og leiknina til að færa fiskinn fljótt og vel að - án þess að dauðþreyta hann. Það er miklu skemmtilegra! Skemmtilegum glímum fjölgar.

 

3) Nú er fiskurinn kominn að - og við tökum hann ekki uppúr. Og við færum hann ekki að sandeyri þar sem fín kornin geta sest í tálknin. Og við handleikum hann eins lítið og við getum. Og setjum alls ekki fingurnar ítálknin. Og tökum hann alls ekki upp á sporðinum.  Best er að taka hann ekki upp úr vatninu heldur færa sig á hæfilegt dýpi. Snillingarnir segja að nóg sé að færa fingurinn niður með tauminum og grípa um fluguna, þá muni fiskurinn hrista sig af í flestum tilvikum.  Til eru sérstakar tangir til að losa flugu án þess að snerta fiskinn.

Stundum vill maður taka mynd. Oftast nægir að taka undir fiskinn miðjan með annarri hendi og halda laust um sporðinn með hinni, lyfta fiskinum aðeins upp en samt ekki nema svo að vatni undir hann meðan félagar smella af. Og setja hann svo strax ofan í aftur og taka fluguna varlega úr.

Í neyðartilvikum þarf maður að taka hann upp á bakka. Og þá kemur að leiðbeiningu númer 4:

 

4) Ef fiskurinn er stórlax eða ótrúlega sprettharður urriði gildir enginn góður vilji: þú nærð ekki að losa fluguna fyrr en fiskurinn er vel þreyttur. Og þarft jafnvel fara ofan í kok uppi við bakka. Þá þarf að hressa fiskinn við. Ekki henda honum bara út í aftur. Lífgunin felst í að láta hann hvílast í greip sér í góðu vatni, (halda annarri hönd um stirtluna án þess að valda álagi) styðja við hann á réttum kili (og ekki láta hugfallast þótt það sé kalt).

Þegar þú sér að tálknbörðin bærast veistu að hann er að braggst, byrjaður að taka súrefni. Ef ekki, þá tekur þú um neðri skolt fisksins og "pumpar" vatni inn um kjaftinn og í gegnum tálknin. (Heldur um sporðstæðið með hinni.) Þetta er í gildi munn við munn aðferðarinnar, en þægilegra. Þegar hann tekur við sér þarf að sannfærast um að hann nái að jafna sig.

Fiskurinn syndir ekki burt ef þú heldur annarri hönd fyrir framan höfuð hans og ,,heldur honum í skefjum".

 

5) Að lokum lætur þú hann synda upp í strauminn úr greip þér, þá eruð þið báðir sannfærðir um að hann muni halda jafnvægi í vatninu og lifa góðu lífi reynslunni ríkari.

 

Þú veifar og þakkar fyrir góða skemmtun.

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði