Þetta var eitt að skemmtilegustu augnablikum sumarsins. Við vorum rétt komin á nýja veiðistað, það var vindur í fangið, það skaut fuglsbringum á lóninu og bára féll þéttingsföst að manni í flæðarmálinu.Ég kaus karftmiklu stöngina mína og lét mig hafa það það þrusa út sökklínu númer 8 með þyngdri straumflugu á stuttum stinnum taumi. Mig grunaði að bleikjan færi djúpt í þessu ölduróti. Og svo er auðveldara að kasta þungri línu beint upp í strekkingsvind. Fyrsta kast: hörku negling og stöngin í keng, báran brotnaði með hvelli og ég fann þetta svaka tak. Ég lét það eftir mér að hrópa upp af eftirvæntingu, og svo stökk fiskurinn: "Það er lax!" sagði ég við veiðifélagann sem var að gera klárt, og bætti við: "Ekki fara, ég þarf hjálp við að landa þessum!"
Nú verðið þið að fyrirgefa mér þessa ósk við félagann. Þetta var fiskur sem mig langaði að taka, og ég gleymdi mér: "Ekki fara, ég þarf hjálp við að landa þessum!" Ég er nefnilega hættur að ganga með háf til veiða. En þá á maður ekki að biðja næsta mann um að hjálpa sér að háfa!
Hvers vegna nota háf?
Þetta þarfnast útskýringar. Fyrir nokkru var ég að veiðum með nokkrum útlendingum sem ég hafði verið beðinn um að veita veiðifélagsskap. Mín var ánægjan. Fyrsta morgunninn kom gamli vinalegi Þjóðverjinn í öngum sínum: "Háfurinn, háfurinn, ég gleymdi háfnum!" Háfurinn í Þýskalandi! Ég tók minn þar sem hann hékk á bakinu og lánaði honum. Hef ekki sett hann upp aftur nema við sérstök tækifæri. Franskmaðurinn og Svissarinn í hópnum notuðu ekki háf. Skömmu seinna tók 4 punda urriði litla nymfu og vinurinn sem hélt í stöngina þreytti hann. Lengi. Svo lengi að ég var gáttaður og spurði hvort hann vildi hjálp við að landa? Nei takk. Og svo þreytti hann fiskinn upp í lófann á sér og lyfti á þurrt. Ég varð ögn undrandi og eftirvæntingarfullur: Notar þú aldrei háf? Hann svaraði ofur einfaldlega: "Aldrei".
Í þessari veiðiferð hætti ég að nota háf á spennuveiðum. Veiddi vel, sleppti mörgum, landaði nokkrum. Missti ekki neinn. En ég þurfti að vanda mig miklu betur með fiskana. Og þetta var meira spennandi: tækist mér að koma 4 punda þurrflugufiski upp í hendurnar á mér? Einn morguninn setti ég í einn fisk, þetta var mikilvægur fiskur, og ég vildi ná honum. Mig langaði í hann í matinn. Þetta var hörku baráttufiskur og ég þreytti hann alveg þar til hann gat sig ekki hreyft þegar ég lyfti varlega undir hann og setti upp á bakkann. Hann fékk öll þau tækifæri sem fiskur getur beðið um, en ég sigraði.
Meira spennandi
Síðan ég hætti að nota háf hef ég kynnst stönginni minni betur. Hvað hún getur, og hvað má bjóða grönnum taumi. Og þetta er mikil frelsun. Svo setti ég í lax í Laxá í Aðaldal. Engann stóran bolta en lax, sem tók rokur, stökk þrisvar, og steðjaði niður í straumharðan streng fyrir neðan hylinn. Það hvarflaði ekki að mér að sækja um háf. Ef ég get ekki unnið fisk með stönginni minni fer ég ekki að svindla á honum með háfi! Og aldrei í lífinu að biðja annan mann að læðast aftan að fiski og lauma undir hann neti. Nú fæ ég sem sagt miklu meira út úr baráttunni við fiskinn. Háfurinn er svindl. Að nota háf er eins og að - sparka í punginn á andstæðingnum. Maður ginnir fiskinn með flugunni. Maður tekur rétt á til að taumurinn bresti ekki. Maður beitir vogarstangarafli stangarinnar til að þreyta hann. En þegar baráttan stendur sem hæst setur maður hann í net. Net!
Veiðimaðurinn sem glímir við fiskinn á ekki að þurfa að kalla á aðstoð annarra og óæðri veiðarfæra - allra síst í höndum aðstoðarmanna.Og þó, til eru undantekningar Almenna reglan hjá mér er því nú að ganga ekki til veiða með net. Hins vegar sé ég þörf og not fyrir það við ákveðnar aðstæður. Ef ég ætla mér að sækja í matinn og vil ná, segjum 5-10 smábleikjum í kvöldmat handa fjórum, þá nota ég háf. Þá er ég einfaldlega að annars konar veiðum en venjulega. Þess vegna er mjög trúlegt að ég setji upp háf í Þingvallavatni, Elliðavatni, Hlíðarvatni- og svo sem víðar. Og ef ég er að veiðum í straumþungri laxveiðiá með háum bökkum og set í 16 punda tröll er ég tilbúinn að ræða það við veiðifélagann hvort hann sé til í að hjálpa með löndun. Jafnvel nota háf - þegar fiskurinn er fullþreyttur, en ekki fyrr. Annars er ég einn á móti fiskinum.
Aukin ánægja
Þessi breyting á mínum veiðihögum hefur stóraukið ánægju mína af veiðum. Hversu oft hefur maður ekki þrælað fiski nógu nærri sér til að moka honum upp í háfinn og öslað svo með hann spriklandi í land? Nú er ekkert sem heitir. Maður þarf að stúdera fiskinn, finna hvernig stöngin vinnur, reikna vel út hvernig best sé að standa að, og halda rétt við svo ekki leki út úr á örlagastundu. Það er ágætis tilfinning að krjúpa í straumlygnu, láta fiskinn þokast hægt að og finna hvernig stöngin vinnur hann nær og nær, uns hann liggur hreyfingarlaus undir lófa og maður lyftir honum rólega upp til þess að hann játi sig sigraðann. Þá er öllum brögðum beitt - sem heiðarleg geta talist. Þess vegna fer ég ekki með háf á bakinu í urriðaveiðar í Laxá, ég er alveg hjálpartækjalaus í laxinum í Grímsá, og þegar ég fór í Brúará um daginn datt mér ekki einu sinni í hug að spenna háfinn á mig. Ég átti nefnilega von á svo stórri bleikju. Morguninn eftir sópaði ég þeim upp í háfinn í Elliðavatni, enda mikil taka og kötturinn verulega áfjáður í bita.
Ég hefði sem sagt betur verið búinn að skrifa þennan pistil þegar ég setti í fiskinn í sumar, þennan sem stökk og strikaði svo hratt út að ég bað óvart um hjálp! En ég sem var á bleikjuveiðum hélt ég hefði sett í fyrsta lax sumarsins, og sá átti ekki að sleppa. Og ég háflaus. En svo tók ég fiskinn rólega nær og við sáum að þetta var í mesta lagi smálax, og svo þegar enn nær kom varð ljóst að þetta var bleikja, og þegar henni var landað reyndist hún ekki ná fjórum pundum. En svo hörð var þessi barátta að blessuð bleikjan lenti í háfnum hjá veiðifélaganum, á endanum. Svona er maður ófullkominn.
Heilræði: Auktu spennuna við veiðarnir, slepptu öllum hjálpartækjum til að landa!
Höfundur SJH
Upphaflega birt árið 2000