Sumarið 2016 var eftirminnilegt hjá Eiði Péturssyni á Húsavík, bæði í urriða- og laxveiði. Hann landaði tveimur löxum yfir 20 pund en löndun á 35 sm urriða kórónar þó allt hvað undrun og ofboð varðar.
"Já, við förum alltaf saman gamlir skólabræður í Svartá í Bárðardal í byrjun ágúst eða höfum gert í röskan áratug. Þar dveljum við í góðu yfirlæti í veiðihúsinu hjá Elínu í Svartárkoti. Að rölta með Svartá í jaðri Ódáðahrauns er alveg kyngimagnað og áin með allt sitt lífríki er líkt og vin í hraunjaðrinum. Oft og tíðum er urriðinn orðinn mjög tregur til töku þegar líður á sumarið en maður veit að þessir stóru drekar leynast í hraunsprungum í ánni, fela sig í myrkrinu þar niðri, en láta þó stundum glepjast af fallegri flugu sem rennur inn á yfirráðasvæði þeirra," segir Eiður í spjalli við Flugufréttir þegar spurt er um eftirminnilegasta fiskinn.
"Þannig vildi til að ég set í fisk í góðri beygju sem ég hef oft eytt miklum tíma í og veitt þar bæði vel og illa. Ég sé strax að þetta er frekar lítill fiskur og dreg hann því frekar hratt upp að bakkanum til að styggja hylinn sem minnst. En þá dregur aldeilis til tíðinda! Dökkur og heljarmikill skuggi kemur líkt og tundurskeyti upp úr svörtu djúpinu. Þetta svakalega urriðatröll ræðst á fiskinn sem hafði tekið fluguna mína. Fyrst tekur hann með stórum kjaftinum utan um hann þveran en nær ekki að gleypa hann þannig. Þá sleppir sá stóri takinu og býr sig undir að sporðrenna þeim litla. Hann er kominn með hann hálfan ofan í sig þegar allt situr fast. Ég fraus gjörsamlega og vonaði auðvitað að tröllið myndi gleypa puttann alveg þannig að nýr og miklu æsilegri bardagi gæti hafist. En honum tókst það ekki og eftir nokkur augnablik sleppti hann bráðinni, blikkaði mig og þakkaði gott boð. Lét sig síðan hverfa á ný til spúsu sinnar ofan í djúpinu þar sem hann dólar eflaust enn og fitnar eins og púkinn á fjósbitanum. Ég landaði nú þeim litla sem reyndist vera 35 sm og fékk líf eins og aðrir urriðar í Svartá. Vonandi hefur hann náð að forða sér í sína holu til að jafna sig eftir þessa tvöföldu árás veiðimanns og urriðatrölls úr undirdjúpunum. Þegar ég hugsa um þetta ævintýri og fleiri sem gerst hafa við Svartá í Bárðardal þá er mér með öllu óskiljanlegt að nú árið 2016 þurfum við að berjast fyrir því með kjafti og klóm að vernda ána fyrir gróðaöflum sem vilja virkja hana og eyðileggja. Framkvæmdir við Svartá yrðu algjörlega óafturkræfar og menn hafa ekkert leyfi til að haga sér svona gagnvart náttúrunni. Vonandi tekst okkur að stöðva þessa vitleysu."
En hvernig gekk laxveiðin hjá þér í sumar?
"Laxveiðin hjá mér var fín eins og hjá svo mörgum öðrum þetta sumarið. Ég veiddi í Skjálfandafljóti, Haukadalsá, Sandá og svo á Nessvæðinu í Aðaldalnum sem er algjörlega toppurinn á tilverunni og þar vil ég helst vera eins marga daga og ég mögulega get. Þetta sumarið náði ég tveimur löxum yfir 20 pund, öðrum á Hólmavaðsstíflunni í Nesi og hinum í Neðri 3ja laxa hyl í Sandá í Þistilfirði. Vinir mínir voru að veiðum þar og buðu mér að kíkja á sig til að "taka stöðuna". Skemmst er frá því að segja að eftir klukkutíma veiði negldi sá stóri White Wing nr. 14 hjá mér og var alveg dýrvitlaus. Þrátt fyrir öll stökkin og nudd við grjót í botninum þá náðum við honum á land og slepptum síðan aftur eftir spjall og mælingar.
Það er furðulegt hvernig veiðigyðjan getur hagað sér. Maður er búinn að lemja þessar sömu ár svo árum skiptir án þess að ná þeim stóra á land. En svo skyndilega koma tveir yfir 100 sm með nokkurra daga millibili. Þetta er auðvitað það sem gerir stangaveiðina svo magnaða. Maður veit aldrei hvað gerist næst, hvort eitthvað er að hafa eða ekki, en draumarnir geta og munu rætast.
Veiðisumrinu lauk ég síðan í Mörrum í Svíþjóð með góðum vinum. Þar setti ég í stærsta fisk sem ég hef á ævinni séð en það lak úr honum myrkrið var að skella á og við kvöddumst með virktum með von um að gætum kannski hresst upp á vinskapinn seinna."
Úr safni Flugufrétta
Birt 2016