Við fáum ekki oft fréttir af laxveiðiánum við Ísafjarðardjúp en þó eiga Flugufréttir þar góðan hauk í horni sem er Þorleifur Pálsson. Hann veiðir aðallega í Langadalsá og Hvannadalsá. Þorleifur var fús til að senda okkur stutta skýrslu og hnýtir við ádrepu um þá ógn sem stafar af fyrirhuguðu sjókvíaeldi á norskættuðum laxi við Ísland.
"Ég er nú einkum að umsýslast og veiða í Langadalsá og smávegis í Hvannadalsá, en þetta eru ár með sameiginlegan ós innst í Ísafjarðardjúpi. Það er í raun sömu sögu að segja hér og víða á landinu hvað varðar liðið sumar. Laxagengd var trúlega svona um meðallag en smálaxinn lét frekar lítið á sér bera. Lax gekk snemma í Langadalsána í vor og sá ég fyrstu fiskana þann 14. júní, sem er um tveimur til þremur vikum fyrr en að öllu jöfnu.
Veiðin hófst síðan 24. júní. Leyft agn í Langadalsá er fluga og sleppa ber öllum laxi 70 sm og stærri. Veiðimálastofnun kom fyrir laxateljara í ánni um mánaðarmótin júní-júlí og um teljarann gengu um 260 laxar, en eru trúlega fleiri því ef slýrek fer niður í gegnum teljarann þá lækkar uppsöfnuð tala. En starfsmenn Veiðimálastofnunar eiga eftir að lesa þetta í sundur. Eins var þó nokkuð af fiski komið í ána áður en teljarinn var settur upp. Mun meira var nú af stórlaxi í Langadalsá en oft áður og veiddust tveir laxar yfir 100 sm. Eins urðu menn varir við töluvert af vænni bleikju og hefur sá stofn farið hægt vaxandi undanfarin ár. En hér áður og fyrr var vænn bleikjustofn í Langadalsá.
Veiðimálastofnun hefur undanfarin ár framkvæmt seiðarannsóknir í ánni og hafa þær gefið vísbendingar um gott ástand seiða. Lítil úrkoma var við Ísafjarðardjúp í sumar og hef ég ekki séð Langadalsána svona vatnslitla en hef þó verið við ána meira og minna allt frá árinu 1970. Enda var afskaplega erfitt að fá laxinn til að taka og safnaðist hann fyrir á fáum veiðistöðum þar sem dýpið var mest.
Veiðitölur sumarsins eru. Langadalsá: Heildarveiði 245 laxar og 16 bleikjur. Sleppt var 163 löxum. Stórlaxar alls 161 og smálaxar alls 84. Hvannadalsá: Veiddir 59 laxar. Þar er leyft að veiða á flugu og maðk.
Hins vegar...
Við unnendur náttúru Íslands og þeirra gæða er hún veitir til lífs og sálar erum hins vegar mjög svo áhyggjufullir yfir öllum þessum fyrirætlunum um stór aukið sjókvíaeldi á laxi og regnbogasilungi, hvort sem það er á Vestfjörðum, í Eyjafirði eða á Austfjörðum. Hætt er við að ef af því verður fjari út skrif okkar og frásagnir af ómetanlegum samverustundum með vinum og félögum við ár og vötn á Íslandi."
Úr safni Flugufrétta
Upphaflega birt haust 2016