Í dag á Flugur.is förum við yfir sögu þessarar mögnuðu flugu. Krókurinn ætti að vera í öllum boxum hjá veiðimönnum sem fara í silung. Þessi veiðir vel hvort sem um er að ræða urriða, sjóbirting, bleikju eða jafnvel lax. Frábær og falleg púpa.
Ein þekktasta og fengsælasta veiðifluga á Íslandi heitir Krókur. Um er að ræða kúluhaus sem var smíðaður árið 2000 og vígður það sumar. Fluguna gerði Gylfi Kristjánsson í Steinahlíð 5h á Akureyri en Gylfi lést í október 2007 aðeins 59 ára gamall. Einu sinni sem oftar kom ég til Gylfa og við sátum í eldhúsinu og ræddum málin. Þá sýnir hann mér þennan kúluhaus og spyr hvað mér finnist? Mér fannst hann frekar skrýtinn, snúa eiginlega vitlaust því kraginn var aftast en ekki uppvið hausinn. Við tókum fluguna með okkur í bíltúr fram í Eyjafjörð, við vorum alltaf á slíkum rúntum og í þetta sinn ætluðum við að heimsækja Aðalstein bróðir minn og Jón Ágúst Bjarnason föðurbróður minn en þeir voru við veiðar á 5. svæði árinnar.
Jón Ágúst er líka ýmist kallaður Nonni eða Krókurinn, en mikil flóra uppnefna er á Húsavík. Króksnafnið hefur fylgt frænda mínum meira og minna frá 11 ára aldri og tengist atviki sem átti sér stað árið 1955. Nokkrir krakkar voru að leik við gamlan bæ á Húsavík sem hét Grafarbakki og skemmtu sér við að draga hvert annað yfir þakið á bænum og notuðu til þess keðju með hákarlaífæru á endanum. Þá vildi það óhapp til að Nonni rann til þegar hann ætlaði að standa í ífærunni og hún skorðaðist upp í nára. Nonni var einn öðru megin kofans en krakkarnir drógu í hinum megin. Sem betur fer heyrði mamma mín hljóðin í drengnum, hljóp út í skyndi og bjargaði honum. Farið var með hann upp á spítala þar sem loka þurfti skurði sem hann fékk í nárann. Þótti mikil heppni að ekki fór verr. Æskuheimili mitt á Húsavík heitir Grafarbakki og var byggt rétt við þennan gamla bæ, nafn sitt dró bærinn af mógröfum sem voru skammt frá bæjarstæðinu.
Þegar við Gylfi hittum Nonna, þar sem hann var að veiða í Eyjafjarðaránni, var hann ekkert sérstaklega ánægður. Hann steig upp úr ánni og sagði við mig með býsna ásakandi röddu; "Þessi upstream veiði sem þú ert alltaf að predika skilar ekki neinu, ég er búinn að vera hérna í hálftíma, skipta og skipta um flugur og þetta virkar ekkert." Þá réttir Gylfi fram lófann með nýju flugunni í og spyr; "Viltu prófa þessa?" Nonna fannst flugan hálfskrýtin við fyrstu sýn eins og mér, setti hana undir og fór út í ánna aftur. Á næstu 15 mínútum landaði hann fjórum risableikjum á fluguna; þær voru allar 4-5 pund. Á eftir sátum við allir á bakkanum gersamlega dolfallnir. Flugan var skírð Krókur í höfuðið á frænda mínum og veiðistaðurinn heitir síðan Króksbreiða og hefur verið einn sá besti á 5. svæði Eyfjafjarðarár.
Meðfylgjandi eru myndir af Króknum (flugunni), Króknum (Nonna frænda) og Gylfa Kristjánssyni. Svo hafði ég eina með af sjálfum mér þar sem ég er að háfa fallega bleikju á Bíldsfelli í Soginu, Gylfi situr á bakkanum og fylgist með en fiskurinn tók að sjálfsögðu Krókinn. Mér hefur alltaf þótt vænt um þessa mynd, hún er svolítið táknræn fyrir veiðiferðir okkar Gylfa síðustu árin sem hann lifði; hann hafði ekki minna gaman af að horfa á aðra veiða en veiða sjálfur, enda löngu búinn að gera allt sem hægt var að gera í veiðiskap. En þetta er sem sagt sagan af tilurð þessarar frægu flugu sem ég var svo heppinn að tengjast náið frá fyrsta andartaki; vinur minn hannaði hana og frændi minn vígði hana, báðir mikil náttúrubörn og veiðimenn. Flugan Krókur hefur reynst í fullu samræmi við uppruna sinn og vígslu.
Höfundur Bjarni Hafþór Helgason
Upphaflega birt á Flugur.is 2014