Það er mun árangursríkara að sleppa aftur veiddri sjóbleikju en veiddum laxi. Sjóbleikjustofnar Íslands þurfa á því að halda að veiðimenn sleppi aftur veiddum fiski. Þetta er meðal þess sem lesa má úr meistaraverkefni í auðlindafræði sem Erlendur Steinar Friðriksson varði í síðustu viku við Háskólann á Akureyri. Flugufréttir ræddu við Erlend Steinar í febrúar 2014 um rannsóknina og birtist viðtalið hér:
Eins og fræðimanna er háttur þá sagðist höfundur ekki vilja slá neinu fram án 100% rökstuðnings, þetta væru vísindalegar rannsóknir, hér væru þó fram komnar ýmsar staðreyndir og vísbendingar sem þörf væri á að rannsaka enn frekar.
Hvergi í heiminum
"Forsaga málsins er sú að sjóbleikjustofninn í Eyjafjarðará hrundi gjörsamlega á árunum 2001-2008, fór úr um 3.000 bleikjum í um 700. Þá var ákveðið að innleiða veiða og sleppa aðferðina og þegar ég fór að skoða þetta þótti mér furðu sæta að hvergi á landinu og hvergi í öllum heiminum fyndi ég neinar rannsóknir um það hvaða áhrif það hefði á bleikju eða sjóbleikju að veiða og sleppa. Ég gerði það því að verkefni mínu að fylgjast með þessari tilraun, merkja fiska, sleppa aftur og fylgjast með endurheimtum."
Helstu niðurstöður Erlends Steinars eru að leiða megi að því líkum að mjög mikill meirihluti þeirra sjóbleikja sem eru veiddar og sleppt aftur, lifi af og gegni síðan hlutverki sínu við hrygningu og viðhald stofnsins.
Ágætar endurheimtur
"Það virðist vera að um 50% af sjóbleikjustofninum drepist á milli ára af náttúrulegum ástæðum. Það eru náttúruleg afföll sem geta stafað af veðurfari, hamfaraflóðum, rándýrum, aldri, sýkingum og svo framvegis. Endurheimtur á sjóbleikjum sem ég merkti voru hins vegar um 10% sem má tvöfalda upp í um 20% þegar litið er til þess að um helmingur stofnsins drepst. Það er nokkuð nærri því veiðihlufalli sem koma fram rannóknum í Vesturdalsá á sínum tíma. Við skulum hafa í huga að bleikjan getur endurtekið hrygninguna ár eftir ár og því er hver fiskur afar dýrmætur. Þær virðast nær undantekningarlaust lifa það af að horfast í augu við veiðimanninn og vera losaðar af krók."
Þolir vel þessa meðferð
Og vísindamaðurinn gerði fleira en að rýna í tölurnar til að sannreyna þetta.
"Já, almennt hefur komið fram í rannsóknum að afföll af veiddum og slepptum laxfiskum eru mest fyrstu tvo sólarhringana, þannig að ég gerði tilraun með það líka. Ég veiddi tvisvar sinnum tíu sjóbleikjur og setti í kistur í ánni. Eftir tvo sólarhringa var engin bleikja dauð og allar sprækar eins og ekkert hefði ískorist. Bleikjan er harðger fiskur og virðist þola vel þessa meðferð.
Veitt á einu af neðstu svæðum Eyjafjarðarár.
Það kom því í ljós að engin merki væru um skammtímaaföll í kistunum og ég gat ekki heldur séð mun á afföllum eftir því hvenær sumars bleikjan var veidd og sleppt aftur eða milli þess hvaða veiðimenn veiddu hana eða á hvaða gerðir flugna: túpur, púpur eða straumflugur."
Hins vegar virtust endurheimtur aukast eftir því sem bleikjan var stærri - það gæti þýtt að minni afföll væru á stærri bleikju eða skráning á stærri bleikju sé betri."
Stjórnlausar veiðar?
Ertu að segja með þessu að miðað við hratt hnignandi ástand sjóbleikjustofna á Íslandi sé full ástæða til að skoða það að sleppa aftur veiddri sjóbleikju og jafnvel gera það að reglu fremur en undantekningu?
Hér sést glögglega hvernig sjóbleikjuveiðin hefur hrunið á Íslandi og í Noregi frá 1995-2012. (Mynd: Guðni Guðbergsson).
"Já, tvímælalaust. Það hefur svo gott sem ekkert verið hugað að veiðistjórnun á sjóbleikju. Þetta eru mest megnis stjórnlausar veiðar án kvóta. Rannsóknir mínar leiða í ljós að mikill meirihuti af þeirri bleikju sem er sleppt aftur lifir það af og getur þá komið í árnar aftur og aftur til að hrygna. Þannig fáum við í árnar þessar 50-70 sm kusur sem allir sækjast eftir að fá á fluguna en það eru jafnframt bestu "varphænurnar" og að öllum líkindum þeir fiskar sem best geta forðast náttúruleg afföll, fyrir utan þau sem verða vegna aldurs. Ef um 50% stofnsins drepst á milli ára og 10-25% taka agn veiðimanna, þá er augljóst að það munar mjög mikið um það sem veiðimenn drepa af sjóbleikju - bara sá hluti getur tvöfaldað fjölda þeirrar bleikju sem nær að vaxa úr 40 sm í 60 sm og hver vill ekki sjá fleiri stórar bleikjur?
Sjóbleikjukusa.
Talið er að 70-90% af laxi í ám drepist yfir veturinn eða komist ekki aftur til sjávar, þannig að áhrif veiða og sleppa hljóta að vera hverfandi í laxveiði en það munar heljarmikið um þau í bleikjuveiði."
Segir Erlendur Steinar sem furðaði sig á því að enginn skyldi hafa rannsakað áhrif veiða og sleppa á bleikjuveiðar og lætur sig nú dreyma um að halda rannsóknum á þessu sviði áfram.
-rhr