Þann 13 júlí 2013 var ég var við veiðar í Laxá í Aðaldal ásamt konu minni og 10 ára syni hennar. Við vorum búin að koma okkur fyrir á bakkanum með tjaldvagn, ferðagrill og tiheyrandi. Ég fór af stað á undan þeim og hélt til veiða ofan við tjaldstæðið. Ég var ekki búinn að ganga lengi Þegar ég gekk fram á andarunga sem að lá dauður á lítilli grasþúfu í flæðarmálinu. Ég tók hann upp til að sjá hvort að eitthvað sæist á honum sem að gæti útskýrt örlög hans.
Hann var alveg þurr og engin ummerki á honum eftir rándýr, hvergi bit eða nokkur sár að sjá og það sem að mér fannst merkilegt var það að hann var enn volgur þ.e. nýdauður. Ég lagði hann frá mér upp á bakkann og ætlaði að sýna veiðifélögunum hann síðar. Ég gekk aðeins lengra upp eftir bakkanum ca. 100 metra og byrjaði að kasta þurrflugu frá bakkanum. Mæðginin komu til mín skömmu síðar og ég sagði þeim frá því sem að ég sá og spurði hvort að þau hefðu séð ungann liggjandi á bakkanum en þau neituðu því.
Ég lýsti þessu þá aðeins betur og sagði meðal annars að unginn hefði legið á lítilli grasþúfu út undan bakkanum... "ertu að meina svona?" spurði þá strákurinn og benti á unga sem að lá dauður á lítilli grasþúfu rétt við lappirnar á mér. Þarna var sem sagt annar ungi af sömu sort og allar aðstæður eins og hjá þeim fyrri.
Hann var greinilega nýdauður og sá hvergi á honum, engir áverkar. Ég varð ekkert var við fisk þarna uppfrá svo að við gengum til baka og ákváðum að taka ungann með og grípa hinn með okkur í leiðinni. Þegar við vorum komin langleiðina að tjaldvagninum með tvo dauða andarunga í farteskinu gengum við fram á þann þriðja og aðstæður voru alveg þær sömu. Við tókum hann með okkur líka og komum okkur heim að tjaldvagni. Við stilltum ungunum upp og skoðuðum þá í bak og fyrir og tókum af þeim myndir. Niðurstaðan eftir þessa skoðun var sú að þeir voru allir nýdauðir, enn volgir og ekki byrjaðir að stirðna, þeir voru vel í holdum og ekkert sem að benti til þess að þeir hefðu orðið útundan og drepist úr hungri.
Þeir voru alveg þurrir, fyrir utan smá vætu á löppum eftir sundið og engin merki um átök úti á ánni, engin sár á þeim.......... í raun ekkert sem að gat útskýrt af hverju þeir lögðust fyrir og hittu skaparann. Við vorum búin að fylgjast aðeins með fuglalífinu við bakkann áður en haldið var til veiða, það er ómissandi hluti af svona veiðitúr. Þarna voru þessar helstu andartegundir sem að halda sig við laxá og meðal þeirra var Toppönd með fimm unga. Ég held að þessir þrír sem að við fundum hafi tilheyrt henni.

Ráðgátan sem að ég er enn að velta fyrir mér eftir þessa upplifun er, hvað gerðist þarna? Hvernig stóð á því að þrír ungar tóku upp á því að synda að landi og drepast, að því er virðist á sama tíma á um 150 metra kafla? Það var nánast jafnt bil á milli þeirra á þessum kafla. Fróðlegt væri að fá álit manna á þessu fyrirbæri. Ungarnir eru geymdir í frysti og meira en velkomið að afhenda þá fuglafræðingum til skoðunnar ef að svo ber undir.