2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
22.5.2020

Skaust upp úr ánni með laxinn í háfnum - úr safni Flugufrétta

 

Bjarni Jóhannesson hefur sett í stóran hæng við Stekkjarfoss í Vatnsdalsá. Mynd: Einar Falur.

Ný bók um Vatnsdalsá kom út í síðustu viku. Höfundar eru Einar Falur Ingólfsson, Sigurður Árni Sigurðsson og Þorsteinn J. Vilhjálmsson. Langt er síðan Sigurður Árni lofaði Flugufréttum viðtali og við ákváðum að herma það upp á hann núna í tilefni útgáfunnar. 

Hvernig datt ykkur félögunum í hug að skrifa þessa bók?

  "Það var Pétur Péturson, leigutaki Vatnsdalsár sem upphaflega talaði um þörf fyrir nýja bók. Við köstuðum hugmyndinni á milli okkar og í byrjun snerist þetta aðalega um að skrásetja breytingar sem áttu sér stað 1997, þegar ákveðið var að öllum laxi skyldi sleppt aftur í ána. Það vatt svo upp á sig og bókin varð stærri og meiri en upphaflega stóð til. Það er til bók um ána sem heitir "Vatnsdalsá. Vatnsdalur-Þing" gefin út af bókaútgáfunni Dyngju, 1990. Sú bók er löngu uppseld en hún var líka barn síns tíma. Stór hluti gömlu bókarinnar eru lýsingar á veiðistöðum sem hafa breyst mikið og skrifuð meðan öll veiðitæki voru leyfð. Sögulegu kaflarnir úr gömlu bókinni nýttust okkur vel við skrif nýju bókarinnar, það hafa ekki fallið neinar stórar skriður í dalnum síðan 1990. En veiðistaðalýsingar ákváðum við að ættu frekar heima á netinu, veiðistaðir breytast, jafnvel milli vorflóða og við lögðum áherslu á aðra hluti í nýju bókinni. Í bókinni okkar eru viðtöl við veiðimenn sem lýsa á beinan og óbeinan hátt hvernig þeir veiða ána og þannig koma veiðistaðirnir inn í heildarmyndina. Við lögðum áherslu á sögu veiða í ánni frá upphafi en það er mjög merkileg saga og eftir því sem við grófum dýpra kom alltaf meira í ljós. Pétur er sjálfur útgefandi bókarinnar og hann gaf okkur góðan tíma til að vinna þetta verkefni og koma því í það form sem við vildum. Bókin þróaðist úr því að vera skrásetning á framsýni nýrra leigutaka og Veiðifélags Vatnsdalsár, varðandi veiðifyrirkomulag og vermdarstefnu, yfir í að verða samantekt á sögu veiða í dalnum. Það eru margar ljósmyndir í bókinni og nýtt kort af allri ánni. Í raun vorum við sjálfsagt að gera veiðibók eins og við viljum sjálfir að veiðibækur séu."

 

Hvenær byrjaðir þú að veiða í Vatnsdalsá og hvað finnst þér skemmtilegast við hana?

"Ég hef veitt töluvert mikið frá því ég var polli, aðallega fyrir norðan og austan. En það var Erling Ingvason, stórveiðimaður, sem dró mig fyrst í Vatnsdalinn, vorið 2000. Ég man að ég las allt sem ég komst yfir um ána og teiknaði upp kort til að undirbúa mig betur fyrir veiðina. En það er með veiðina eins og allt annað, stór munur á "teóríu og praksís". Ég man allavega ekki eftir, þrátt fyrir góðan undirbúning, að hafa sett í fisk í fyrsta túrnum. Það var svo tilviljun að ég datt í veiðileiðsögn í Vatnsdalsá. Pétur leigutaki var í einhverjum vandræðum og vantaði frönskumælandi leiðsögumann og ég tók það að mér. Það átti náttúrulega bara að vera einu sinni en vatt eitthvað upp á sig því ég hef verið nokkra daga í dalnum á hverju sumri síðan 2001. Þetta hentaði mér sjálfsagt mjög vel, ég er myndlistarmaður og einn að vinna á vinnustofunni allt árið og mjög gott að komast út á sumrin og kljást við sérvitra veiðimenn og dyntótta laxa. Vatnsdalsá er ótrúlega skemmtileg veiðiá, bæði mjög fjölbreytt og krefjandi en þó viðráðanleg á einhvern hátt. Svo er náttúrulega stórkostlegt að geta veitt allar tegundir fiska. Ef laxinn er tregur þá er alltaf bleikja til staðar og þegar líður á sumarið eru stórir sjóbirtingar að veiðast um alla á."

 


Rafvirkinn eftir Sigurð Árna. Svokölluð "ómöguleg fluga".

 

Bókina prýða meðal annars flottar vatnslitamyndir af flugum sem þú hefur málað. Hefurðu lengi dundað þér við þetta?

"Það er nokkuð langt síðan ég fór að teikna hugmyndir að ómögulegum veiðiflugum. Það var samt meira til gamans og bara fyrir mig. Þegar við vorum að vinna að bókinni kom þessi hugmynd að hafa flugur vatnslitaðar, það hentaði bókinni vel og gefur tímalausa og skáldlega tilfinningu. Þannig urðu þessar myndir til af þekktum flugum sem eru þó svolítið tilfinningalegar og sennilega ekki fullkomnar til að hnýta eftir. En það var gaman að vinna þessar myndir og sérstaklega flugur sem ég þekkti ekki og hef aldrei séð nema á mynd.

 


Lady Caroline eftir Sigurð Árna.

Í bókinni er þýðing á stórmerkilegri grein sem Roderick Haig-Brown skrifaði um upplifun sína á veiði í Vatnsdalsá árið 1968 og hann birti í The American Sportsman sama ár. Stefán Jónsson þýddi hluta úr þessari grein og birti í Veiðimanninum 1969 en Einar Falur þýddi alla greinina og hún er birt núna í fyrsta skipti í fullri lengd. Þetta er mjög áhugaverð grein og vel skrifuð. Minnir á margt af því fallegasta sem hefur verið skrifað um veiði. Ég hugsaði til Björns Blöndal þegar ég las hana. Náttúrulýsingarnar eru svo fallegar, hvönnin á bakkanum, dýralíf og fuglasöngur fær jafn mikla athygli eins og veiðin sjálf. Í greininni nefnir R. Haig-Brown fluguna Lady Caroline sem hann segir að reynist vel í ánni en ég hafði aldrei heyrt talað um þessa flugu. Það tók mig töluverðan tíma að finna út hvernig hún ætti að vera og það var mjög gaman að vatnslita hana. Hún er fín á pappír en ég veit ekki hvort laxar líti við henni."

Nú halda menn áfram að karpa ár og síð um aðferðina að veiða og sleppa og Vatnsdalsá var fyrsta áin á Íslandi þar sem skylt var að sleppa aftur öllu veiddum laxi. Samt finnst manni að hún sé bara á sama róli og aðrar íslenskar laxveiðiár, sveiflast upp og niður með þeim en ekkert áberandi aflahærri miðað við stangafjölda o.s.frv. Hefur hún til dæmis haldið betur sínum hlut þegar harðnar á dalnum í nágrannaánum? Hvað viltu segja um þetta?

"Í fyrsta lagi held ég að það hafi ekki verið ætlunin að fjölga löxum í ánni. Til þess þyrfti að fara í framkvæmdir við að fjölga búsvæðum og búa til hylji, þ.e.a.s. töluvert meira inngrip inn í náttúruna. Það sem vakti fyrir mönnum var að gera Vatnsdalsá sjálfbæra og það hefur tekist. Það hefur ekki verið veitt í klak eða sleppt seiðum í ána frá 1998 en samkvæmt mælingum hefur seiðabúskapur í ánni farið uppá við síðan 2001. Nú er svo komið að búskapur er með allra besta móti, áin, hliðarár og allir lækir eru fullir af seiðum.  Það hefur svo komið á óvart að meðaltalsveiði hefur einnig farið upp á við, sé miðað við síðustu áratugi. Áin er vonandi búin að ná einhverju normi sem hún heldur þrátt fyrir mikið veiðiálag á hverju sumri."

Þið virðist vera eins konar þríeyki, Þorsteinn, Einar og þú, þarna í Vatnsdalnum. Hvernig félagsskap hafið þið með ykkur? Eruð þið búnir að veiða lengi saman og veiðið þið saman á fleiri stöðum?

"Við erum búnir að þekkjast mjög lengi og veiðum mikið saman, ekki bara í Vatnsdalnum því við höfum veitt saman nokkuð víða. Höfum t.d. veitt í Brunná á hverju ári síðustu tuttugu ár. Við tókum Svartá í Skagafirði í fóstur og höfum verið að hlúa að henni í nokkur ár. Það er gæluverkefni sem snýst um að styrkja urriðastofn árinnar. Ætli við séum ekki nokkuð samstíga í áhugamálinu, njótum þess jafn mikið að spjalla saman um veiði, upplifa náttúruna og veiða."

Hvernig var verkaskipting ykkar við ritun og gerð bókarinnar?

"Við vorum í raun allir í öllu í upphafi og þetta snerist mikið um heimildasöfnun og annað eins. Við Þorsteinn vorum ekkert að skipta okkur mikið að ljósmyndahlutanum, létum Einar sjá um það og Þorsteinn fékk líka sjálfur að gera heimildarmyndina sem hann vann að á sama tíma og er hluti af þessu verkefni. Eins fengu þeir ekkert að grípa í vatnslitapensilinn hjá mér þótt þeir séu sjálfsagt liðtækir málarar. Sögulegu kaflana skrifaði Einar að miklu leyti enda vanur og búinn að standa að útgáfu bóka um slík efni en viðtöl og annað efni var frekar okkar Þorsteins. En í raun er þetta mikið samvinnuverkefni sem við köstuðum á milli okkar og unnum á löngum tíma."


Green Highlander eftir Sigurð Árna.

 

Vatnsdalsá er þekkt fyrir stóra laxa? Hefurðu sett í einhvern slíkan?

"Ég hef náð nokkrum löxum yfir 90 sm en loksins í sumar náði ég einum 100 sm í Smiðshyl sem tók Munro killer nr 14. Það var í september og hann var leginn, ekki mjög þykkur en mjög sterkur. Það eru ekki alltaf stærstu fiskarnir sem verða eftirminnilegir. Ég held mikið upp á Skriðuvaðið, það er skemmtilegur vorveiðistaður, hraður strengur og erfitt að halda fisk þar. Ef þú setur í lax, tekur hann oftast strikið niður í Hnausastreng sem er næsti hylur fyrir neðan. Það verða í raun allar tökur í Skriðuvaðinu sögulegar." 

Og oft hlýtur eitthvað sögulegt að hafa gerst þegar þú hefur verið að leiðsegja í dalnum?

"Já, ég gleymi til dæmis aldrei þegar ég var með þýska feðga í Torfhvammshyl fljótlega eftir að ég byrjaði að vinna í leiðsögn. Pabbinn var að veiða og reisti laxa hvað eftir annað. Ég sagði í hvert skipti sem hann reisti fisk að hann strippaði ekki nógu hratt. Hann var farinn að kvarta í úlnliðnum sem ég sagði að væri gott merki um að hann væri að gera rétt. Hann gæti pantað tíma hjá sjálfum sér seinna en hann var sérfræðingur í íþróttameiðslum, m.a. læknir tenniskappans Boris Beckers. Nema hvað, það endar með því að stór lax missir þolinmæðina og stekkur á fluguna. Við sáum strax að þetta var nýgenginn bjartur fiskur, enda lét hann þannig, straujaði um hylinn mjög ósáttur og endaði með því að rjúka niður ána. Þetta er ekki auðveldasti staðurinn að elta fisk, mjög brattur bakki öðru megin og stórgrýti hinum megin. Við hlupum á eftir laxinum og þurftum að fara þrisvar yfir ána en veiðimaðurinn var mjög lipur og hélt fiskinum. Nokkur hundruð metrum neðan við hylinn í töluverðum straumi nær hann að lempa laxinn og ég fer út í með háfinn. Hann hélt laxinum nokkuð vel og ég næ að skella háfnum undir fiskinn en í straumnum renn ég til og missi jafnvægið og féll aftur fyrir mig í ána. Ég hugsaði bara um að halda fisknum eftir alla þessa fyrirhöfn, hélt uppi háfnum og fór því sjálfur á bólakaf, straumurinn tók mig og ég barst niður eftir. Blessaður maðurinn hefur sjálfsagt haldið að nú þyrfti hann að hlaupa á eftir okkur báðum, mér og laxinum. Ég náði einhvern vegin að setja undir mig lappirnar og skaut mér upp úr ánni með laxinn í háfnum. Þegar ég brölti í land og náði loksins andanum sagði ég drjúgur að svona lönduðum við alltaf löxunum hér í Vatnsdalnum.

Það sem verra var og vissi ekki fyrr en seinna, var að sonur hans var á hinum bakkanum og filmaði alla senuna. Ég lét lítið fara fyrir mér í veiðihúsinu um kvöldið, heyrði samt hlátrasköllin yfir matarborðinu þegar þeir skoðuðu myndbandið." 

-rhr

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði