Ég er oft spurður hvaðan ég sé, og svarið er einfalt. Ég er að austan. Flestir láta sér það svar nægja og ég þarf ekki að útskýra að ég er fæddur og uppalinn á Gunnlaugsstöðum á Völlum. Flutti sem barn með foreldrum mínum og eldri bróður til Egilsstaða. Bjó þar árum saman. Eftir stutta viðdvöl í Reykjavík meðan á háskólanámi stóð flutti ég aftur austur. Það var þar sem ég lærði flest af því sem ég kann í dag. Þar með talið að veiða. Eða réttara sagt þar tók ég mín fyrstu skref sem veiðimaður. Ég ætla ekki að halda því fram hér né nokkurs staðar annarsstaðar að ég kunni þá list að fullu.
Austurland er paradís stangaveiðimannsins. Tvær af bestu laxveiðiám landsins eru í Vopnafirði. Ef einhver vill veiða sjóbleikju ætti sá hinn sami að prófa Norðfjarðará. Sú á er og verður alltaf hjá mér uppáhalds. Á Héraði er síðan að fjölda spennandi veiðisvæða. Þar rennur til dæmis Gilsá, sem breytist í Selfljót þegar nær sjó er komið. Þar veiddi ég minn fyrsta lax eftir að hafa sett þar í fjöldann allan af stærðar bleikjum og urriðum. Fögruhlíðaráin er önnur perla sem og Kaldá með sínum stóra en frekar lata bleikjustofni. Í Lagarfljót renna ár eins og Kelduá, Grímsá, Rangá og Eyvindará. Í öllum þeirra hef ég upplifað töfrandi stundir. Og þá eru ótalin allur sá sægur af vötnum sem þarna er að finna, og reyndar allar hinar árnar líka. Ef menn ætla að fara í veiðitúr í sumar er hægt að gera margt vitlausara en að taka stefnuna Austur.
Við veiðar í Breiðdalsá.
Erfitt aðgengi
En það er ekki heiglum hent að veiða á Austurlandi. Til að kaupa veiðileyfi á fjölmörgum svæðum þurfa menn að þekkja til. Vita að leyfi í Gilsá og Selfljót eru seld á Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum. Eða að leyfi í Norðfjarðará eru seld í Veiðiflugunni á Reyðarfirði. Hljómar ekki flókið en menn verða þó að vita hvar á að leita. Vandinn verður enn meiri ef veiða á í vötnum. Í fyrsta lagi er oft erfitt að afla upplýsinga um í hvaða vötnum á að veiða, hvað veiðist í þeim og hvernig best er að bera sig að. Síðan þarf að hafa upp á landeigendum til að fá leyfi. Allt þetta til þess eins að fá að veiða. En það er engin ástæða til að örvænta. Heimamenn eru vingjarnlegir og leiðbeina ferðamönnum eftir því sem þeir best geta. Menn ættu því ekki að láta það stöðva sig.
Blikur á lofti
Mér verður hinsvegar reglulega hugsað til þess virðingarleysis sem þessari dýrmætu náttúruauðlind er víða sýnd í fjórðungnum. Það á örugglega við víða um land, en dæmin sem ég þekki eru flest að austan. Þar hef ég til dæmis orðið var við breytingu á lífríki þveráa sem renna í Lagarfljótið eftir að Jöklu var veitt í hana. Það gerðist þegar Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun. Ég hef talað við menn sem benda á tölur sem staðfesta minni fiskgengd í þessar ár. Sem hlýtur að valda áhyggjum. En það er víðar sem menn sýna lífríki áa og vatna ekki virðingu. Í Reyðarfjörð rennur Sléttuá. Landeigandi þar hefur margfalt meiri tekjur af malartöku úr ánni heldur en veiði. Og aurinn ræður. Áin er oft óveiðanleg vegna þess að stórvirkar vinnuvélar djöflast í henni dögum og vikum saman.
Aflinn þarf ekki endilega að vera mikill til að veiðimaður sé sáttur í lok fallegs veiðidags.
Á öðrum stöðum er það líka drifkraftur peninganna sem knýr menn áfram. Á Borgarfirði og Fáskrúðsfirði renna litlar ár sem lengi hafa gefið á köflum afskaplega spennandi sjóbleikjuveiði. En á henni er ekki hægt að græða nóg þannig að heimamenn hafa farið að sleppa í þær laxaseiðum. Sömu sögu er að segja um vatnasvæði Jöklu. Þegar áin varð tær eftir að Kárahnjúkavirkjun kláraðist biðu menn ekki boðana og buðu vatnasvæðið út. Í framhaldi hófust stórfelldar laxa-seiðasleppingar. Og nú er áin auglýst sem nýtt og spennandi laxveiðisvæði. Sem það er vissulega en menn virðast hafa gleymt að í Kelduá (sem áður var nefnd og rennur út í Jöklu) var gríðarlega merkilegur silungastofn. Og Fögruhlíðarárósinn bauð upp á einhverja mögnuðustu sjóbleikjuveiði sem ég hef upplifað.
Það er nefnilega merkilegt að horfa upp á snobbið í kring um laxveiðina. Hún þykir annarri veiði merkilegri og því þarf því miður annað að víkja. Eins og áðurnefnd dæmi sýna. Ég er sjálfur ekki spenntur fyrir laxveiðinni. Finnst hún óþarflega dýr og svo finnst mér oft eins og ég sé að veiða í hálfgerðum sleppitjörnum þegar á bakkann er komið. Þá vil ég miklu frekar takast á við duttlungafulla bleikjuna eða dularfullan urriðann. Sem betur fer hef ég ennþá fjöldann allan af tækifærum til þess á Austurlandi og vona innilega að þeim tækifærum fækki ekki frekar á næstu árum og áratugum.
Höfundur Aðalbjörn Sigurðsson