,,Samkvæmt kirkjubókum erum við fæddir árið 1921 og það er örugglega rétt. Þótt presturinn hafi kannski verið fullur, þá hefur hann tæpast gert sömu vitleysuna tvisvar, þannig að 1921 stendur!?" Svona svarar Ármann Sigurðsson því hvort ekki sé rétt að hann og Sigurdór tvíburabróðir hans séu að nálgast nírætt. Þeir bræður vöktu athygli Flugufrétta vorið 2010 þegar þeir rótuðu upp bleikju í Hlíðarvatni.
,,Við erum Norðfirðingar en ég fluttist suður til Hafnarfjarðar 1955 og uppúr því kom veiðiáhuginn. Ég gekk í Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar 1957 og þá byrjaði veiðivitleysan fyrir alvöru og síðan þá hef ég veitt í Hlíðarvatni oft á hverju ári,? segir Ármann sem allaf hefur veitt á flugu, ,,fyrir utan tvo daga í Veiðivötnum fyrir einhverjum áratugum. Mér þótti það bæði sóðalegt og leiðinlegt.?
Ármann segir þá bræðurna hafa byrjað með flugu og flot ,,og það gekk vel til þess að byrja með en þegar líða tók á sumarið 1957 fór heldur að draga úr veiðinni. Við bræðurnir vorum í Hlíðarvatni, í Kaldósnum, og okkur gekk ekkert miðað við félaga okkar þrjá sem voru með flugustangir. Einn þeirra, Oliver Steinn, rétti mér flugustöngina sína og sagði mér að prófa meðan hann fengi sér kaffisopa. Ég gerði það og var afskaplega ánægður með að enginn sæi til mín nema bróðir minn, því ég kom línunni engan vegin frá mér. Engu að síður keypti ég mér flugustöng en var ekki ánægður með getu mína.
Góðvinur minn, Svavar Gunnarsson sagði að ég væri allt of vitlaus til þess að geta lært fluguköst, en ég þrjóskaðist við. Þá gerist það einhverju sinni á kastnámskeiði að bróðir Kolbeins heitins Grímssonar spyr mig af hverju ég tæki stöngina upp með vinstri hendi, en það gerði ég vegna þess að ég er örvhentur. Þá var mér sagt að auðvelt yrði að kenna mér að kasta og það tókst ágætlega,? segir Ármann.
,,En það undarlega gerðist að eftir að ég fór að kasta með vinstri hendinni gat ég líka kastað með þeirri hægri. Þetta kemur sér oft vel í vindasömu landi og margir rétthendir öfunda mig og oft hef ég heyrt félaga mína segja að nú sé karlinn búinn skipta um hendi. Ég hef sagt rétthentum mönnum að læra að kasta með þeirri vinstri en þeir segja að sé ekki hægt, en þetta er ekkert annað en minnimáttarkennd rétthentra!?
Að sögn Ármanns hefur margt breyst í Hlíðarvatni síðan hann byrjaði að veiða þar fyrir rúmri hálfri öld. ,,Það var mikið áfall fyrir lífríki vatnsins þegar yfirborð þess lækkaði um 70 til 80 sentímetra hér um árið, það tók langan tíma fyrir vatnið að ná sér aftur. Síðan var það mjög slæmt þegar vatnið fylltist af laxi. Víkin fyrir framan hús okkar Hafnfirðinga var iðulega smekkfull af bleikju á haustin, enda góður hrygningarstaður. Laxinn rótaði þessu öllu upp og stórskemmdi bleikjuklakið og nú orðið hrygnir þarna varla bleikja, hún hefur þurft að leita sér annarra hrygningarstaða. Sem betur fer sést ennþá bleikja á mölinni, oft miklar skessur jafnvel frá 7 til 8 pundum upp í 10 til 15 pund. Þær taka ekki en stöku sinnum húkka menn í eina og eina og það getur verið gaman líka.
Nú er Suðurstrandarvegurinn loksins að verða að veruleika og það er rétt að fagna honum, því hann mun væntanlega bjarga Hlíðarvatni og koma í veg fyrir að eyðið milli vatns og sjávar eyðist og skemmi vatnið, rétt eins og gerðist við Herdísarvík, en þar var grandi milli vatns og sjávar og vatnið fullt af silungi.?
Ármann segist eiga orðið erfitt með að vaða og standa við veiðarnar, ,,ég er orðinn það gamall að ég fæ svimaköst en þá er gott tylla sér á léttan stól og kasta, eins og ég hef gert að undanförnu.? Árangur er líka góður, því Flugufréttir fylgdust með honum þar sem hann kastaði eins og unglingur og náði hverjum fiskinum af öðrum og í lítillæti sínu segir Ármann að hann og konan hans hafi náð 37 bleikjum. ,,Ég veiddi alla mína á Alder og ég hef veitt mun meira á fulldressaðar flugur síðustu ár, þótt ég sé nú alltaf með púpur og kúluhausa í boxinu,? segir Ármann.
Ármann er ekki á þeim buxunum að draga úr veiðum alveg strax. ,,Ég hef reynt að hætta veiðum en ég bara get það ekki. Oft hef ég ákveðið að draga heldur úr en enda alltaf með fangið fullt af veiðileyfum og þannig er það í sumar og þannig verður það örugglega næstu sumur, ef heilsan leyfir," segir Ármann. Hann fer einnig í Iðuna, Húseyjarkvísl og Jónskvísl í Landbroti þar sem hann veiðir sjóbirting.
Hér er endurbirt viðtal Þorsteins G. Gunnarsson við Ármann Sigurðsson frá 2011