2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
10.5.2020

Gunnar Jónsson: Norðurá fegurst áa - úr safni Flugur.is

 ,,Veiðimennsku minni má eiginlega skipta í nokkur tímabil," segir Gunnar Jónsson, sem um margra ára skeið gegndi starfi veiðivarðar við Norðurá.,,Fyrsta tímabilið hófst snemma og stóð stutt. Ég hef líklega verið fjögurra eða fimm ára gamall og hafði komist yfir færi og öngul. Með þessar græjur arkaði ég niður á höfn, settist þar á bryggjukantinn og hóf að veiða marhnúta og ufsa af mikilli ástríðu um leið og ég dinglaði fótum fram af bakkanum og laut vel fram til þess að sjá betur það sem gerðist í djúpinu.

Þegar leikurinn stóð sem hæst er gripið sterklega í öxlina á mér og mér kippt lengra upp á fastalandið. Þar stendur þá móðurbróðir minn, sem stundaði nám í Stýrimannaskólanum og segir með miklum þjósti: ,,Hvað ert þú að gera hér strákur, komdu þér strax heim!" Ég þorði ekki annað en að hlýða og rölti heim úr fyrstu veiðiferðinni öskureiður með marhnútana og ufsann.  Þannig fór um sjóferð þá. 

Lengi á eftir þorði ég ekki niður á höfn, vissi að karlinn hélt þar nærri því til. Ástríðan til veiðanna sat þó eftir og hefur lítt dofnað. Næst kom svo lækjalontutímabilið. Mér var eins og mörgum börnum komið í sveit að sumrinu til þess að forða mér frá fantinum Hitler og hans sendimönnum, enda bjuggum við í nánu sambýli við flugvöllinn, eða á Njarðargötu 5.  Hervélarnar komu inn til lendingar í um það bil 20 til 30 metra fjærlægð frá eldhúsglugganum heima. Þar bar margt fyrir augu, frásagnarvert. Mér var komið fyrir á bæ í Lundareykjadal. Þar bjuggu þá eldri hjón Klemens og Hólmfríður með fóstursyni sínum Steinólfi. Jörðin lá að Grímsá og Steinólfur var veiðimaður. Hann átti langa tvíhendu úr bambus og Husquarna haglabyssu eins og ég hafði lesið um í índíánasögum.
Fékk embætti maðkatínslumanns
Hófst nú annað tímabil veiðimennskunnar og hreint ekki það leiðinlegasta. Ég tók upp mikið sálufélag við lækjalontur, kóngulær og flugur margs konar, brúnklukkur,ánamaðka og varpfugla. Stríddi kóngulónni með því að hrista netið varlega með puntustrái þannig að hún æddi af stað eftir bráðinni. Ég heimsótti silunginn í brunninum daglega, fóðraði unga lóunnar með ánamöðkum, þekkti alla pytti í lækjum þar sem von var á veiði. Síðan kom haustið og bændadagarnir. Fyrir landi jarðarinnar voru einn eða tveir veiðistaðir. Ég hafði það embætti að tína maðka til veiðanna en fékk í staðinn að fylgjast með veiðum Steina.
Þarna lærði ég eitt undirstöðuatriði laxveiða, sem er að fara með gætni að veiðistaðnum. Steinólfur gerði meira af því að fara um árbakkann á fjórum fótum heldur en uppréttur og ég varð að haga mér eins. Hann veiddi alltaf tvo til þrjá fiska á dag og þessir dýrðardagar voru þrír á hverju hausti. Í minningunni eru allir þessir fiskar mjög stórir.
Varð hugfanginn af umhverfi Norðurár
Eftir að stríðinu lauk var eldri systir mín nýútskrifaður stúdent og trúlofuð Vali Egilssyni og þau voru á leið til Bandaríkjanna til náms. Valur var mikill veiðimaður og hafði stundað laxveiðar frá ungum aldri. Ég var þrettán ára og mér var boðið með í eins konar kveðjuferð í Norðurá. Fjölskylda mín og Vals fóru báðar og við gistum í veiðihúsinu við Laxfoss. Snemma morguns gengum við Valur upp með ánni. Ég man þennan morgun eins og hann væri enn. Það var bjart og hlýtt, regnúði og fegurð þessa umhverfis tók mig þeim tökum, sem hún hefur ekki sleppt síðan. Ég finn enn ilminn úr birkinu. Ég man ekki eftir neinni veiði, einhver hefur hún kannski verið. Fyrir mig skipti það einfaldlega engu máli. Ég var svo hugfanginn af því, sem fyrir augu bar. Síðan þá hefur mér fundist Norðurá vera fegurst áa og ég er ekki einn um þá skoðun.  
Til er mynd af systur minni úr þessari ferð þar sem hún fékk að taka í stöngina og rennir í Konungsstreng. Hún er ekki veiðiklædd en mér finnst hún samt einhvern veginn falla svo vel inn í umhverfið. Myndin hefur framkallast sem spegilmynd og þó ég hafi látið snúa henni á réttan veg finnst mér eiginlega meira gaman að öfugu myndinni. Hún stendur þarna á klettinum eins og huldumey í þessum undraheimi, sem er fullur af slíkum vættum sem og framliðnum veiðimönnum. Við fórum síðan fleiri veiðferðir í Norðurá og í einni slíkri fékk ég minn fyrsta lax. Það var á Berghylsbroti, fremur smár fiskur og ekkert sérstaklega eftirminnilegur. Ég var þá enn allur á valdi umhverfisins sem fyrr.
Vanur maður að verki
Nú varð þó nokkurt hlé á komum mínum að ánni, einhverjar ferðir fór ég með skólafélögum í aðrar ár og vötn svo sem Brennuna og Þingvallavatn en framundan var enn eitt veiðitímabil ævinnar ? landmælingatíminn. Ég vann í mörg ár við mælingar, fyrst hjá Raforkumálaskrifstofunni en síðan hjá Orkustofnun. Frá þeim tíma á ég margar minningar um veiðiferðir. Þar eignaðist ég veiðifélaga, sem átt hefur samleið með mér allt til þessa dags. Hann heitir Ólafur G. Karlsson.
Hvað veiðiskap varðar var þessi tími nær samfellt ævintýri. Í mælingunum hagaði svo til að ekki var unnt að vinna í mikilli rigningu. Þær stundir voru þá jafnvel notaðar til veiða. Þannig fórum við Ólafur til dæmis einn rigningardag til veiða í Hvítá fyrir landi Langholts. Við lentum í slagtogi við Guðmund Daníelsson, rithöfund. Þar sáum við viðvaningarnir vanan mann að verki. mann, sem gat kennt okkur eitt og annað. Guðmundur getur þessa dags lítillega í einni af bókum sinum. Aðra ferð, ennþá minnisstæðari, fórum við Ólafur saman í Veiðivötn á Landmannaafrétti. Það var að haustlagi. Við höfðum fengið það verkefni að hlaða mælingavörður á nokkrum fjöllum á Tungnaáröræfum. Við vorum ferjaðir yfir á Hófsvaði, með rússajeppa og tvo aðstoðarmenn á palli Reo-trukks og sóttir á sama hátt viku síðar. Bjuggum í tjaldi við Vatnakvíslina, rétt neðan við Litla-Fossvatn. Lifðum á urriða úr vötnunum. Urriðinn sá er ótrúlegt lostæti, á honum er ekki hægt að verða leiður.
Ég segi stundum þá veiðisögu að við settum upp vatnið á gastækið áður en við fórum upp í vatn til þess að veiða fiskinn. Hún er ótrúleg eins og margar slíkar en hún gæti verið sönn. Ég hef aldrei kynnst annarri eins veiði og þarna var. Það var á nærri um leið og spónninn snerti vatnið. Seinasti morguninn þarna við Fossvötnin mun ekki líða okkur Ólafi úr minni. Þar urðum við fyrir þeirri reynslu að það er hægt að lenda í of mkilli veiði. Fullsaddir af slíku fórum við niður í Snjóölduvatn og veiddum þar umsvifalaust nokkra stór ? urriða. Nokkrum árum seinna var Tungnaá brúuð við Sigöldu. Þá var farið að selja veiðileyfi í vötnin.
Það veiddist óhemjumikið fyrst en síðan dró úr veiðinni. Ég tók þátt í þeirri veiði og fylgdist vel með breytingunni. Tungnaáröræfi voru á þessum tíma mikil veiðiparadís. Vafalaust er það svo enn þó með öðru sniði sé. Á þessum árum tók eiginlega við eitt veiðiævintýrið af öðru. Ég man eftir óhemjuveiði úr Ljótapolli, ég var með bormönnum þegar byrjað var að veiða í Þórisvatni, í Austurbotni. Við veiddum í lóni inn úr Tungnaá nærri Svartakambi, í Hraunvötnum og víðar. Allt voru þetta staðir þar sem lítt eða ekki hafði verið veitt á áður og aflinn eftir því. Yfirleitt veiddu menn á spón, mest á Toby. Eitt sinn kom ég einn á bíl suður Veiðivatnahraun, hafði verið að mæla vatnshæð í borholum. Ég hafði í bílnum stöng og flugubox en hvorki maðk né spón. Ég setti því á flugu og veiddi á skammri stundu nokkra 5-6 punda urriða. Ég man ekki hvað flugan hét enda hefði það sennilega engju máli skipt.
Dýrðleg veisla á bjartri sumarnótt
Öðru sinni man ég eftir því að við vorum tveir á ferð þarna inn frá, 11. júní. Þá kom boð um að mæta í afmæli Guðmundar Jónassonar þar sem hann var staddur við annan mann í Veiðivötnum. Þeir höfðu meðferðis smjör og kartöflur, við veiddum í matinn og það stóð dýrðleg veisla í bjartri nóttinni. Ég man ekki eftir því að menn hafi stundað þarna óhófsveiði í neinum mæli. Þess þurfti einfaldlega ekki. Þeir sem þarna voru við störf kunnu vel að meta nýmetið, frystigeymslur voru litlar eða engar og fiskinn var hreinlega hægt að sækja þegar á þurfti að halda.
Þessi veiðiævintýri mælinganna héldu áfram og teygðust með vinnunni vítt um landið. Það væri vissulega of langt mál að gera grein fyrir þeim öllum. Öllu er þó afmörkuð stund og þegar búið var að loka mig inni á skrifstofu, sem fulltrúa hjá orkumálastjóra og Ólafur var fyrir löngu tekinn til við tannviðgerðir var þessu tímabili eiginlega lokið. Þó var röðin áður aftur komin að Norðurá. Um margra ára skeið mættum við þar um Jónsmessuleytið, líkur hópur mest allan tímann. Þar vorum við Ólafur og annar gamall félagi okkar, Sævar Halldórsson, barnalæknir, sem nú er fallinn frá. Margir aðrir gamlir félagar komu þarna við og frá þessum ferðum eigum við margar ljúfar minningar um samveru og góða veiði. Minnisstæð er til dæmis morgunveiði okkar Ólafs í einni af þessum júní-ferðum. Þá fengum við sjö stóra laxa í samfelldri röð á Hverhylsbrotinu. Þeir sigu í á leiðinni upp brekkurnar að veiðihúsinu.

Í hópi góðra félaga við Norðurá
Fluguveiðimenn draga vagninn
Ég held að það hafi verið á þessum árum að ég fór að hallast að fluguveiði. Ég hef þó enga fordóma gagnvart maðk eða spónveiði og get enn vel hugsað mér að nota það agn. Ég sé heldur ekki neitt athugavert við það að breyta ám í fluguveiðisvæði eingöngu. Ég tel þó að það fari ekki vel saman að veiða sama svæði bæði með maðk og flugu en víst hefur það lengi verið gert. Alla vega varð ég þess oft var að fluguveiðimenn undu því illa að veiða þar sem menn voru með maðk. Því verður heldur ekki á móti mælt að það eru fluguveiðimenn, sem draga vagninn, kaupa dýrasta tímann. Þá er það einnig ljóst að fluguveiðar njóta mjög vaxandi vinsælda. Reynslan af maðkahollunum frægu mælir heldur ekki með því að blanda þessum aðferðum saman. Nú orðið vel ég fremur að veiða á flugu af þeirri einföldu ástæðu að mér þykir það skemmtilegra. Mér þykja áhöldin meðfærilegri og ég hef gaman að því að kasta flugu. Ég hef hins vegar ekkert gaman að því að kasta spæni eða að sjónrenna maðki, en ég skal fúslega viðurkenna að það getur verið hin merkilegasta kúnst og ég bæði virði og skil ánægju þeirra sem það gera. Þetta er bara einstaklingsbundið.
Flugan sem flaug upp vinsældalistann
Þegar ég er spurður hver sé eftirlætis flugan mín koma ýmis nöfn upp í hugann. Á árum áður var "Blue Charm" ein aðalflugan í Norðurá og ýmsar aðrar flugur voru þar ofarlega á blaði. Ég hélt mikið upp á "Blue Charm". Nú heyrist hún varla nefnd, í staðinn er kominn "Frances" í ýmsum litum.
Stundum held ég að þetta sé aðeins spurning um tísku eða um það hvað menn nota. Fyrir nokkrum árum var leiðsögumaður við Norðurá. Sá hnýtti snotra flugu og valdi henni gott nafn. Hann gat haldið henni að veiðimönnum og notaði hana auðvitað nær eingöngu sjálfur. Þessi fluga flaug upp vinsældalistann í nokkur ár en þegar fækkaði komum höfundarins í ána dvínuðu vinsældir hennar fljótlega. Það er ekki gott að henda reiður á þessum vísindum.
Ég stundaði dálítið að hnýta flugur og var tvo eða þrjá vetur í ágætum fluguhnýtingahópi sem hittist á sunnudögum vetrarlangt og hnýttu saman flugur undir handleiðslu Pálma Sigurðssonar fyrverandi flugstjóra. Mér þótti það mjög gaman. Þetta voru ánægjulegar stundir í hópi góðra félaga. Ég saknaði þessara funda þegar aðstæður breyttust og þeir lögðust af. Það þarf stundum einhvern til þess að reka sauðina. Pálmi kemur oft við hjá okkur í Króki á leið í vötnin á Skaga. Hann stundar þau af miklum dugnaði yfir sumarið og er eiginlega orðinn hluti af landslaginu þar. Árið 1989 keyptum við, ég og kona mín Erla Hjartardóttir,  jörðina Krók í Norðurárdal framanverðum. Tilgangurinn var sá að stunda þar skógrækt og það höfum við gert síðan; frá árinu 2000 í samvinnu við Vesturlandsskóga. Þar með var ég orðinn aðili að rekstri árinnar.
Veiðivörður í átta ár
Eins og fram hefur komið þekkti ég ána vel sem veiðimaður en nú vaknaði hjá mér áhugi á því að kynnast þar málum frá hinni hliðinni, hlið veiðiréttareigandans og það gerði ég svikalaust. Því var það að þegar þáverandi veiðivörður, Halldór Nikulásson sýndi áhuga á því að hætta, að ég gaf kost á mér og var veiðivörður við ána í átta ár. Ég ákvað strax að veiða ekki í ánni á meðan ég væri í þessu starfi, fannst það fara illa saman. Ég held að ég hafi aðeins þrisvar keypt veiðileyfi í ánni á þessu tímabili. Það gerði ég á efra svæðinu og veiddi í félagi við dóttur mína.  Kristínu Helgu. Hún hefur yndi af veiðiskap. Við veiddum þá sérstaklega í Krókshyljunum, sem eru margir og sumir mjög góðir. Hin dóttir okkar, Dagmar Guðrún, hefur aldrei komið nálægt veiðiskap og sækir það sennilega í móðurættina því Erla kona mín átti það til að kjósa frekar að vera í heyskap með Laxfossbændum en að fylgja mér eftir við veiðarnar þegar við vorum í veiðihúsinu á árum áður.
Mér féll vel við veiðivarðarstarfið. Þar kynntist maður fólki, sem kom víða að, var af mörgum þjóðernum og úr hinum ýmsu flórum mannlífsins. Eitt átti þetta fólk þó yfirleitt sameiginlegt við komuna í veiðihúsið. Það var lang oftast í góðu skapi, eftirvæntingafullt, komið með þá von að eiga ljúfar stundir við uppáhaldsafþreyingu í þessu umhverfi, sem frægt er af fegurð sinni og aflasæld. Það má ljóst vera að þannig fólk er skemmtilegt að umgangast.
Auðvitað gerðist eitt og annað, sem ógnaði þessu ljúfa andrúmslofti, menn og konur áttu það jafnvel til að misstíga sig dálítið á hinum þröngu og hálu stígum dyggðarinnar. Það var yfirleitt leist með því að taka slíka í eins konar gjörgæslu og slapp til. Þannig atvik heyrðu þó til undantekninga. Mér virtust veiðimenn upp til hópa mesta indælisfólk. Þarna eignaðist ég marga ágætis vini ogkunningja. Sá árangur, sem ég náði í þessu starfi tel ég að hafi verið helstur sá að bæta skráningu veiðinnar og að nokkru skipulag þeirra. Áður hafði skýrslugerð um veiðar í ánni verið í höndum árnefndar leigutakans.
Veiðivörðurinn var eiginlega starfsmaður beggja leigusala og leigutaka og nokkur losarabragur var á skiptingu árinnar til veiða. Þessu tókst að breyta. Mér fannst að skráning veiðinnar ætti að vera í höndum eigenda veiðiréttarins og að veiðivörðurinn væri best til verksins fallinn. Hann fylgist með veiðunum allan veiðitímann, færslu veiðibókanna og á að þekkja betur en aðrir öll helstu vafatilfelli. Árnefndin hafði unnið þetta starf allt frá upphafi og lengi var það í höndum öðlingsins Gunnlaugs Péturssonar og annarra árnefndarmanna eins og Gunnars Petersen og Ingólfs Árnasonar svo einhverjir séu nefndir. Þetta starf árnefndarinnar er ómetanlegt og verður seint fullþakkað eins og svo margt annað, sem þessi nefnd hefur unnið hér við ána og nú síðustu árin undir styrkri stjórn Jóns G Baldvinssonar. Þvílíkt sjlfboðaliðsstarf er orðið fátítt.
Engu að síður taldi ég nauðsynlegt að breyta þessu fyrkirkomulagi af ástæðum, sem áður eru nefndar. Tengdasonur minn útbjó "exel" skjal, sem notað hefur verið frá árinu 2000 og á hverju ári gekk ég frá veiðiskýrslu og vann upp úr veiðibókunum ýmsar fróðlegar upplýsingar um veiðarnar og fiskinn í ánni. Þessi skýrsla er enn gerð árlega og er nú orðin hluti af starfi veiðivarðarins. Þá var veiðivörðurinn gerður að starfsmanni leigusalanna eingöngu, honum voru settar starfsreglur auk þess sem honum var falið að annast skiptingu árinnar á milli veiðihópanna á skiptidögum. 

,,Nýr" endurheimtur staður. Gunnar hefur verið ötull verndari árinnar og lét meðal annars ryðja til möl og fyrirhleðslum til að endurheimta gamla veiðistaði sem höfðu eyðilagst.  Hér nýtur hann þess að kasta á einn slíkan.
Menn leita til óbrotnara lífs við veiðar
Ég tel að þessar breytingar hafi allar verið mjög til bóta. Þó er enn margt, sem ég tel að breyta þurfi. Ég held til dæmi að þessi stóru veiðihús með skyldufæði séu óheppilegt fyrirkomulag. Þau eru að mínu viti í nokkurri andstöðu við það sem fólk er að leita að. Menn eru kannski fremur að leita að einhvers konar afturhvarfi til upprunans, óbrotnara lífs við veiðar í lítt snortinni náttúru eða samveru í þröngum kunningjahópi, en lúxuslífs þeirrar tilveru , sem margt af þessu fólki lifir og hrærist í hversdags. Andrúmsloftið í þessum húsum verður oft upphafið og þvíngað og skyldufæðið gerir veiðileyfin óþarflega dýr. Þarna þarf greinilega að feta einhvers konar meðalveg.
Ég tel einnig að gjörbreyta þurfi svæðaskipulagi í Norðurá. Svæðið, sem mönnum er gert að fara yfir er alltof stórt. Ég ræð þó litlu sem engu um þetta, kannski sem betur fer. Ég er eiginlega kominn aftur á lækjalontustigið, sinni lítt laxveiðum eða skotveiði, nýt þess að sjá aðra veiða, huga helst að silungsveiði en til viðbótar við sálufélag mitt við skorkvikindi og varpfugla er komið náið samband við skógartrén, sem nætur og daga teyga jarðarmjöð."

Hérna er endubirt viðtal Önnu Kristine Magnúsdóttur við Gunnar Jónsson frá árinu 2010. 

 

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði