2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
11.5.2020

Tvöföld ánægja: Veiða og gefa - úr safni Flugur.is

 Við endurbirtum hérna enn eitt gullmola viðtalið við landskunna veiðimenn. Í þetta skiptið er viðmælandi hennar Anna Kristine Magnúsdóttir hann Rafn Hafnfjörð sem var ótrúlegur veiðimaður, náttúruunnandi, ljósmyndari og hnýtari. Þau fara hérna yfir sögu veiðimannsins og vegferð hans á árbakkanum. 

,,Sjómennirnir voru þeir sem ég dáðist mest að," segir Rafn Hafnfjörð, sem var átta ára þegar hann hélt af stað í sína fyrstu veiðiferð. ,,Sjómennirnir voru þeir sem komu með matinn; ýsu, þorsk, flatfisk og svo framvegis og ég gleymi því aldrei hvað ég gladdist yfir þessum tveggja, þriggja punda sjóbirtingi sem ég veiddi í Læknum og hvað ég var stoltur að leggja mat til heimilisins. Móðir mín hafði látist þetta ár og ég var tekinn í fóstur af frændfólki mínu, Þóru, Súsönnu og Sveini Viggó. Faðir þeirra, Stefán Bachmann, var sjómaður, en mæður okkar voru systur og létust með nokkurra mánaða rmillibili. - Þegar ég kom með fyrsta silunginn minn heim var mér tekið opnum örmum og ég fékk að fylgjast með þegar Tóta frænka gerði að og svo var slegið upp veislu um kvöldið. Hann var svo fallegur og ég hafði náttúrlega aldrei smakkað betri fisk," segir hann og hlær. 

Frá heimilinu að Lækjargötu 6 þar sem Rafn ólst upp voru ekki nema um tuttugu skref fyrir lítinn dreng að ganga niður að læknum og hann segist hafa verið búinn að suða lengi um að fá að fara þangað að veiða. En frændsystkinin voru eðlilega hrædd um þennan unga frænda og höfðu bannað honum að veiða þar. En þegar hann kom heim með þennan fallega sjóbirting í soðið, þá fyrirgafst allt.
 
,,Á þessum tíma gekk sjóbirtingur í Lækinn í Hafnarfirði, upp að stíflu sem þar var við brúna milli Brekkugötu og Austurgötu, lengra gat sjóbirtingurinn ekki gengið. Nánast við hvert hús í Hafnarfirði voru fiskhjallar þar sem hengdar voru út fiskspyrður, hausar og annað. Það var fiskur nánast í allan mat hjá okkur nema um helgar, þá var stundum kjöt. Þegar ég var að alast upp í Hafnarfirði var þar engin fiskbúð;  fiskur var ekki seldur þar, heldur fékk fólk hann gefins. Þegar trillurnar komu að landi á kvöldin fóru bæjarbúar niður í fjöru og fengu fisk frá trillukörlunum. Það var aldrei borgað neitt fyrir þetta.
 
 Svo kynntist ég öðrum strákum sem höfðu sama áhugamál og ég og þá fórum við að veiða ofar í Læknum og alla leið upp að Urriðakotsvatni því lækurinn kemur úr því. Þarna í læknum veiddum við eingöngu staðbundinn urriða. Þegar við urðum eldri fórum við að fara lengra til dæmis að Vífilsstaðalæk sem rennur úr Vífilsstaðavatni. Okkur var bannað að veiða þar ? en fórum í óleyfi. Við þorðum því aldrei að segja frá því að við hefðum veitt í Vifilsstaðalæknum heldur sögðumst hafa verið að veiða í Urriðakotslæknum!
 
Veitt við Kaldárhöfða
,,Ég held að það sé alveg augljóst að áhuga minn á veiðimennsku megi rekja beint til þeirrar aðdáunar sem ég hafði á sjómönnum, sem ég leit mikið upp til. Þetta voru mennirnir sem héldu lífinu í fólkinu. Mig langaði að gera eitthvað svipað, en svo kom stríðið og truflaði lífið mikið. Hálfbróðir minn var á togaranum Sviða, sem fórst á aðventunni 1941 og talið var að hann hefði annað hvort verið skotinn niður eða lent á tundurdufli. Það varð til þess að ég varð gjörsamlega fráhverfur sjónum og fór aldrei á sjó eins og mig hafði dreymt um þegar ég var barn.
 
Við strákarnir fórum svo síðar að veiða í Hlíðarvatni og Kleifarvatni, þangað sem við hjóluðum. En þegar við vorum komnir á unglingsaldur fórum við að veiða við Kaldárhöfða þar sem Sogið rennur út í Úlfljótsvatn. Þar var ofboðsleg veiði; mikið af bleikju og svo þessir stóru urriðar. Faðir vinar míns var verkstjóri hjá trésmiðjunni Dvergi og þegar við vorum komnir á unglingsárin, fengum við leyfi til að sitja í með vörubílum sem fóru frá trésmiðjunni til Reykjavíkur, þangað sem þeir sóttu timbrið. Frá Hverfisgötunni gekk svo rúta austur að Laugarvatni með viðkomu á Þingvöllum og bílstjórinn setti okkur af við Kaldárhöfða. Þar veiddum við oft frá föstudagskvöldi fram á sunnudag, þegar rútan kom aftur, tók okkur og veiðina og skilaði okkur af sér í Reykjavík. Þeir félagar mínir sem voru með mér í þessum veiðiferðum voru Aðalsteinn Jónasson (Alli Jónasar), sem rak síðar sportvöruverslun við Laugaveginn og síðar Hljóðrita og hinn vinurinn var Ásgeir Guðbjartsson (Geiri kokkur). Geiri hélt síðar til náms í Danmörku og kom heim eftir námið með Volkswagen bjöllu. Þá vorum við nú aldeilis heppnir því þá gátum við keyrt í Hlíðarvatn og eitt og annað.
 
Handbolti og skylmingar góð undirstaða fyrir fluguveiði
Síðar fór ég að læra skylmingar hjá Klemenz Jónssyni leikara, sem hafði lært þær í Englandi, og í gegnum skylmingarnar kynntist ég strák sem hét Sigurður Magnússon. Ég var í sýningarhópi hjá Klemenz, en hann stofnaði Skylmingarfélagið Gunnloga. Pabbi Sigurðar vinar míns, Magnús, var einn af stofnendum Stangveiðifélags Reykjavíkur og hann og kona hans, Sigríður Zoëga, áttu sumarbústað upp við Höfuðhyl í Elliðaánum. Siggi segir mér að nú getum við veitt saman í Elliðaánum ef ég gangi í Stangaveiðifélagið og þar veiddum við bæði á maðk og flugu. Fljótlega eftir þetta gekk ég í Stangveiðifélag Reykjavíkur og held að ég sé orðinn félagi númer þrettán af um þrjúþúsund. Við Sigurður stunduðum maðkveiði í Elliðaánum vorum oft að taka kvótann á hálfum degi. Við veiddum oft þannig að ég stóð úti í ánni og Sigurður á bakkanum og leiðbeindi. ,,Svona, aðeins til hægri, nei, núna til vinstri." ? svo kallað sjónrennsli, til að stýra maðkinum upp í laxinn. Ég sagði að svona vildi ég ekki veiða, ég vildi frekar veiða á flugu og láta fiskinn hafa fyrir því að elta agnið. Pabbi Sigga og bróðir hans, Jóhannes, hvöttu okkur til að veiða frekar á flugu og það hentaði mér svo miklu betur, allar hreyfingarnar úr handboltanum og skylmingunum hentuðu vel fyrir fluguveiðina.
 
Langaði að læra myndlist
Ég átti lengi vel þann draum að læra myndlist. Ég hafði alltaf geysilegan áhuga á myndlist og þær bækur sem ég las og skoðaði strax á unglingsárunum voru aðallega listaverkabækur sem ég fékk lánaðar hjá teiknikennaranum mínum í Flensborg, Ásgeiri Júlíussyni, sem tók mig einnig í einkatíma. Þessi áhugi var bara í blóðinu; eitthvað innbyggt.
 
Ég fór snemma að vinna og var svo heppinn að fá vinnu hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar við dyravörslu við að taka á móti aðgöngumiðum og passa upp á að enginn svindlaði sér inn!
Leikfélagið var þá í gamla Gúttó í Hafnarfirði en fluttist svo þangað sem það er enn, við ráðhúsið. Þarna fékk ég að hjálpa þeim sem voru að gera leiktjöldin og það var mjög skemmtilegt að fá að mála glugga og annað smotterí. Þetta varð til þess að ég fékk svo mikinn áhuga á að gerast leiktjaldamálari að ég setti stefnuna á að fara í nám til Englands eftir að ég lyki Flensborg. En það voru engir peningar til þess og engin námslán fáanleg þá. 
 
Fyrsta ljósmyndavélin
Útrás fyrir sköpunarþörfina fékk ég í gegnum myndavélina. Þannig var að þegar ég fermdist fékk ég myndavél að gjöf frá hjónum, Valgerði og Jens, sem bjuggu hinum megin við lækinn.. Þau voru barnlaus og réttu mér oft eitt og annað. Þetta var kassamyndavél eins og þá tíðkuðust og ég fékk strax áhuga á að taka myndir af öðru en fólki. Tók til dæmis margar myndir af Hamrinum í Hafnarfirði á þessum fyrstu árum.
 
Ég keppti í handbolta og var fyrirliði í meistaraflokki FH í þrjú ár og kenndi svo bæði stúlkum og strákum handbolta. Launin sem maður fékk var að fara með keppendum í keppnisferðir til dæmis til Vestmannaeyja og ég lofaði að taka myndir af íþróttamönnunum - en var strax kominn upp í klettana til að taka mynd af Heimakletti og öðru þar í náttúrunni og það hefur haldist alveg fram á þennan dag að ég hef verið mjög mikið í að mynda smá mótíf. Póstkortin hafa verið stór hluti af mínu lifibrauði en það hefur alltaf fylgt mér að taka listrænar ljósmyndir, smámyndir af formum í náttúrunni og ég er enn að sýna slíkar myndir víða. Í dag var til dæmis verið að opna sýningu með slíkum myndunum í Strassborg.
 
Ég er lærður offsetprentari, prentmyndasmiður og þá tók ég einnig próf í ljósmyndun eins og við notum hér í sambandi við prentverkið. Þegar ég útskrifaðist kom ljósmyndaáhuginn í beinu framhaldi. Það þurfti að skaffa myndir í ýmsar bækur og þegar flugfélagið Loftleiðir var stofnað þurfti að kynna landið og hvaða leið er betri til að kynna landið okkar en með ljósmyndum? Fossarnir, hverasvæðin, fjöllin og fegurðin. Ég lauk náminu 1950 þá 22ja ára og stofnaði síðan prentsmiðjuna Litbrá ásamt tveimur öðrum 1954, þá 24 ára og rak þá prentsmiðju í 54 ár.
 
Tvö í tjaldi á Vestfjörðum
Rafn var tvítugur þegar hann kynntist konunni sinni, Kristínu Jóhannsdóttur, á balli í Breiðfirðingabúð. Kristín var tveimur árum yngri, kom frá Patreksfirði og var við nám í Verzlunarskóla Íslands. Eftir að hún sneri heim lét Rafn ekki langan tíma líða þar til hann boðaði sig í heimsókn vestur á Patreksfjörð:
 
,,Áður en ég fór vestur spurði ég Kristínu hvort ég gæti veitt einhvers staðar þarna fyrir vestan og jú, jú, ég gat veitt í Sauðlauksdalsvatni, Vatnsdalsvatni og víða í fjörunni. Við fórum saman í Vatnsdalsvatn og vorum þar í fjóra daga, tvö ein í tjaldi. Við vorum keyrð að Brjánslæk og síðan með trillu inn að Vatnsdalsvatni, því þangað lá enginn vegur. Við veiddum í ánni og vatninu en það var svo merkilegt að þegar við vorum að ganga frá tjaldinu upp með ánni þá blasti við okkur stærðar steinsteypt brú, sem á var ritað ártalið 1928 ? fæðingarárið mitt. Við urðum mjög undrandi því það lá enginn vegur að henni. Þegar við komum til baka að Brjánslæk fengum við þá skýringu að pósturinn sparaði sér dagsleið með því að fara yfir þessa brú, því annars þyrfti hann að krækja fyrir þetta stóra vatn. Þarna veiddum við bleikjur og sjóbirtinga í ám sem heita Penna og Þingmannaá. Það voru geysilega fallegir sjóbirtingar sem við fengum þarna og við veiddum líka staðbundna urriða. Þarna kenndi ég Kristínu að veiða á flugu. Hún stóð á brúnni, slakaði bara út og það tók bleikja næstum í hverju rennsli. Síðar fór hún á tvö kastnámskeið og veiðir eingöngu á flugu síðan.
 

Ekki óalgeng sjón, Rafn með einn góðan.
 
List að veiða á flugur
Ég byrjaði sjálfur seint að hnýta flugur, líklega í kringum 1965, þegar ég var að nálgast fertugt, en nenni því bara ekki lengur. Maður þarf að hafa allt hnýtingardótið uppi við til að geta gengið að því, en við höfðum ekki það pláss þar sem við bjuggum svo að ég þurfti að byrja á að tína allt til og koma mér í gang í hvert skipti, svo ég bara hætti þessu. En ég kynntist góðum fluguhnýtingarmönnum sem hnýttu fyrir mig. Ingólfur Einarsson, símritari var einn þeirra og hann hnýtti fyrir mig flugur í mörg ár. Ég pantaði hjá honum á haustin og fékk þær svo næsta vor. Eftir að Ingólfur féll frá kynntist ég Kristjáni Gíslasyni, þeim fræga fluguhnýtara og margar flugna hans eru enn í gangi því synir hans héldu áfram verkum hans. Ég keypti flugur af Kristjáni í mörg ár og veiddi einhver ósköp á þær og geri enn. Svo hnýtti Analíus Haagvog fyrir mig og nú í seinni tíð Viðar Egilsson. Mér finnst betra að ég sé bara í mínu starfi sem ég kann og láti aðra um að gera það sem þeir kunna vel .
 
 Spurður um eftirlætisflugur svarar hann:
,,Ég veit ekki hvort það er einhver tíska hjá fiskum. Stundum veiðir maður meira á bláan lit, næsta sumar kannski á grænan og svo á appelsínugulan. Það virðast vera tískusveiflur hjá fiskunum eins og konunum! Eitt sumarið veiddi ég nánast eingöngu á flugu sem Kristján Gíslason hannaði, Rækjuna. Næsta sumar birgði ég mig vel upp af Rækjunni, - en þá leit laxinn ekki við henni! Þetta er sérkennilegt og skemmtilegt og gerir þetta svo fjölbreytt. Ég vil nú kalla það list að veiða á flugur. Í raun og veru á ég enga eftirlætisflugu, en ég fer aldrei til veiða nema hafa Black Ghost með. Stundum veiði ég á hana bleikju, stundum lax og stundum sjóbirting. Hún er nú kannski númer eitt. Í næstum hverri einustu veiðiferð reyni ég Black Ghost, sem ég hef veitt á í fimmtíu ár.
 
 
Eftirlætis veiðistaðurinn
Eftirlætis veiðiáin mín er Selá í Vopnafirði. Selá hefur verið númer eitt, tvö og þrjú. Við vorum sextán sem stofnuðum saman veiðifélagið Streng því við vorum óánægðir með Stangveiðifélag Reykjavíkur. Við sóttum um og veiddum í Norðurá í fjögur, fimm ár,en alltaf á frekar lélegum tíma - á endunum, aldrei á besta tíma. Okkur var alltaf lofað betri tíma næsta ár, en fengum aldrei.Við vorum orðnir svo svekktir að við gengum á fund Stangveiðifélagsins og sögðumst bara ætla að stofna okkar eigið félag ef við fengjum ekki betri tíma. Viggó Jónsson, sem þá var formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur, gat verið stór upp á sig og sagði; ,,Já, blessaðir gerið það bara," ? hann hafði greinilega enga trú á því að einhverjir strákar myndu stofna veiðifélag. En við gerðum það, stofnuðum Streng og fórum strax að taka nokkrar ár á leigu. Við hugsuðum bara um það eitt að eignast einhverja á, vera ekki alltaf í einhverjum yfirboðum um ár og hafa aldrei neitt öruggt. Við fórum að leita að ám þar sem væri möguleiki að eignast jörð og hluta af á, fórum á Vestfirðina, Norðurland og Austurland könnuðum ár alls staðar. Við enduðum á því að kaupa tvær jarðir við Selá í Vopnafirði árið 1970 og þar með höfðum við eignast hlut í ánni. Þegar við vorum að taka við ánni, veiddist lítið í henni, eitthvað um eitt,tvöhundruð laxar á sumri, en núna síðast liðin fimm ár hafa veiðst yfir tvö þúsund laxar í henni á sumri. Við byrjuðum á að fækka veiðidögum, stytta veiðitímann um klukkustund á dag og svona ýmislegt sem við gerðum til að hlífa ánni. Þetta hefur verið rosalega skemmtilegt ævintýri. Við eignuðumst svo fleiri jarðir við Selá og svo vorum við það heppnir að Oddur Ólafsson læknir og félagi hans Gústaf höfðu gert laxastiga í Selá 1968. Áður en laxastiginn var gerður gekk laxinn aðeins upp að Selárfossi, um níu kílómetra, en þegar stiginn var gerður opnaðist um tuttugu kílómetra svæði. Oddur var faðir eins stofnenda Strengs, Vífils Oddssonar, verkfræðings sem hannaði stigann. Þetta ævintýri var alveg einstakt. Það virkar einhvern veginn öðruvísi að ganga á landi sem maður á, heldur en að ganga á annars mannas landi.
 
Besti veiðifélaginn
Þótt Rafn hafi átt marga góða veiðifélaga gegnum tíðina, er alveg augljóst hver er þeirra dýrmætastur, svo mjög ljómar Rafn þegar talið berst að henni:
,,Besti veiðifélaginn minn í lífinu hefur verið eiginkona mín, Kristín Jóhannsdóttir. Við höfum veitt saman í nánast í öllum ám landsins, á þeim rúmu sextíu árum sem við höfum átt samleið. Næst besti veiðifélaginn er sonurinn Jóhann, sem slær mér orðið alltaf við. Við Kristín höfum einnig veitt í um 40 ár með tvennum hjónum, þeim Gunnari J. Friðrikssyni og konu hans, Elínu Kaaber og Braga Hannessyni og hans konu, Ragnheiði Gunnarsdóttur. Við, þessi þrenn hjón, höfum um árabil leigt veiðihúsið við Grenlæk og veitt bæði þar og í nærliggjandi vötnum. Við byrjum venjulega í apríl, síðasta vetrardag, og endum oft ekki fyrr en í september eða október. Þannig að veiðitímabilið hjá mér er ekki aðeins þrír mánuðir heldur oft sex.
 
Myndavélin oft truflað veiðiskapinn
Það hefur margt breyst frá því ég fór að veiða fyrst og kannski ekki síst hjá sjálfum mér.
Í gamla daga lagði maður svo mikið upp úr magnveiði, ég vildi helst fá tíu eða tuttugu laxa á dag og leggja þá inn til vöruskipta í Kjötbúðina Borg, Síld og fisk eða Kjötmiðstöðina hjá Hrafni Backmann.Við tókum kjöt út á aflann og það var gríðarleg búbót fyrir stóra fjölskyldu eins og okkar fjölskylda var.
 
Ég hef yfirleitt verið með veiðistöngina á annarri öxlinni og myndavélina á hinni. Það má segja að myndavélin hafi oft truflað veiðiskapinn þegar ég hef komið auga á eitthvað fallegt í náttúrunni. Má segja að ég hafi verið nær einráður um veiðimyndir fyrir stafrænu (digital) byltinguna og það má segja að það hafi komið sér vel fyrir tímaritið Veiðimanninn, því þeir fengu hjá mér myndir í fjölda mörg ár. Eftir að hafa látið þá fá fimmtíu forsíðumyndir hengdu þeir á mig silfurmerki félagsins. Ég gekk í Stangveiðifélag Reykjavíkur árið 1951, sem kostaði þá 500 krónur, sem var um helmingur af vikulaunum mínum á þeim tíma. Ég er núna með félagsnúmer 13 af um 3.000 félagsmönnum. Ég var einn af fulltrúum SVFR í Landssambandi Stangaveiðimanna í mörg ár, kosinn í stjórn þess 1969 og formaður á árunum 1987 til 1989.
 

Afi kennir handtökin
 
Betra að veiða en að kaupa kort í ræktinni!
Við hjónin höfum eignast stóra fjölskyldu, sjö börn á sextán árum, frá 1950 til 1965 og eru sex þeirra á lífi, fimm telpur og einn drengur. Krakkarnir fóru mikið með okkur í veiðiferðir, því okkur fannst börnin hafa svo gott af því að kynnast landinu og náttúrunni. Ánægjan var svo mikil að núna er það orðið þannig að bæði börn og barnabörn fara stöku sinnum með. Þau eru nú orðin uppkomin, en ég fór að kenna þeim sumum að veiða þegar þau voru um tíu ára.   Ég legg meira upp úr því að þau veiði meira en ég sjálfur því ég er aðallega að njóta þess að vera samvistum við fjölskylduna og útiveran gefur okkur öllum svo mikið. Við búum oftast í veiðihúsum og erum til dæmis í ellefu manna félagi sem á hús við Hlíðarvatn. Það félag leigir svo öðrum veiðifélögum vatnið. Við gætum vatnsins, að þar sé ekki ofveitt og það sé ekkert borið í það eins og gerðist oft áður þegar menn voru að bera makríl eða síldar í vatnið. Það er alveg bannað að veiða á lifandi beitu í Hlíðarvatni.En eins og ég sagði áðan þá er það útivistin sem ég legg mest upp úr, fara í Þingvallavatn eða Elliðavatn og hreyfa sig í staðinn fyrir að kaupa sér kort í ræktinni!
 
Gleður mig að gefa það sem ég veiði
Þegar viðtalið var tekið voru hjónin Kristín og Rafn að koma úr veiði í Hlíðarvatni og hann sagðist hafa ,,núllað" þar.
,,Ég vil gjarnan byrja að veiða í vötnum á vorin til að taka úr mér mesta hrollinn. Ég byrja því þetta sumarið á að veiða í Hlíðarvatni og Þingvallavatni, en svo förum við Jóhann sonur minn og verðum viðstaddir opnun Víðidalsár. Síðan liggur leiðin í Skógá, svo aftur Víðidalsá í haust og svo Langadalsá. Þetta er það sem er bókað núna en svo getur auðvitað eitthvað dottið inn."
Rafn hefur haldið vel til haga öllum veiðibókum og þar má lesa að hann hefur oft fengið þá stóra, 18,19 og 20 punda:
,,Menn eru alltaf að monta sig af stórum löxum, en mér finnst alveg eins gaman að veiða minni laxa, nota system nr. 5 í smærri ánum, en stærri stangir þegar ég veiði í stærri ám. Tólf feta stangir í þær stærstu. Ég hef fengið nokkra tuttugu punda laxa í nokkrum ám en ég hef líka veitt og sleppt, þótt mér þætti það alltaf erfitt. Sjálfsagt gerir það ánum gott og ég hef sleppt mjög mörgum. Hins vegar finnst mér fjarskalega gaman að koma heim með fimm til tíu laxa úr þriggja daga veiðitúr og gefa til fjölskyldunnar. Helst að fiskurinn endist fram að jólum svo hægt sé að bjóða þá upp á reyktan og grafinn. Ég hef því ekkert breyst frá því ég var átta ára og fór í fyrstu veiðiferðina: Það gleður mig mest að geta gefið það sem ég veiði.  Tvöföld ánægja"
 

75 ára veiðiafmælið nálgast og alltaf er vopnabúrið tiltækt!
12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði