Það var fallegt veðrið síðastliðinn laugardag þegar kíkt var í Leirvogsá. Góður lofthiti og milt veður, sólin meira að segja skein á veiðimenn. Í vonda veðrinu sem hefur verið að ganga yfir landið hefur ekki farið hátt á aflabrögðum. En það var ljóst þegar út var haldið að útivera yrði góð og það er alltaf gott að fá að njóta náttúrunnar með stöngina í hönd.
Við byrjuðum á flottum stað í Neðri Skauta, vatnið gott og allir nokkuð sexy. Skunkuðum þar en náðum einum geldfiski í hylnum þar fyrir neðan. Næst var haldið að Gömlu Brú þar sem oft er mikil sjóbirtingsveiði, einn helsti hylurinn í vorveiðinni. Þar sáum við nokkra fiska, við þráköstuðum á þá og þeim leiddist loksins hófið. Við særðum þar upp tvo fína birtinga sem létu hafa fyrir sér. Eftir það héldum við upp eftir í Birgishyl, gljúfrið er mjög fallegt og hylurinn ekki verri. Stórgrýttur fallegur strengur sem breiðir svo úr sér. Þarna sáum við strax fallega fiska sem okkur leist vel á. Á meðan sólin bakaði veiðifélagana var Sverrir ekki lengi að setja í fallegan fisk í Birgishyl.
Ólafur Ragnar með fallegan fisk úr Gömlu Brú.
Annar fiskur úr Gömlu Brú. Fínir sjóbirtingar í Leirvogsánni.
Í Birgishyl leist fiskunum líka ágætlega á okkur. Við drógum upp tvo fiska þar á meðan sólin bakaði okkur. Svo kíktum við upp í Hornhyl og settum í einn sem slapp áður en hann var myndaður. Að lokum fórum við fyrir neðan Þjóðveg og prufuðum Móhyl og Fitjakotshyl. Frábært vatn í Fitjakotshyl en sennilega ívið mikið á þessu augnabliki til að Móhylur héldi fiski. Við einbeittum okkur því að Fitjakotshyl og tókum þar fjórar yfirferðir en allt kom fyrir ekki. Við vildum ekki trúa því að enginn fiskur væri þar en miðað við aðstæður þá hefðum við talið víst að reka í fisk þar.
Eftir þetta var áin farin að litast töluvert af snjóbráð og hljóp svo í sæmilegasta kakó. Í stað þess að fara að breyta um aðferð og setja á sökkenda og stórar straumflugur þá voru allir það sáttir að við pökkuðum græjunum og þökkuðum fyrir góðan dag.