2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
8.4.2020

Veitt í Kanada: Tíkin trúði ekki á mig - úr safni Flugur.is

Framandi fiskar á fögrum slóðum.  Kanada býður upp á annars konar veiði en við þekkjum hér heima.  Stefán Jón Hafstein skráði ferðasögu frá Nova Scotia þar sem kastað var fyrir fisk af síldaætt, og svo hinn heimsfræga "smallmouth bass", eða fylding. Þetta er annars konar veiðiskapur en við þekkjum. Ítarleg grein um fluguveiðar sem við þekkjum lítið til.

Gulli heitinn Bergmann sagði  að Ísland sé hvíldarstaður fyrir miðaldra og rosknar sálir. Kenningin er sú að sálirnar fæðist aftur og aftur til þessa ferðalags um táradalinn sem tilvera okkar er, en stöku sinnum hafi sérlega vönduðum sálum og frómum tekist að afla sér nægilegra frípunkta hjá almættinu. Þá fari þær í eitt líf til Íslands. Þótt Ísland sé eitt helsta draumaland veiðimanna á þessu tilverustigi og öðrum eiga önnur lönd sínar góðu lendur. Og um þær streyma vötn. Þangað var ég kominn sem lygn og falleg á rennur hljóð um grasi gróna bakka undir slútandi trjám. Þetta var í Nova Scotia. Sól skein í heiði, maður veiðir léttklæddur á gönguskóm og moskítóflugur hnita hringa yfir. Fuglar syngja í trjám. Þetta var lítil unaðsá. Ég sá að frómar sálir eiga möguleika þótt uppselt sé til Íslands. Ég var á skjaddaveiðum. Heimamenn kalla fiskinn shad, fræðiheitið er Alosa alosa, orðabókin segir maísíld, en réttnefni er skjaddi, sem er frændi maísíldarinnar: "Fiskur af síldaætt sem gengur í ár og vötn Evrópu og Norður-Ameríku". 

Skajddin gengur 2-3 vikur á ári til að hrygna. Leiðsögumaðurinn Perry Munroe er kvikur karl og í derhúfunni gengur hann með merki um að hann sé viðurkenndur í sinni grein. Hann lifir fyrir veiðar. "Sjáðu, þarna er hreyfing, það eru torfur á ferð!" Perry benti á hyl sem var í krappri beygju milli hárra bakka. "Hann er styggur, það er lítið vatn í ánni vegna þess að raforkuver hérna fyrir ofan skammtar lítið vatn í dag." Perry sagði að þeir væru upp í fimm til sex punda. Flugan verður að fara djúpt, svo við settum sökkenda á línuna, og undir skærgula flugu númer 8, hún minnti á litla Micky Finn. "Takan er hæg og fiskurinn er fljótur að spíta út úr sér, þú verður að bregða hart við!"                                                                                                                                                                                                                   
Köstin fyrir þennan fisk eru klassísk: Maður kastar þvert, lætur fluguna renna hægt til að hún nái að sökkva alveg niður að fiskinum. Þetta var spennandi. Og skjaddinn lét ekki bíða eftir sér: allt í einu stoppaði línan og ég fann tekið í, hægt og silalega. Ég brá við og nú var hann á! Sólin glampaði á rauðan kvið sem tók snöggan snúning þegar brugðið var við, svo kom skvetta og stökk. Skjaddinn sýndi sína bestu takta.

Torfur á sveimi
Þetta var fjörugur fiskur sem tók í, en ekkert til að brjóta handlegg eða stöng. Smám saman þokaðist hann að landi og Perry sagði að þetta væri hrygna, það sýndi rauði kviðurinn. Eftir baráttu kom 3.5-4 punda fiskur á land.

 

Annar tók fljótlega, stökk og hristi sig af. Og nú rölti maður í klofháu grasi um bakka og sá að hingað og þangað var síldin að stökkva og skvetta sér. Stundum reis alda á annars lygnum hyl - torfurnar voru æstar og pirraðar yfir því tillitsleysi raforkuyfirvalda að lækka vatnsborðið. Þetta var snemma sunnudagsmorguns, Perry sagði að senn yrði hleypt á.  Ég sagðist kannast við svona dynti orkumála í Soginu.

Taugastríð
Ég kastaði flugunni á lygna beygju þar sem skjaddinn hafði verið að sýna sig uppi. En nú brá nýrra við: Í skugganum af bakkanum var stór torfa á ferð, feikilega fallegir fiskar sem liðu um, þegar þeir hættu sér út í sólina glampaði fagurlega á silfurlita kviði hænganna, en stöku sinnum sýndi hrygna rauða djásnið sitt. Torfurnar voru þykkar og sumir fiskanna stórir, taugastríð var í gangi og fiskarnir leituðu að skugga. Perry sagði að ekki þýddi að draga fluguna til sín eða egna fiskinn, hann kæmi ekki upp. Þess vegna varð ég að prófa að gera einmitt það og tókst tvisvar! Ég hef tekið eftir að nánast við allar fluguveiðar getur virkað vel að gera algjörlega öfugt við það sem allir aðrir veiðimenn gera.

 

Kannski var ástæðan fyrir láni mínu sú að fiskurinn var á mikilli ferð og í hinu versta skapi. Í heild hafði það áhrif á veiðarnar því takan var ódrjúg um tíma, en svo fór hann að gefa sig aftur.  Þetta er furðulegur fiskur, einkar beinastór og hvass á kviðinn þegar maður tekur undir, svo mjór er hann í vatninu. Við veiddum til að sleppa en skjaddi ku góður til átu þótt beinastór sé.

 

Tré og runnar
Stöku sinnum náði maður ekki að bregða við töku, og þá slapp viðkomandi með skrekkinn. Sá stærsti tók hins vegar rækilega. Ég kastaði af háum bakka þvert yfir ána, lét reka framhjá trjábol sem lá langsum í vatninu, flugan náði að sökkva og var komin vel í skugga af tré sem slútti yfir ána. Þarna var djúp læna, svo kom þétt taka. Ég brá við eins og Perry hafði kennt og sá fiskur var ekki á því að láta hirða sig: Kom á þungu stími upp ána til mín svo ég rétt hafði undan að taka slaka, hristi sig þungt og krussaði langs og þvers. Þetta var greinilega öflugur fiskur. Svo öflugur að eftir hörku þóf var hann af.

 

Ég giska á að þar hafi ég komist í kast við sex pundara.
 

Samræður um veiðitilveruna 

Perry er viðræðugóður um veiðar og erfitt að koma honum á óvart.   Þarna í Nova Scotia hafa þeir sérstakt lag á sínum málum.  Nánast öll fiskivötn eru almenningar.  Það þýðir að hver maður kaupir eitt leyfi fyrir árið, og má þá veiða hvar sem er.  Landeigendur mega ekki stöðva ferð þeirra með vötnum.  Gjaldið er ca 2000 kr fyrir allar tegundir fiska, nema lax; vilji menn á laxveiðar þarf að kaupa sérleyfi fyrir 3-4000 krónur.  (Gamalt gengi!)  Perry er stoltur af þessu fyrirkomulagi.  "Við eigum réttinn til veiða, enginn getur tekið þann rétt - hvorki ríkið né landeigendur!" 

 

Þetta þýðir að við sumar vinsælar ár og vötn getur verið múgur og margmenni.  Og vitað er að við helstu laxveiðistaðina myndast biðraðir.  "Þá gildir drengskaparregla," segir Perry.  Hún er sú að hver maður tekur einungis tvö köst áður en hann færir sig niður með ánni um eitt skref.  Þannig þokast menn niður með veiðistaðnum og enginn fær að tefja of lengi.  Þegar komið er á enda fær maður ekki að byrja efst á staðnum aftur nema enginn bíði.  "Menn virða þetta" segir Perry, en kveðst sjálfur aldrei veiða svona, hann kjósi að finna sína eigin fáförnu slóðir.  Helstu laxveiðiárnar eru talsvert stórar og hann segir að þær rúmi marga veiðimenn.  En hrun í laxastofninum blasir við, ekki af völdum veiðimanna, segir hann, heldur af óútskýrðum náttúrulegum ástæðum.  "Vorgangan er búin" segir hann sorgmæddur, sumargangan er slök, en haustgöngur geta verið góðar: "Komdu í haust, þá skal ég sýna þér 20-30 punda fiska!"

Samráð veiðimanna
Ég útskýri að margur myndi nú óttast ofveiði á Íslandi ef vötn væru almenningar - og árnar færu í órækt.   "Ekki er það nú svo" segir hann; árlega halda stjórnvöld samráðsfundi með veiðimönnum sem leggja til hvar og hvernig skuli friðað og hversu marga fiska hver maður megi hirða.  Fiskifræðingar koma á þessa fundi og menn skiptast á skoðunum, oft er heitt í kolunum, en Perry segist sannfærður um ágæti þessa.  Þetta eru lýðræðislegar veiðar, "besta aðhaldið að veiðimönnum eru aðrir veiðimenn". 

 

Sagnaþulurinn kveikir í sígarettu og horfir fram á veg meðan skrjóðurinn skröltir áfram með allt veiðidraslið aftur í.  Hann trúir á hið sósíalíska fyrirkomulag veiða.  Maðurinn á réttinn.  Fiskurinn er á hans ábyrgð.

 

Við brutumst gegnum skógarþykkni, einhvers staðar mótaði fyrir stíg, komumst niður að á, þarna var stíflan og fyrir neðan frussaði hvítt ofan í djúpan hyl sem varð að fallegum streng sem hlykkjaðist inn í skóginn. Bakkastið var ekkert grín. En hér og þar var hægt að skáskjóta sér niður á torfu eða stein og kasta. Nú var að hækka í ánni og fiskarnir yrðu fjörugri með deginum. Ég var kominn með flugu sem var þyngd með augum að framan og snéri króknum upp til að hægt væri að sökkva henni vel án þess að festa í botni. En aftur braut ég alvanalegar reglur: kastaði á streng og lét fluguna koma inn í straumskilin á ferð rétt undir yfirborði. Rauði kviðurinn glampaði í sólinni þegar stóra hrygnan tók sveiflu eftir flugnni og takan var fín. En svo var hún af og línan slök. Fínn morgunn var á enda. Við kvöddum torfur sem fóru í kekkjum um ána til að leita að skugga undir sól í hádegisstað.

Næsti kafli 

Það er eitthvað svo viðkunnanlegt við hið verklega í fari Norður-Ameríkumanna. Orðið "praktískt" nær algjörlega hugsun þeirra og hugmyndum. Á móti er hefur orðið "elegans" enga merkingu í Ameríku. Það er fullkomlega við hæfi að þetta fólk hafi fundið upp gallabuxurnar, og algjörlega samkvæmt reglunni að þeir geta ekki lagað almennilegt kaffi. Gallabuxur eru verklegar, gott kaffi elegant. Ítalir og Frakkar eru elegant fólk. Kanadamenn og Kanar verklegt fólk. Við skulum segja að þar sem ég stóð í fjöruborði stöðuvatns á Nýja Skotlandi hafi ég verið það sem stundum er kallað "less than elegant". Hafi verið áfátt í elegans. Ég var í túttu.
 

Tútta er það sem þeir þarna kalla "belly-boat" og nokkur eintök eru til af hér heima. Ég hef séð nokkra kappa veiða úr þessu á Elliðavatni. Málnefnd veiðimanna komst að raun um að þetta fyrirbrigði gæti sem best heitið ,,sundmagi" á íslensku.  Hugmyndin er ekta amerísk. Þetta tæki er í raun háþróaður kútur. Um sig miðjan hefur maður flothring, í honum er lítið sæti. Síðan fer maður í vöðlur, spennir á sig froskalappir, sest í og leggur á djúpið.

 

Ég var á fyldingsveiðum 

Perry Munroe  sagði mér að hann kysi svona túttu til veiða, ,,miklu frekar en kanó".  Fyldingur er fiskur sem kallast á ensku ,,smallmouth bass" og er feikilega vinsæll sportfiskur í Ameríku. Hann rífur hörkulega í og orkan sem hann setur í tökuna er margföld á við marga vatnafiska, miðað við hvert pund. Jafnvel smáfiskar verða hörkutól á færi. Og stórfiskar eru draumur fluguveiðimannsins.

 

Þetta er frekar skemmtileg reynsla. Það er, eftir að maður er búinn að fara öfugur með froskalappir á fótunum með túttuna um sig miðjan gegnum stórgrýtta fjöru og stranda við að reyna að spyrna sér út.  Í byrjun júní er fiskurin hrygndur og liggur á grunni. Ver óðalið.  Þarna er hann á grýttum botni og liggur í leyni, bíður eftir að eitthvert æti eigi leið hjá, og þá skýst hann út og nær í magafylli.  Kúnstin er að vekja athygli hans. Fyldingurinn er nefnilega þeirrar náttúru að bruna bara úr leyni sínu stutta vegarlengd. Rúmur metri er það lengsta sem hann fer. Þess vegna þarf flugan að lenda með skvampi. Og hún er til þess gerð að gára yfirborðið - algengar flugur eru með teygjuanga úr skærgrænum eða æpandi bleikum búk, þverstýfðar að framan til að gára vel frá sér þegar maður dregur þær á vatnsfletinum. ,,Farðu nálægt landi og kastaðu að því, þá kemur hann á fullu!"

 

Þetta sagði Perry og gaf í til að fara burt með ferðafélagana í vélbáti.  Eftir flaut ég einn á túttunni inni á stórgrýttri vík, landið var skógi vaxið og nú lagðist friður yfir, ég blakaði froskalöppunum og sigldi meðfram landi - vöðlurnar fylltust af vatni. Ó Perry, hví léstu mig í svona litlar vöðlur?

 

Skvettur - ei meir

Stærsti fyldingur sem Perry veiddi í fyrra var 60 sentímetra langur, og var víst frekur til fjörsins. Ég fékk þrjá litla til að elta fluguna, en þeir hittu ekki. Eftir að hafa skriðið í land með belginn um mig miðjan og froskalappirnar dinglandi og hellt úr vöðlunum og staðið á brókinni og beðið bátsins fórum við út. Perry kallaði á tíkina Jessicu sem er haltur hundur en veiðibráður með afbrigðum og hún stökk um borð ofsakát, en lagðist til svefns á útstíminu.

 

Þegar komið var að landi hinum meginn lónaði Perry rólega: ,,Láttu fluguna lenda með skvampi, bíddu svo eina sekúndu, og dragðu hana svo inn með stuttum rykkjum". Jessica svaf. Báturinn leið með landi, maður kastar ótt og títt því taki fyldingurinn ekki eftir 20-30 sekúndur má ganga út frá að maður hafi ekki hitt á legustað. Þá er bara að kasta aftur.  Best er að draga upp í huganum eins fermetra reiti á vatninu, sem maður reynir að hitta. Hops! Allt í einu kom kvikindi upp með látum, fór eins og hnísa yfir fluguna og negldi hana. Þetta var flott taka. Tíkin rauk upp með andfælum og hnusaði að strekktri línunni, tvísté og heimtaði fiskinn inn. Perry tók við honum, leyfði tíkinni að þefa og sleppti svo punds fiski.  Nú var Jessica komin frammí þar sem ég sat í litlum stól á snúningsfæti og kastaði. ,,Hún trúir á þig núna!" sagði Perry og hló að tíkinni, hún horfði geysispennt á fluguna lenda á vatnsfletinum. Ég varð ögn upp með mér af því að vera kominn í náðina hjá hundinum, en líka ögn sár yfir því að hún skyldi vanmeta mig í upphafi.

 

Sá stóri...

...tók ekki.  Einn sæmilegur kom upp, yggldur á brún og hitti ekki fluguna.

 

Þeir sem komu upp voru sæmilegir pundsfiskar, það vantaði sól, því fyldingur er hitakær fiskur sem fyllist af fjöri í hlýindum. Þessi rómaði sportfiskur er álíka sterkur og sterkir silungar hér heima, af áþekkri stærð. Fyldingur er hins vegar ekki nærri jafn sterkur og pundsfiskarnir á urriðasvæðinu í Laxá. En yfirborðstökurnar eru frábærar.

 

Á heimstíminu spurði ég Perry hvað það kostaði að fara með honum í fimm daga veiðitúr á Nýja Skotlandi, tveir menn um hvern leiðsögumann, gist á bændagistingum og allar máltíðir, leyfi, bátar og græjur innifaldar, akstur og Jessica með? Hann sló á 50 þúsund kall. Á núverandi gengi líkast til rúmlega 150 þúsund, eða meira?  Jú, það eru víst 10 ár síðan ég fór í þennan túr.  En hvað sem það kostar.  Eitt er innifalið: Tútta.

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði