Ekki á morgun heldur hinn hefst veiði í ýmsum vötnum og sjóbirtingsám. 1 apríl er kominn enn eitt skiptið þrátt fyrir COVID 19 veiruna. Hvergi er betra að halda fjarlægð frá náunganum og margmenni en akkúrat á bakkanum með veiðistögina að vopni. Við ryfjum hérna upp sögu af stórum fiski og gleði á bökkum Mývatnssveitar eins og oft áður, svæði sem margir hafa sterkar taugar til.
Laxá í Mývatnssveit hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir hugsaði ég þegar sá stóri tók. Fegurðin þessa daga í vikunni var engu lík, samfelld blíða og öll náttúra skartaði sínu lang fegursta, með stillum og sólfari. Miður júlí 2007. Eina undantekningin frá þessari altumlykjandi fegurðarreglu á sköpnuarverkinu var urriðinn, því veiði var satt að segja dræm hjá öllum og margir fiskanna greinilega að bíða eftir meira æti, inndregnir á kviðnum eyddu þeir ekki orku í að elta flugur nema sjaldan.
Hollvinir Laxár vita að sveiflurnar eru með ýmsu móti. Við vorum greinilega í millibilsástandi, lirfan ekki nógu þroskuð til að fita fiska nema á efstu svæðum, þar iðaði slýið af þessum svörtu vinum okkar. En þar var slýið líka hamlandi veiðum. Þesss utan vita unnendur árinnar að hún er núna í hefðbundinni niðursveiflu. Allt er þetta hluti af því að elska Laxá í blíðu og stríðu. Ég tók reyndar þrjá í Brotaflóa fyrsta morguninn, þar af tvo þokkalega matfiska á blóðorm, sleppti síðar einum svöngum í Steinsrassi og öðrum í Lambeyjarstreng; varð svo ekki var langtímum saman. Tók einn mjög flottan við Dádingssteina, flottan á lengdina sem var 58 sm., en hann vantaði a.m.k. tvö pund á breiddina. Þeir komu helst í straumflugur á reki, stundum á blóðorm og glefsuðu í litlar svartar votflugur. Ég skráði 11 fiska í bókina eftir þrjá daga og fyrir þeim var mikið haft. Sá síðasti tók þurrfluguna frá Marc Petitjean í Vörðuflóa og gerði það af svo dásemlegu öryggi og trúnaðartrausti að takan fer á spjöld minninganna sem ein sú besta í lengri tíma.
Krákárósar
En sá stóri sannaði að Laxá hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir. Eftir að hafa gefist upp við að fá fisk úr Arnarvatnslandi gegnt Hagatá rölti ég upp með á fyrir ofan brýr og kannaði Krákárósa án árangurs. Þar var hrein paradís milli hólmanna og strengjanna. Ákvað að veiða fallega, með léttri stöng og flotlínu, og setti hátíðaútgáfu af Gyllta drauginum frá Stebba Hjatested undir til að fullkomna þetta sköpunarverk undir gulri sól á bláum og grænum degi.
Þarna er fátt um merkta veiðistaði en þeim mun meira af líklegum legustöðum fiska; strengirnir hafa þó aldrei reynst mér sérlega gjöfulir. En þetta var gaman: veiða bara af innsæi og innlifun og smám saman þokaðist ég niður með ánni og lét þá gylltu dansa um strengi og lygnur. Við eitt hólmahornið lá hann. Flugan kom alveg að landi og dinglaði við hornið, takan var snögg og hann lyfti sér hálfum uppúr þegar hann snéri sér, nóg til að ég sæi að þessi var vænn. Eins og þeir gera oft þeir stóru í Laxá fór hann með þunga upp í straum, og lagðist bak við stein. Þetta var járn í járn, hann fór aldrei langt frá landi en mjakaðist með hægðinni niður ána, eftir 40-50 metra sá ég að þetta var virkilega myndarlegur fiskur. Þorði ekki að vikta hann í huganum Minnugur þess að enn voru engir almennilegir matfiskar komnir á land hugsaði ég mér að vanda löndun og smeygði háfnum undir trjónuna á honum við sandrif. Vinurinn sló sporðinum ákaft svo gusurnar stóðu yfir mig, en þá fyrst fann ég hve þetta var flottur fiskur þegar ég lyfti upp. Ég lýg engu um að ég hrópaði upp yfir mig þegar ég sá þykktina. Hnakkaspik og síður belgur. Þetta var draumafiskur allra veiðimanna, fullkominn Laxárurriði eins og þeir gerast bestir. Ekki silfurbjarta tegundin, heldur þetti gyllti, alveg eins og Gyllti draugurinn. Dásamlegur morgun á bökkum Laxár og ég kastaði ekki meira þá vaktina. Hörður kokkur staðfesti að þetta væri sá stærsti í sumar, 4.1 kg sagði vogin og persónulegt met hjá mér sjálfum á 18 ára ferli í Laxá.
Kvennasport?
Það var eftir því tekið í veiðihúsinu í Laxá þessa viku hve margar konur voru þar mættar. Lauslega áætlað voru þær næstum helgmingur gesta, og ekki bara til að sleikja sólina því þær voru jafnduglegar á bökkum árinnar og við matborðið á kvöldin! Elín Hirst fréttastjóri tjáði Flugufréttum að hún væri nýkomin af námskeiði hjá Pálma Gunn. Kristín Ingólfsdóttir rektor var með splynkunýja útgáfu af Rektornum, að sjálfsögðu, og Sólveig dóttir hennar sú yngsta í hópnum með tilþrif undir leiðsögn Einars föður síns. Margar fleiri konur sveifluðu stöngum við Laxá og greinilegt að janfréttisbaráttan sem Flugufréttir hafa löngum stutt skilar árangri. Það er vel, því eins og allir vita eru fluguveiðar fyrst og fremst spurning um innsæi og mýkt, en af hvorutveggja hafa konur meira en karlar!
Höfundur Stefán J Hafstein