Það var hávaðarok við Steinnesið á silungasvæðinu, varla messufært, og enginn fiskur að sýna sig. Þetta er sjóðheitur staður, þrátt fyrir kulda, geymir mikið af laxi, en verkirnir frá brjósklosinu í bakinu urðu veiðiáhuganum yfirsterkari, svo ég tók mér nett hlé frá veiðum. Ég ók aðeins uppá dal, og hugsaði með mér að Stefán Jónsson fréttamaður hefði orðað þetta nákvæmlega rétt; það getur verið háskalegt að horfa of mikið í kringum sig í Vatnsdal, það er svo fallegt að það tekur alla einbeitingu frá veiðinni, og sjálfsvorkuninni útaf bakverkjunum.
Ekta Vatnsdælingar
Það er skemmst frá því að segja að í þann mund sem útvarpsmessunni var að ljúka í útvarpinu í bílnum, þar sem ég sat í vöðlunum með miðstöðina í botni, hringdi síminn. Þetta var Einar Falur, veiðifélagi minn, sem hafði staðið vaktina áfram við Steinnesið, ásamt Sveini Sölvasyni, með nýjustu tölur úr Austurbæjarskóla: Sveinn var að landa og sleppa 79 sm hrygnu, og hvort ég ætlaði ekki að hætta þessu væli, og drífa mig á niðureftir aftur.
Því ekki það, sagði ég hægt, hæfilega bjartsýnn á frekari stórlaxa, sneri við, og lauk við að hlusta á Robin Blaze syngja aríu úr H moll messu Jóhanns Sebastians Bachs á leiðinni niðrá bílastæðið við Steinnes.
Þegar ég steig útúr bílnum og tók stöngina, skipti engum togum, en að ég sá tvo menn fara í loftköstum uppá bakkann. Þegar ég gekk af stað, var strax ljóst að Einar Falur var með tvíhenduna kengbogna, og þegar ég var kominn til þeirra um tíu mínútum síðar, var Einar kominn með 88 sm hæng í fangið. Þvílíkt flykki, ekki bara langur, heldur svakalega þykkur, ekta Vantsdælingur og þeir félagarnir ekki sæmilega kátir, heldur trylltir af gleði. Þeir tóku ekki annað í mál en að ég reyndi næstur, Einar lét mig fá fluguna sem hængurinn tók, hálftommu Frances kónhead, þunga. Hvernig tók hann? spyr ég. Hann tók á dauðareki, svarar Einar Falur, og ég renni mér niður bakkann og útí.
Nettur fermingardrengur
Nú er það ekki svo, að það sé hægt að taka númer til að fá afgreiðslu í Vatnsdalsá, bíða eftir að næsti stóri fiskur segi gjörðu svo vel, en á nákvæmlega sama bletti og Einar Falur hafði fengið sinn, sá ég alltíeinu sporð standa uppúr ánni. Ég fann ekki tökuna, en þegar ég lyfti stönginni fann ég vel að þetta var stórfiskur.
Kápan á bókinni Vatnsdalsá, ljósmyndir eftir Einar Fal, vatnslitateikningar eftir Sigurð Árna og texti eftir þá félaga ásamt Þorsteini Joð
Ég kom mér uppá bakkann, herti bremsuna á Wish hjólinu sem Golli ljósmyndari hafði verið svo vinsamlegur að lána mér, og beið rólegur. Kannski ekki vel rólegur, því hvað eftir annað dró fiskurinn út niður í undirlínu. Þegar hann svo færðist nær landi eftir umþaðbil tuttugu mínútur, var ljóst að þetta væri stærsti fiskur sem ég hef séð með eigin augum. Ég kom honum upp að bakkanum þar sem Einari og Sveini tókst með lagni að lyfta honum upp.
Mér kom strax í hug þegar ég sá hann allan, það sem Símon í Vatnskoti á að hafa sagt um stórurriðann sem hann fékk í net í Þingvallavatni, og lýst er í Urriðadansi Össurar Skarphéðinssonar: Hvað var hann stór Símon? Svona einsog fermingardrengur. Þetta var hængur, stór drengur, málbandið staðfesti það, 100 sm, allavega 20 pund, vel tekinn og bráðhress uppá bakkanum. Einar losaði úr honum, reif fram myndavélina og við báðir útí, að koma honum til.
Megi laxinn lifa
Á þessu augnabliki varð okkur báðum að orði, að það væri deginum ljósara að þetta væri ávöxtur fiskveiðistefnunnar í Vatnsdal, að fiskur sem væri ekki drepinn, ætti möguleika á að vaxa og koma aftur í ána. Og hvort er skemmtilegra að veiða 5 punda lax eða 20 punda?! Við tókum þrjá stórfiska á innan við klukkutíma, sem segir sína sögu.
Þeir nota gjarnan þennan frasa, Pétur Pétursson og leiðsögumennirnir í Vatnsdal: Megi laxinn lifa. Þetta eru orð að sönnu, því tilfinningin að sjá fiskinn synda burt eftir nett nudd og strokur í um tíu mínútur, var ekki síðri en taka sjálf. Tilfinning fyrir því að hafa losnað við bölvaða bakverkina stundarkorn og gott ef ekki sungið í H moll messu Bachs á bakkanum.?
Höfundur Þorsteinn Joð