2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
22.3.2020

Boðorðin 10 í þurrfluguveiði - úr safni Flugur.is

 Það er einfaldlega fátt skemmtilegra en að veiða flotta fiska á þurrflugu. Ætli það sé ekki skemmtilegasta formið á fluguveiði, fallegur hlýr dagur oft sólríkur, léttur andvari eða logn og það er klak í gangi. Fiskurinn myndar hringi í yfirborðinu þegar hann sýpur niður flugurnar eða sýnir sig frá toppi til táar. Stefán Jón Hafstein fer hérna aðeins yfir hvernig bera skal sig að við þurrfluguveiðar. 
Hérna er svo erlend grein sem fjallar um hvað ekki skal gera. 

10 boðorð þurrfluguveiðimannsins eru hér í skemmri skírn fyrir þá sem aldrei hafa spreytt sig á skemmtilegustu aðferð silungsveiði.  Skilgreining á þurrfluguveiði er einföld:  Veitt er á flugu sem liggur á yfirborði vatnsins og fiskurinn tekur hana þar.  Stefán Jón Hafstein einfaldar málið:

 

Boðorðin 10 um þurrfluguveiði eru einföld og hjálpa öllum sem ekki kunna að hefja leitina að fiskinum sem tekur fluguna á yfirborði vatnsins.

 

1. Þú skalt ekki halda að þetta sé flókið.  Margir hafa lýst ,,leyndardómum" þurrfluguveiðinnar og vissulegar er hún oft leyndardómsfull á æðstu stigum.  En oftast er hún sára einföld og sannarlega á allra færi sem kunna að kasta flugu með sæmilegum hætti.

 

2. Þú skalt vera opinn fyrir óvæntum tækifærum til að nota þurrflugu.  Það er misskilningur að bara sé veitt á þurrflugu í logni þegar fiskurinn sýnir sig.  Þurrflugan gefur nánast í hvaða veðri sem er sé nægilega hlýtt til að flugnaklak takist í vatninu, sem er oftar en þú heldur og oft í roki!   Hafðu augun hjá þér.  Og jafnvel þótt fiskur sýni sig ekki í yfirborðinu má plata hann upp ef fallega lögð þurrfluga lendir á vatni.  

 

3. Þú skalt athuga vel hvernig fiskurinn hegðar sér.  Oft sjáum við fiska gera fallega hringi á vatninu.  Stundum er það vegna þess að hann étur æti á yfirborðinu, og þá dugar þurrflugan vel.  Stundum sjáum við gára af fiski þegar hann étur rétt undir yfirborðinu - litlar lirfur sem stíga upp til að klekjast út.  Við þessar aðstæður dugar annað hvort eða reglan:  Annað hvort þurrfluga eða lirfa.  En stundum eru fiskarnir í stuði fyrir hvað sem er og grípa þurrflugu þótt þeir hafi einkum áhuga á æti rétt undir vatnsfilmunni.  Verið óhrædd að prófa og skipta um aðferðir.  Málið er að fylgjast vel með.  Ef fiskurinn sést nálægt yfirborði er kjörið að kasta á hann þurrflugu.

 

4. Þú skalt prófa þurrflugu hvar sem er.  Straumvatn er kjörið, jafnvel harðir strengir því fiskarnir sjá miklu betur en við og eru miklu fljótari að grípa æti en við ætlum.  Stöðuvötn eru góð líka til að iðka þurrfluguveiðar.  Fiskar koma stundum af miklu dýpi til að ná í flugu á yfirborðinu- bæði í ám og vötnum.  En grynningar eru kjörlendi þurrfluguveiðimannsins, því þá er fiskurinn á grunnu vatni og sér illa frá sér.  Hér má komast nálægt honum og kasta stuttum köstum þar sem veisla stendur.  Mikilvægt er að í straumur togi ekki í fluguna, hún þarf að reka frjálst eins og náttúrulegt æti.  Láttu því vera smá slaka á tauminum fremst þegar veitt er.  Í stöðuvötnum reyna sumir að draga fluguna undur varlega án þess að hún skári yfirborðið, eða kasta nokkuð ört á breytilega punkta.  Flugan er þá látin liggja stutta stund, 30-60 sek, og taki ekki er henni lyft og lögð á annan stað á vatninu til að prófa þar.   Til að búa til slaka á tauminn er gott að stoppa stöngina snöggt í framkastinu svo að smá kippur komi á línuna.  Taumurinn hrekkur þá aðeins til baka og mynda litlar bugður á yfirborðinu í stað þess að vera beinn fram að flugunni.  Þetta er sáraeinfalt þegar menn hafa æft sig stutt.

 

5. Þú skalt eiga úrval af þurrflugum.  Þú þarft ekki þúsund.   En þú þarft nokkrar flugur.  Stærðir 12-14 sjást vel og eru auðveldar fyrir byrjanda.  Og gefa oft.  En stundum þarf að minnka að þá er gott að eiga stærðir 16-18.  Og þú þarft að eiga þessa liti:  Svart (Black Gnat), grátt (Moskító), brúnt (Evrópa, March Brown eða álíka).  Þetta er nú allt og sumt.  En svo þarft að bæta í safnið smátt og smátt.

 

6. Þú skalt gæta þess að taumrinn sjáist ekki á yfirborðinu.  Taumurinn er ef til vill meginatriði þurrfluguveiðanna.  Hann má ekki skára yfirborðið þar sem hann liggur að flugunni því þá er hann eins og ör sem bendir fiskinum á fluguna.  Þræddu tauminn upp í gegnum augað á flugunni þegar þú hnýtir hana á og gættu þess að hann liggi undir vatnsfilmunni.  Gangi það illa er hægt að nota sérstakt efni sem fæst í góðum veiðibúðum til að bera á tauminn, eða ná sér í leir af botni vatnsins og maka á tauminn; nokkur korn nægja til að þyngja hann niður.  Oft er þetta ekkert vandamál en gott er að kippa aðeins í fluguna þegar hún er lent til að taka tauminn tryggilega niður en án þess að sökkva flugunni.

 

7. Þú skalt nota langan og grannan taum.   Sé taumurinn grannur er auðveldara að fela hann.  Sé hann langur styggist fiskurinn síður þegar flugulínan lendir þar sem hann spáir í æti á yfirborðinu.  Fyrir byrjendur segi ég:  Hafðu tauminn eina og hálfa stangarlengd og reyndu að legga fluguna fallega fram.  Sverleikinn fer eftir fiskunum sem þú veiðir og vatninu.  Í Elliðavatni þar sem oftast eru smáir fiskar á bilinu 1-3 pund nægir 3 punda taumur eða sverleiki 5x.   Fyrir sterkan urriða myndi ég nota 4x taum sem hefur það merka heiti ,superstrong" og til er í nokkrum merkjum.  Það er 6-8 punda taumur að styrkleika, en einkar grannur.   Rio og Frog Hair taumar, og eflaust fleiri, eru til með þessum eiginleikum.  Ég myndi líka splæsa í fluorcarbon taum því hann sést mun síður í vatni.  Ef von er á tröllum þarf sterkari tauma en ég læt tröllaveiðimönnum eftir að velja þá.  Svo þarf að vanda sig við að þreyta því svona taumar slitna oft!

 

8. Þú skalt nota CDC flugur.  ,,Cul de Canard" (CDC) flugur eru gerðar úr fjöðrum andarinnar sem umkringja fitukirtil hennar.  Þær hafa mikið flotmagn og ekki þarf að bera nein flotefni á þær (má ekki).  Þær eru að mínu mati langtum betri en fjaðravængjaflugur bæði er varðar flot og veiðni.  Fyrir byrjendur eru þetta gersemar, og færustu þurrfluguveiðimenn líta sjaldan við öðru.  Skoðið til dæmis www.petijean.com þar sem Marc Petitjean kynnir flugur sínar  (hægt er að lesa um þær á flugur.is).  Sé þetta boðorð haldið brýtur maður að hluta boðorð númer fimm, en það borgar sig. CDC flugur eru dýrari en aðrar - en miklu betri.

 

9. Þú skalt bregða rólega við fiski sem tekur þurrflugu. Takan er dásamlegt augnablik.  Stundum sýgur fiskurinn fluguna niður til sín án þess að vart sé, stundum tekur hann með hvelli, og allt þar á milli.  Þegar fiskurinn tekur dregur þú djúpt andann og lyftir síðan stönginni rólega til að setja í.  Vonandi hefur hann ekki spýtt út úr sér á þeim tíma og venjulega dugar þetta, því fiskurinn fær tóm til að gleypa fluguna og snúa niður aftur.  Á því augnabliki festir maður í. Stundum verður maður hins vegar að vera eldsnöggur að bregða við og taka áhættuna á því að rífa út úr honum.  Þá er við klókan andstæðing að etja sem lætur ekki plata sig svo auðveldlega.  Hér gildir reglan: Leitið og þér munuð finna (réttu aðferðina í það og það skiptið).

 

10. Þú skalt aldrei aldrei aldrei líta af flugunni. Hafðu augun fest á fluguna allan tímann sem þú veiðir því ef þú missir af tökunni er lang líklegast að þú missir af fiskinum og náir ekki að festa í honum.  Samtímis verður þú svo að spá í hvort taumurinn sé réttur, flugan sitji vel, og hvort fiskar séu ekki örugglega í kring.  Svo skaltu njóta augnabliksins og þess að veiða á þurrflugu þótt þú veiðir ekki neitt.
 

Ennfremur:

Ég vona að mér leyfist að benda á mikið af ítarefni um þurrfluguveiðar á flugur.is. Þar eru fjölmargar greinar sem lýsa þurrfluguveiðum og þurrflugum í miklu úrvali.  Fyrstu skrefin eru auðveld eins og hér er reynt að lýsa.  Hins vegar eru þurrflugnafræðin endalaus og nauðsynlegt að setja sig inn í þau smátt og smátt eftir því sem maður spreytir sig á veiðiskapnum.  Ekki hika við að byrja samkvæmt boðorðunum tíu, og haldið svo áfram að lesa og fræðast á Flugur.is. Flugufréttir eru svo vikuskammturinn sem enginn alvöru veiðimaður getur verið án og hér er hægt að skrá sig!

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði