Júlí 2006
Ef maður þarf að búa sér til góða afsökun fyrir því að veiða lítið er best að setja sjálfum sér svo miklar skorður að aðrir veiðimenn taki ofan fyrir manni fyrir að veiða yfirleitt nokkuð, í stað þess að brosa vorkunnsamlega yfir lánleysi og aumingjaskap.
Maðkamenn voru að moka þennan dag í Elliðaánum og ég með flugustöngina.Er veiðiferðin ónýt ef maður drepur ekki fiskinn sem maður setur í?
Þessi fáu skref sem ég tók meðfram ánni gáfu tilefni til vitsmunarlegra þanka. Á leið minni niður á Breiðu, sem er fyrir neðan hraðbrautarbrúna sem liggur yfir árnar nærri ósnum, sá ég að maðkamaðurinn sem mættur var við Fossinn kl. 07 var búinn að landa þremur löxum. Þeir lágu í röð á klöppinni. Frétti síðan að hann hefði tekið kvótann með aðstoð leiðsögumanna á 39 mínútum og verið kominn í hús fyrir kl. átta að dagsverki loknu. Fjórir laxar á minna en 40 mínútum. Það var stórstraumsganga, 90 laxar upp í gegnum teljarann þá nóttina, sama tala nóttina áður, og greinilega afgangur í Fossinum því þessir fjórir lágu strax. Næsti!
Tilmæli um að hlífa laxinum í Elliðaánum hafa dugað skammt. Í fyrra var hlutfall slepptra laxa í ánum mun lægra en yfir landið í heild, 7% í stað tæplega 20% á landsvísu.
Mér var bent á að nota Snældu því hún væri fín. Ég ákvað að nota Sunray Shadow gárutúpu. Það var að brjótast í mér að setja sjálfum mér alvarlegar skorður í dag.
Veiða bara í yfirborðinu.
Eitthvað sem var nógu langt frá maðkinum.
Strangar skorður? Ja, raunar ekki svo mjög; þetta ætlaði að ganga vel. Í þriðja kasti kom laxinn upp á eftir Sunray sem skautaði á Breiðunni. Í næsta kasti kom hann aftur og kíkti á fluguna. Svo ekkert meir. Ég sendi nokkrar aðrar flugur út, gleymdi ásetningi um stífar skorður og Snældan datt í vatnið, en ég áttaði mig strax og dró hana inn. Ég ætlaði bara að veiða í yfirborðinu! Gerði svo málamiðlun: Ef ég reisi lax og fæ hann til að elta í yfirborðinu án þess að hann taki má setja á hann smáflugu líka.
Leikreglur dagsins voru skýrar og ég á leið upp í Hundasteina.
Ég var með litla Sunray. En byrjaði samt á Gaypride sem er dugleg flottúpa frá Ásgeiri Heiðari, strippaði hana svo gáraði og nú kom einn á fleygiferð upp úr skoru sinni í botninum en snéri við áður en hann tók. Setti Sunray undir. Á hárréttum stað gáraði hún spegil. Laxinn kom tvö fet upp í loftið, hékk þar eins og markmaður sem gerir sig kláran til að verja langskot, og dúndraði svo niður á fluguna og negldi hana.
Slagurinn var stuttur. Ég tók hann að en sá þá að krókurinn var á kafi í kokinu og ég án tangar. Gleymdi að ég var í sleppileiðangri þegar ég bjó mig að heiman. Ég ákallaði allar blíðar vættir og smeygði fingri eins langt og komist varð til að stinga mig á lausum króki og ýta þríkrækju númer 14 úr kokinu á fiskinum. Tennurnar sörguðu fingur mína. Bölvað vesen. Yrði ég að kála honum? Ég taldi að lífslíkur fisksins væru samt meiri ef ég losaði hann við járnið en ef ég rotaði hann, svo nú var tekið á. Við vorum báðir dasaðir þegar allt var laust. Klúður að búa sig ekki betur. Ég tók varlega um sporðstæðið og rétti fiskinn í vatninu, hann var of máttlaus til að halda sér á réttum kili. En tók við sér um leið: Hann pumpaði vatni inn um kjaftinn og út um tálknbörðin. Fínt. Súrefni að komast á réttan stað. Nú fór í hönd róleg stund. Ég sat á steini og lét fiskinn pumpa vatni, skoltarnir mættust í taktföstum slögum. Hann lá réttur í vatninu og ég hélt laust í stirtluna. Svo sleppti ég og hann lá kyrr. Laxinn bærðist aðeins í vatninu, en hamaðist við að pumpa og pumpa, neðri skolturinn dældi vatni inn í tálknin og ég sá að hann var eins og ég get verið eftir erfiðan sprett í ræktinni, móður og másandi. Ég sat á steini og beið eftir að hann tæki af skarið. Sem hann gerði eftir góða stund og fór rólega út í strauminn undir eigin vélarafli.
Ég reisti einn í viðbót í Símastreng. Fyndið hvernig þeir stinga upp hausnum við hlið flugunnar sem skautar í straumgárunni. Svo var kaffi.
Meira fjör
Að ráði leiðsögumanna sem þarna voru að störfum hefði ég átt að nota Snælduna hans Gríms, en þá hefði ég varla fengið þessa fínu eltingarleiki og flugtökuna við Hundasteina? Og alls ekki lætin sem hófust nú í Teljarastreng.
Sunray fór yfir miðjan strenginn og bráðfallegur svelgur myndaðist undir strikinu sem hún gerði á spegilinn, hér var lax að snúa sér alvarlega þenkjandi yfir þessum óboðna gesti. Í næsta kasti sem var alveg eins kom hann upp og hrifsaði í, frekjulega með látum, en hristi sig lausan um leið.
Flugan fór neðar. Nú kom einn og hlammaði sér á fluguna án þess að taka. Mundi að ég hafði gefið sjálfum mér þann möguleika að setja á smáflugu ef ég reisti lax án þess hann tæki. Sótti Black and Blue # 14 hjá áhugasömum félaga og nú kom neglan.
Þetta var bráðfjörugur lax sem strikaði um allan hyl og hamaðist svo undir tók í nærliggjandi húsum, hoppaði og skoppaði og lét sig svo detta niður fyrir Teljarastreng og í pyttinn þar fyrir neðan. Sexan mín fékk að vinna vel. Ekki var leið að telja stökkin eða rokunar, bara vinna vel á móti og taka á því ekki vill maður þreyta greyin svo mjög að taki langan tíma að endurhæfa.
Nú gekk slepping vel enda félaginn með langa töng sem sótti fluguna langt niður í kok án erfiðleika.
Næsti lax tók við Hundasteina (aftur þangað!) en reif sig af. Full bráð slepping það. Ég tók saman morguninn í huganum: Samtals hafði ég fengið 9 eða 10 laxa á eftir flugunni, suma með látum og hamagangi. Sett í fjóra, landað tveimur og sleppt báðum.
Ömurlegur veiðimorgunn? Ja, fyrir þá sem vilja veiða til að drepa þá var þetta heldur dapurt. Mér fannst hins vegar dapurt hve margir fiskar voru í frauðplasti þegar við komum niður í hús. Ég hafði mjög góða afsökun fyrir því hve ég veiddi lítið. En enga afsökun fyrir því hve vel ég skemmti mér.
SKRÁÐU ÞIG HÉRNA FYRIR BRAKANDI FERSKAR FLUGUFRÉTTIR VIKULEGA!
Stefán Jón Hafstein
Upphaflega birt í júlí 2006