2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
15.3.2020

Aldinn veiðimaður á Indlandi - úr safni Flugufrétta

Nú förum við á fjarlægar slóðir, öllu heldur alla leið austur til Indlands þar sem Stefán Jón Hafstein var staddur haustið 1994. 
Lesið áfram fyrir öðruvísi sögu úr öðrum menningarheimi af mögnuðum karakter. 

 Haustið 1994 átti ég ferð um Indland, meðal annars um fjalllendi suðursins.  Þar, ekki langt frá borginni Madras, en hátt uppi í fjöllum nærri þorpinu Kodikanal, átti ég skemmtilegan fund með ágætum veiðimanni sem átti sér merka sögu.  Hann var síðasti kóngur fylkisins áður en Indland varð lýðveldi.  Hér er frásögn af fundum okkar.

Vegurinn til sumrseturs síðasta konungsins í þessu fjalllendi hlykkjaðist niður frá Kodikanal, framhjá klaustri og kirkju kaþólikkanna, framhjá
þvottavöllum, þar sem var að líta eins og allt lín bæjarins hefði verið laugað í læknum og hengt til þerris, framhjá Hótel Intercontinental og yfir brúna. Síðan fórum við skáhallt fram fjallshlíðina þar sem kofar og stallar skiptast á uppúr og niðurúr og fátæka fólkið keppist við að rækta eitthvað ætilegt á þessum fáu fermetrum jarðar sem hver og einn hefur fyrir sig.  Burðarhestar fóru fetið meðfram veginum og kýr vildu helst ekki víkja, en á stöku stað voru einhverjar stöðvar, hrúgur af bastmottuskýlum og strákofum þar sem brasað var við gasloga eitthvað handa göngulúnum ferðalöngum.  Vegurinn fór smám saman niður fjallshlíðina og sveigði inni í hvern dalinn á fætur öðrum og útúr aftur uns ekki varð komist lengra eftir 40 mínútna ferð.  Þá tók við indversk eftirherma af Land Rover sem seig inn á moldarslóða gegnum bananalaufþykkni og meðfram ávaxtatrjám og allt í einu
birtist röð kvenna á litskrúðugum sjölum sveipuðum um þær frá öxl og niður að ökla.  Allar með rauðan depil á dökku enninu.  Lögmaðurinn sem hafði slegist í för með mér, Raj, prinsessunni og nokkrum yngri ættingjum gamla konungsins útskýrði að hér væru á ferð daglaunakonur.  "Allir sem búa hér eru daglaunamenn" sagði hann þegar kofar komu í ljós inni í skóginum og meðfram veginum.  Daglaunamenn hjá landeigendum.  Landareignirnar blöstu við niður í dalnum og framundan í hlíðunum öndvert.  "Hvað fá þeir í laun?" spurði ég.  "Hvað fá þeir í laun, Raj?" spurði lögmaðurinn bóndann og landeigandann sem sat afturí.  "25 rupees" á dag svaraði hann, "konur aðeins minna, kannski 20, en stundum jafn mikið."  Lögmaðurinn kinkaði kolli og sá sig knúinn til að útskýra þessa tilviljanakenndu jafnlaunastefnu, "þær vinna miklu betur en karlarnir."  Daglaunin voru 50 krónur.

Jeppinn var nú kominn á enn skrykkjótttari slóð og loks á eitthvað sem jaðraði við vegleysu inn í skógarþykkni.  Lögmaðurinn útskýrði að gamli
kóngurinn vildi helst enga í kringum sig, gestir mættu halda sig fjarri hans vegna og því færri sem legðu á sig að skrönglast gegnum skóginn því
betra.  Við renndum upp að sumrsetrinu, lágreistu húsi með skyggni yfir hlaðinu og gamli kóngurinn gekk á móti okkur, vinalegur á látlausum léttum
jakka og víðum buxum, berfættur á sandölum, grannholda eins og maður hefur séð myndir af Ghandi, með gráan öskublett guðunum til dýrðar á miðju enni. Hann heilsaði hógvær og afsakandi og fannst leitt að ég skyldi ómaka mig allar þessar ófærur til að líta þetta gamla hró.

Gamli kóngurinn afsalaði sér ríkinu í hendur nýstofnuðu Indlandi árið 1947. Hann var fyrstur smákónganna til að gera það, og sá yngsti raunar líka,
aðeins 25 ára.  Það með lauk veldi ættar sem ríkt hafði í 1500 ár.  "Já, forfeður mínir komu að norðan, smám saman færðu þeir sig hingað suður og í átt að Madras, og svo upp í fjöllin þar sem þeir stofnuðu ríki mitt." Hvernig?   "Þetta voru hermenn, stöðugt stríð, það eina sem þeir gerðu var
að berjast."   Og hverjir börðust fyrir þá?  Ég hugsaði um riddaralegu mennina á myndunum í lúna garðskálanum á sumarsetri Raj og prinsessunnar.
"Hermenn! Þeir fengu borgað fyrir, svo söfnuðu þeir liði og héldu sveitir." Indland var aldrei neitt annað en sundurskipt smákóngaríki langt fram eftir
öldum.  Stöku herkonungi tókst að ná undir sig stórum hlutum, mógúlarnir sem komu frá Tyrklandi komust lengst þegar þeir náðu undir sig ríki allt
frá Kabúl í Afgahanistan og langt suður eftir Indlandi.  En svo liðaðist þetta sundur í smákonungsríki sem áttu í stöðugum erjum.  Erjurnar stóðu ekki um nein smámál: réttinn til að arðræna landið og kúga lýðinn með þungum álögum og afgjöldum.  

Hirðirnar voru glæstari en nokkurn getur grunað.  Munaðurinn og hóglífið nóg til að fylla endalausar ævintýrabækur. Gamli kóngurinn býður upp á te eða kaffi, indversk sætindi með, kökur og smánasl þar sem við sitjum á tágastólum inni í skugsælli forstofu.  Innar tekur þjónustufólkið til hádegisverð.  "Þegar Bretarnir komu fyrst fyrir um 300 árum var ekki mikill vandi að etja prinsum, furstum og smákóngum hverjum gegn öðrum.  Frakkar reyndu líka að ná fótfestu, síðar, einnig Hollendingar.  Bretarnir voru snjallastir að búa til bandalög og snúa svo öllu á hvolf aftur, þetta voru eilíf stríð."  Enginn indverskur kóngur gat unað öðrum velgengni svo Bretar áttu léttan leik.  Austur indíafélagið alræmda sá um alla verslun og rakaði saman auði.  Það var svo árið 1857 að Indverjar tóku sig loksins saman og risu upp, en auðvitað ekki allir sem einn frekar en fyrri daginn.  Bretar fóru með stórskotalið og þaulskipulagðar sveitir gegn smákóngunum og ákváðu að taka endalega öll völd með varakonungi á vegum krúnunnar í Deli.  Ættmenni gamla kóngsins fylgdu reyndar Bretum að málum og nutu fyrir vikið velvildar.  Það kom sam ekki í veg fyrir að skipaður væri fulltrúi heimsveldinsins við hirðina sem fylgdist gjörla með málum.  Einkum því hvort nokkurs staðar væru menn að ráða ráðum gegn hagsmunum Breta.  Fulltrúi Bretaveldis við hirðina hafði fleiri ráð í höndum sér allt fram á þessa öld.  Langafi gamla kóngsins, sem situr og biður mig endilega að nota kaffibrauðið, féll á því ævaforna bragði örlaganna, ástinni.  Hann kaus sér konu frá Ástralíu.  Það var óhæfa að mati allra, Breta jafnt sem innfæddra og kóngurinn ástfangni varð að afsala sér krúnunni.  Þetta var 1925 og sjálfstæðishugmyndir Indverja teknar að fá verulegan hljómgrun.  Flókin fjölskyldumál og hagsmunir heimsveldisins urðu ráðandi í vali á ríkisarfa.  Fulltrúi Breta valdi nýjan konung þegar sá gamli hélt á brott með sína áströlsku ást.  "Ég var sex ára þegar þeir gerðu mig að konungi," segir gamli maðurinn í tágastólnum við hlið mér.  "Og 25 ára þegar ég afsalaði mér tigninni."

Raj, landeigandi, bóndi, yngsti bróðursonur gamla kóngsins og formaður rotary-félagsins gengur með mér um landareignina.  Vindmylla sér fyrir
rafmagni, á lognkyrrum dögum er dísilrafstöð ræst.  Tjörn til áveitu, ávaxtatré.  "Frændi giftist aldrei.   Hann vildi bara halda saman fjölskyldunni og sjá til þess að allt færi vel.  Nú gætir hann okkar, hann vill ekki að við þurfum að vinna fyrir aðra.   Hann borgar skólann fyrir börnin, greiðir götu okkar þegar við fjárfestum og hjálpaði mér til dæmis að koma undir mig fótum."   Raj er menntaður í búfræðum frá Englandi. "Frændi er höfuð fjölskyldunnar.  Hann var aldrei gefinn fyrir að stjórna landinu og græða á fólkinu, hann skilaði öllu í hendur stjórnarinnar þegar hann afsalaði sér tigninni. Nú á hann bara landið, hann á fjárfestingar hingað og þangað, en hann er ekki ríkur maður.  Verst að þú skulir ekki sjá höllina hans niðri á láglendinu.  En hér vill hann vera nokkra mánuði á ári, hann hefur svo gaman af veiðum.  Svo vill hann rækta landið og sjá fyrir fólkinu, hann er með 50 hjú í fullu fæði daglega og á launum."


Það var ekki jafn einfalt og það lítur út fyrir að vera að hætta að vera kóngur.  Hirðin stóð frammi fyrir atvinnuleysi, og það sem verra var, flestir kunnu ekki neitt annað en þjóna kónginum!  Frændi bauð öllum sem vildu að fylgja sér.  Hér á setrinu er fjöldi manna, í höllinni sem er byggð eins og þýskur kastali úr graníti niður á sléttunni er annað eins. Önnur og þriðja kynslóð hjúa fylgir gamla kónginum sem lætur engann fara sem vill vera.  Hann er meira að segja búinn að koma nokkrum sonum gamalla dyggra þjóna út í viðgerðir og vélasmíð, sem er eitt áhugamálanna. Kóngurinn á sér verkstæði sem hann lét gera sér til þess að hann gæti fullnumað sig í þeirri grein sem hann hafði sálfur numið utan skóla: vélaverkfræði.  Á verkstæðinu bjó hann sér til sinn eigin jeppa og kenndi ungum lærisveinum fyrstu skrefin á þessari braut.


Gamli maðurinn gengur á móti okkur.  Auðsæld hans er hreinasta fátækt í augum Indverja miðað við hvað hann hefði getað skotið undan meðan hann var kóngur.  Eins og hinir kóngarnir gerðu.  "Ég lét stjórnina fá allt, vegina, skólana, - allt.  Ég var með lægstu skatta sem þekktust," segir hann
góðlega.  Þegnarnir voru um ein milljón, og innheimta konungsins kringum 20 milljónir rúpees árlega.  "Nú hirðir stjórnin meira en 400 milljónir rúpees á ári!"  Auðvitað hefur fólkinu fjölgað, viðskipti aukist, fyrirtæki stækkað, en...   Fjölskyldan er á því að margir sakni gömlu daganna þegar
kóngurinnn ungi ríkti með lága skatta sem hann skilaði í framfarasinnuðum verkum aftur til þegnanna. Skammt hjá vindmyllunni er lítið rjóður með steinstyttu sem búið er að rjóða litsterku dufti og kryddi.  Þetta er Geneseij, guðinn með fílshöfuðið, guðinn sem maður heitir á til frumkvæðis og nýrra athafna. Við staðnæmumst í hæfilegri fjarlægð því enginn fer á skónum á fund guðsins.   

"Ég hafði alltaf mest gaman af veiðum" segir gamli kóngurinn og gengur með mig inn í svenherbergi sitt.  Við höfðalagið er standur með þremur rifflum.  "Þessa notaði ég á tígrisdýrin" segir hann um gljáfægða tvíhleypu.  Ég opna hana og segist bara sjá rúm fyrir tvö skot.  Ekki dugði það á tígrisdýr?  "Eitt varð að duga, oftast skaut ég þau á 3-4 metra færi."  Ekki einn?  Fóru ekki konungarinir á fílum með heilar deildir til að svæla dýrin úr skógarþykkninu beint í skotfæri?  Gamli kóngurinn hristir höfuðið og brosir dálítið raunalega.  "Ég fór bara einn.  Læddist að dýrunum.  Ég skaut 108 tígrisdýr og 48 fíla."  Hann er nokkuð ánægður með verkið.  En nú eru meira en 20 ár síðan tígurinn var friðaður og villifílarnir líka.  "Það eina sem ég má skjóta eru villisvínin. Þau geta svo sem rúllað yfir mann líka, meira en 200 kíló."

Það er ekki laust við að maður greini eftirsjá í hrukkóttu andliti gamla kóngsins - gamla veiðimannsins.  "Nú má maður bara skjóta "æðisfíla" sem
yfirvöld gera réttdræpa."  Þessir fílar eru eftirlýstir í blöðum, gefin út lýsing á atferli þeirra og útliti, lengd rana og lögun eyrna.  "Maður les þetta í smáauglýsingum, þetta eru fílar sem ráðast á fólk, jafna hús við jörðu, éta uppskeru og eru til óþurftar.  Þetta eru einu fílarnir sem maður má skjóta."

Frændi lítur til fjalla.  "Einu sinni var hér allt fullt af fílum og tígrisdýrum."  Hann á 300 ekrur lands, hér í kringum setrið.  Hann bendir í austur á fjallshrygg, "þarna nær land mitt."  Hann bendir í suður, upp hlíðina sem er skógi vaxin og gnæfir yfir okkur: "Ég á land upp að brún." Hann bendir í norður og austur út yfir skóga, engi, dali og sléttu milli fjallshlíðanna: "Ég á þetta, niður að ánni sem rennur eftir dalbotninum." Þetta er umgjörðin um sumarsetrið.

Við setjumst til borðs í stofunni.  Borðið er dúkað og stórt bananalauf við hvern stól.  Á hvert lauf er búið að raða smáskömmtum af krydduðum grjónum, súrsuðu grænmeti, kjötbitum, steiktum grænmetiskökum.  Allir lauga hendur og þjónar ganga á milli og skammta karríkjöt á bananalaufið.  Ég afþakka hnífapör og matast með fingrunum eins og allir hinir.

"Þótti þér ekki fyrir því að sjá af konungsríkinu þínu í hendur alríkisstjórnarinnar í Delí?" spyr ég kónginn gamla.  "Mér fannst það fyrir bestu miðað við hagsmuni allra Indverja."   Raj og lögmaðurinn bæta við og ítreka að frændi hafi ekki tekið neitt með sér sem tilheyrði konungdæminu. "Það eina sem hann vildi hafa með sér voru allar byssurnar - og nú er búið að setja lög um skrásetningu og takmarka eign við þrjár!"  Það er svo sem fleira sem stjórnin hefur gert á hluta gömlu kónganna.  "Nehru lofaði okkur eftirlaunum til dauðadags.  Indira dóttir hans afnam það fyrir 20 árum. Svo friðaði hún tígrisdýrin um leið!"   Róttækar aðgerðir Indiru komu reyndar ekki nánda nærri jafn illa við frænda og aðra fyrrverandi kónga Indlands.  Hann hafði aldrei reitt sig á forréttindi sem stjórnin lofaði, eftirlaunum, sérstöku vegabréfi, titlum, hinu og þessu sem átti að sætta kóngana fyrrverandi við titilinn fyrrverandi.  

Eftirlaunin voru svo sem ekkert sem hann þurfti á að halda, og forréttindin skiptu engu við hrísgjórnarækt, silungsveiðar, akuryrkju og önnur áhugamál.  Þegar Indira tók þetta allt aftur, sem afi hennar Nehru lofaði bréflega, skipti það frænda litlu þó aðrir fyrrvernadi kóngar yrðu fyrir miklu áfalli. "En hvaðan kom þessi hugmynd um sameinað Indland?  Þetta ríki var aldrei til í sögunni fyrr en Bretar bjuggu það til?"  Gamli kóngurinn var ekki virkur þátttakandi í þessum hræringum þegar Bretar settu hann sem smábarn á valdastól. Sem unglingur yfir konungsríki skipti hann sér lítið af
stjórnmálabaráttunni.  "...en það var Ghandi sem barðist fyrir þessu.  Mér fannst það öllum fyrir bestu þegar við fengum sjálfstæðið að láta mig bara
hverfa."  Fara á veiðar, rækta hrísgrjón, halda saman fjölskyldunni. Ættmennin kveðja gamla manninn á hlaðinu, þau krjúpa og þau yngstu kyssa
fætur hans.  Það er eins og hann fari hjá sér þegar hann klappar þeim á kollinn.  Ég gef honum litla barmnælu, mynd af Þór,  "a, guð eldinga," segir sá gamli og ljómar, "og stríðs" segi ég glottandi minnugur 1500 ára sögu fjölskyldunnar.  Hann gefur mér gylltan skjöld, "hið helga naut," segir hann, "musterið er niðri á láglendi."

Ætlarðu eitthvað að veiða? spyr ég.  Auðvitað ætlar hann að veiða. Villisvín.  Ég veiði bara silung segi ég, - á flugu. "A, veiðirðu á flugu, það geri ég líka í fjöllunum - regnbogasilung!"   Hann sýnir stærðina með því að rétta fram lófa og setja mark við miðjan framhandlegg.  "Ég veiddi stærsta siglung sem ég hef veitt í sumar" segi ég við tígrisdýra- og fílabanann, "fimm og hálft pund."  Hann brosir, sýnir mér nokkrar flugur, þær sömu og ég nota, Peter Ross, Butcher.  "Minn stærsti var 9 og 3/4 pund" segir hann.

Þegar bíllinn rennir úr hlaði veifar hann hægt og brosir, ljómar andartak svo grái öskubletturinn hrukkast á enninu: "Komdu aftur!" Bölvaður. 9 og 3/4 pund!

Höfundur Stefán Jón Hafstein 
Upphaflega birt mars 2006

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði