Hótel Hóp
Við brunum síðan, á löglegum hraða, sem leið liggur noður í Húnavatnssýslur. Steinar, eigandi Hótel Hóps, tekur á móti okkur með kaffi og hálfbyggðu hóteli sem á að opna eftir hálfan mánuð. Eins og svo oft er með framkvæmdir af þessu tagi, hefur maður vantrú á að það náist að klára allt sem þarf að klára, en það hefst þó jafnan. Þarna er að taka á sig mynd, fallegt hótel, á friðsælum stað, á miklu veiðivatnasvæði og í nálægð eru nátturuperlur svo sem Hvítserkur og Borgarvirki.
Galdraflugan sannar sig enn
Við Kjartan, veiðifélagi minn, gistum í gömlu heimavistarherbergjunum um nóttina, vöknuðum á góðum tíma morguninn eftir, fengum okkur að borða og nutum kaffisopans sem Steinar hafði hellt uppá, milli vinnu við flísalagnir. Tygjuðum okkur svo niður að vatni. Þetta var okkar fyrsta ferð í Hópið og því vorum við óöruggir með hvaða leið við ættum að fara niður að vatninu, sem er gríðarstórt. Eins og gengur völdum við ranga leið en komumst þó á endanum niður að vatninu. Höfðum meðferðis svolítið kort með merktum veiðistöðum og stefndum á ?besta staðinn? en urðum frá að hverfa þar sem girðing varð á okkar leið. Stoppuðum þá bílinn og stigum út í kyrrðina. Vatnið var spegilslétt og það var algjör kyrrð. Ekki þögn, heldur kyrrð, þar sem fuglarnir einir sáu um að halda lífi í loftinu. Við fórum að gjóa augum út yfir vatnið og sáum fljótlega að í víkinni þar sem við höfðum stöðvað, þar var fiskur að vaka. Við settum því saman stangirnar, læddumst að víkinni góðu og byrjuðum að kasta. En eins og oft er þegar bleikjan er að vaka, þá er erfitt að fá hana til að taka. Við skiptum ört um flugur og það var síðan Galdraflugan sem sannaði gildi sitt enn á ný, en við náðum sitthvorri fallegri bleikjunni á þá galdra-flugu.
Þurrflugan gefur líka
Það gáraðist aðeins vatnið og bleikjan hætti að vaka en varð þó ekki viljugri í flugurnar okkar fyrir braðgið. Við gengum því um og nutum náttúrunnar á meðan við renndum fyrir silungana. Komum síðan aftur að víkinni stóðum upp í mið læri með um 10 metra á milli okkar þegar lægði aftur. Veiðifélaginn kallaði að nú ætti maður að vera með þurrflugu, þegar fiskurinn var að taka flugur í yfirborðinu, allt í kringum flugurnar sem við buðum. Ég greip hann auðvitað á orðinu, gróf upp brúna þurrflugu (sennilega Phesant Tail-þurrflugu) númer 12. Kastaði fyrir bleikjuna, en eins og gerist stundum hjá okkur þá mistókst kastið aðeins og flugan lenti við hlið línunnar. Strax kom fiskur og skvetti sér við hlið flugunnar. Ég tók upp línuna kastaði aftur, náði nú góðu kasti, flugan lenti nú beint fram af flugulínunni, eins og lög gera ráð fyrir. Varla var flugan lent þegar bleikjan tók. Ég brá nú strax við henni og skömmu síðar var falleg bleikja komin í háfinn. Allt voru þetta spegilsilfraðar sjóbleikjur kraftmiklar og skemmtilegar viðureignar.
Lax truflar silungsveiðina
Við héldum nú til hádegisverðar og náðum jafnframt í Jónas, þriðja veiðifélagann sem ætlaði að vera með okkur seinni hluta dagsins. Í þetta skiptið römbuðum við á rétta slóð niður að Ásbjarnarnesinu. Við lögðum bílnum þar og byrjuðum að kasta. Það var kominn strekkingsvindur af norðri, veðurspáin var að byrja að ganga eftir, en við stóðum vaktina og köstuðum við Ásbjarnarnesið. Ég þurfti á þessum tíma að skoða nánar kamarinn sem þarna er og þegar ég kem til baka kallar Jónas til mín, ?Það er lax, ertu með háfinn??. Ég brosi góðlátlega, hugsa um grínistann Jónas og kalla til baka að ég sé með háfinn hangandi á bakinu. Stíg út úr bílnum og sé þá að Kjartan er með stöngina í keng. Hann kallar til mín að ég verði að sporðtaka hann. Ég stekk auðvitað til og bíð átekta á meðan hann þreytir laxinn. Þetta er nokkuð stór lax, um 95 cm langur og ég gríp um sporðinn, en held undir kviðinn á honum líka og lyfti varlega. Þar sem við vorum í silungsveiði, var þetta ekki það sem við vorum að leita eftir og því skyldi laxinum sleppt. Laxinn, veiðimaðurinn og aðstoðarmaðurinn voru því myndaðir í bak og fyrir, stillt upp og allt gert eins glæsilegt eins og mögulegt var fyrir myndavélina. Síðan fékk veiðimaðurinn laxinn í hendurnar og það var stór stund fyrir hann að sleppa sínum fyrsta laxi á meira en 30 ára veiðiferli. Það verður reyndar að taka fram að um niðurgöngulax var að ræða. Það skal einnig tekið fram að þegar myndirnar af laxinum voru skoðaðar eftirá, voru engar myndir, þar sem minniskortið í vélinni hafði fyllst, en stundin mun lifa best í hugum okkar sem þarna vorum.
Haldið heim
Nú mátti segja að túrinn væri fullkomnaður. Við ókum um svæðið, könnuðum aðstæður og fundum slóða sem hægt er að nýta í framtíðinni, en fórum síðan að huga að heimferð. Hópið hefur alltaf verið óskrifað blað í hugum okkar, vatnaflæmi sem erfitt er að veiða, með óafmarkaða veiðistaði, einfaldlega vatnasvæði sem þótti óaðlaðandi. En eftir að hafa prófað að veiða og notið náttúrunnar þar, er Hópið nú komið á kortið hjá okkur og öruggt að þangað mun leiðin liggja aftur í sumar og næstu sumur.
Höfundur Ólafur Magnússon
Upphaflega birt í maí 2005