Nesveiðar í Aðaldal eru rómaðar víða um lönd og á hverju sumri veiða þar auðugir útlendingar sem veiða og sleppa fiskum sem oft eru þeir stærstu að meðaltali í ,,drottningunni? - Laxá í Aðaldal. Stefán Jón Hafstein segir frá bátsferð með Völundi í Árnesi út á hinn fræga Presthyl.
Völundur er einn heimamanna sem gjörþekkja ána og segja til erlendum veiðimönnum sem sækja ,,drottningu íslenskra laxveiðiáa? heim á hverju ári. Hér er Laxá í Aðaldal lygn og breið þar sem hún rennur meðfram heiðarbrún alveg niður á hina frægu Fossbreiðu. Þar fellur hún niður svo háan foss og stríðan streng að menn gapa af undrun yfir því að lax geti gengið þar upp. Laxamýrarveiðar eru bæði fyrir ofan og neðan þetta veiðisvæði sem er fyrir dalnum miðjum.
Við hrindum úr skor einum af hinum flatbytnu laxárprömmum sem setja svip á landslagið við bakkana hér og þar. Völundur er að minnsta kosti af þriðju kynslóð laxveiðimanna í beinan karllegg í þessu fallega landi. ,,Ég réri með pabba og afa hér fram og aftur um breiðuna, skáskar breiðuna fram og aftur með þá? segir hann þegar premminn skríður frá landi.
Ég er eins og aðalsmaður í skuti, með stöng og sýg í mig sögurnar. Venjan var að fara með einn ræðara og tvo veiðimenn út, þeir sátu í skut og annar lét fluguna dingla fyrir aftan bátinn, hinn maðk. Laxinn hafði valið. Og ræðarinn sá um að þverskera breiðuna fram og aftur og færa sig smám saman upp ána.
,,Einu sinni var pabbi reyndar með spón og einn á bátnum? segir Völundur, ,,hann dró að sér spóninn uns hann var kominn alveg að bátnum, þá rykkti hann inn. Um leið stökk lax á eftir spæninum og alla leið um borð!? Þetta var 20 punda nýrunninn fiskur og má nærri geta um atganginn þegar slagurinn hófst með berum höndum.
Við veiðum
Við förum upp með bakka og síðan út á miðja á. Ég giska á að hún sé 60-70 metra breið þar sem hún er breiðust og lygn er hún, nú er logn og smágert regn. Við förum nálægt langri eyju og út frá neðsta hluta hennar kastar Völundur stjóra. Segir mér að kasta mjög stutt. Það fer varla stangarlengd af línu út. Laxinn hræðist sjaldan bátana ef ekki er farið með látum.
Nú stendur veiðimaðurinn upp, stendur gleiðfættur í skut og smátt og smátt lengjast köstin í átt að eynni, og svo niður. Hér er hefðbundið að láta fluguna bara berast með straumi en gefa henni líf með því að ,,salta og pipra?. Það er sérstök tækni sem felst í að lyfta stangaroddinum upp og niður svo smáir kippir komi á línuna; flugan fær líf, en hið margumrædda ,,sving? undan straumi fær notið sín ef rétt er kastað. Sumir láta fluguna reka dauða undan hægum straumi, en ameríkanarnir sem hér veiða kjósa flestir að ,,salta og pipra?, orðtækið komið til af því að lyfta stönginni lítið og létt eins og þegar maður hristir salt eða pipar, yfir matinn.
Og svo er ,,droppað"
Enginn lax tekur. Völundur stingur upp á að veiðimaðurinn taki eitt ,,dropp?. Það þýðir að stjórinn er tekinn inn, bátinn rekur spöl niður og svo er staldrað við á ný, byrjað með stuttum köstum og lengt á ný. Svona má skára mikið vatn. Við tökum dropp. Ekkert gerist á því, en á næsta droppi kemur að því. Áin er eins og spegill, löng lína úti. Þetta er mjög ólíkt því að veiða í Elliðaánum, Grímsá eða sunnlensku smáánum. Þar er maður með stutt köst og dregur oft hratt inn. Hér: Stór og mikill bugur af línu fer niður, línan smá réttir úr sér og flugan fer með þessari hægu stóru sveiflu.
Frægar eru tökurnar í ánni. Laxinn sér fluguna á löngu færi, lyftir sér hægt á eftir henni og kemur á löngu skriði með hækkandi boðaföllum uns hann tekur ? eða ekki. Þetta eru ógnarlega spennandi og dramatískar tökur. Taugarnar þandar til hins ítrasta meðan hann nálgast.
Þessi lax sem kemur er greinilega búinn að sjá fluguna á stuttu færi. Allt í einu kemur hann upp beint aftan við fluguna, á ská út frá henni, en tekur ekki. Svo kemur hann aftur upp og dembir sér á hana, það er hrifsað í. Ég gef út hönkina sem ég hef uppi og laxinn fær að snúa sér með línu. En flugan festist ekki. Það slaknar á og ég bölva prúðmannlega. Völundur segir ,,það er þó líf?.
Við tökum annað dropp. Hér fengu þeir einu sinni fjórtán laxa til að elta. Lönduðu 7 á innan við tveimur tímum. Allt stórlaxar. Við förum niður fyrir lítinn hólma. Hér er áin mjög breið. En laxinn er á einum punkti niður undan hólmanum, í skoru í hraunbotninum, stórlax, alltaf stórlax hér. Við reynum nokkrar flugur sem fara á rólegu svingi yfir gjána í botninum. Hér tóku þeir einu sinni ægilegan dreka í brjáluðu veðri, enginn fór út nema einn ameríkani sem lét sig hafa það, tók hrikalegt tröll á Green butt. Nú sefur tröllið sem á heima þarna.
Við skjótum okkur yfir í Presthyl sem er djúpur pyttur í þessu mikla vatnsflæmi. Og þá kemur sagan af 50 milljóna dollara flugnaboxinu.
Völundur var hér að veiðum með all rosknum Bandaríkjamanni. Það var glaða sólskin, logn og fegursta veður, áin eins og spegill. Strax í fyrsta kasti elti stór og mikill lax með löngu tilhlaupi, kom með boðaföllum á eftir flugunni. En tók ekki.
,,Við biðum, fengum okkur kaffi, reyndum aftur, nýja flugu?. Enn kom laxinn með jafn glæsilegum tilþrifum og fyrr. En tók ekki. ,,Við biðum enn, kjöftuðum smávegis, reyndum þriðju fluguna? segir Völundur. Og laxinn kom á þessu langa draumkennda svifi í yfirborðinu, rákin löng og hækkaði stöðugt uns ekki varð nær komist flugunni, en þá hætti hann við.
Völundur: ,,Við biðum enn stutta stund og fengum okkur kaffi?.
Ég: ,,Hvað biðuð þið lengi í hvert skipti? Völundur: ,,Eina til tvær mínútur, svo var reynd ný fluga?. Og alltaf elti laxinn. En aðeins einu sinni hverja flugu.
Ef sömu flugu var kastað aftur sást ekki til hans. En um leið og ný fluga kom mátti sjá rákina birtast og blóðið fraus í æðum. Þetta var tveggja tíma taugastríð. ,,Við köstuðum 16 flugum? segir Völundur. ,,Loksins tók hann.?
Það var sú fyrsta sem hann hafði elt og þeir reyndu aftur eftir þessar atrennur allar.
Sálarró
Þessi veiðimaður var kaupsýslumaður að westan og átti í miklum málaferlum þar sem hann barðist fyrir því að fá að halda fyrirtæki sínu. Í kveðjuskyni þegar hann fór raðaði Völundur öllum flugunum í box í sömu röð og þeim hafði verið kastað, skrifaði nafn við hverja og gaf félaganum. Sá sagði síðar að boxið hefði bjargað sálarheill sinni í málaferlunum. Allan veturinn gekk hann með boxið á sér, stundum bara til að þreifa á því í vasanum, stundum til að opna það og strjúka varlega yfir vængina. Eða það var opið á skrifborðinu. Þegar yfir lauk var boxið orðið lúið og hékk bara saman á einni plasthjör. En það fylgdi honum gegnum málaferlin. Sem unnust. Og fyrirtækinu var bjargað. Þetta var 50 milljóna dollara sigur. ,,Hann sagði að þessi minning og boxið hefðu komið sér í gegnum alla orrahríðina? segir Völundur. Við þurfum ekki að fá lax á Presthyl eftir svona sögu. Og svo hangir einn uppi í matsalnum í húsinu til að dást að: