2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
24.2.2020

Dagbók úr Veiðivötnum 2002 - úr safni Flugufrétta

Þessi dagbók birtist í Flugufréttum í júlí 2002, nú opin öllum. Segir frá blöndu örvæntingar og ævintýra með stórfiskum í Veiðivötnum með ótrúlegu sjónarspili í bland! Góða skemmtun.

  Júlí 2002:  Þegar veiðitímabilið er hálfnað í Veiðivötnum hafa komið á land yfir 7000 fiskar.  Bryndís veiðivörður og Rúnar brosa í kampinn þegar við spjöllum við þau, Flugufréttir mættar á staðinn síðdegis sunnudag til að veiða í tvo daga.  Í fyrra veiddust alls rúmlega 9000 fiskar; 77% af heildarveiði síðasta árs komin á land; ,,þetta verður líklega metár? segjum við og því er ekki að neita að við hlökkum til að hefja veiðar. 

1.vakt 
Í fyrra komum við einn dag og náðum fjórum fiskum, þar af einum 5.5 punda.  Nú verðum við tvo daga og ég er byrjaður að semja dagbókina í huganum.  Það er ekki víst að raunveruleikinn passi við draumana, en hér er dagbókin, færð á sex tíma fresti fyrir lesendur Flugufrétta. Velkomin í Veiðivötn:

Við fáum einn af kofunum fyrir okkur, frágangur til fyrirmyndar og kofinn vistlegur án nokkurra þæginda.   Hér í Veiðivötnum eru húsin ,,næsti bær við að vera í tjaldi?, aðeins kalt rennandi vatn, ekkert salerni, ekkert meira en kojur og borð.  Eins sveitamannslegt og hægt er að hafa það.  En snyrtileg eru húsin og það er fyrir öllu.

Í fyrra fékk ég fimm og hálfspundarann í fyrsta kasti í fyrsta skipti sem ég kom að Grænavatni, svo það er einboðið að byrja þar.   Nú hellirignir í logni, svo léttir til, dásamlegt veiðiveður.  Logn á vatninu.  Enginn fiskur.  Við erum með hinn fræga Kött á færinu, bæði.   Köstum fyrst í endanum þar sem kvíslin fellur úr, svo í hinum endanum, þar sem ég fékk boltann í fyrra.

Jæja.  Hér er uppselt í allt sumar, annað árið í röð.  80 stangir seldar á dag!  Sinnum 60 dagar, það gera 4800 stangardagar sem slegist er um.  Bryndís spurði: hefur þú heyrt kjaftasöguna um þig og Veiðvötn?  Ég verð spurningamerki í vöðlum.  Einhver fullyrti að Stefán Jón Hafstein hefði svælt undir sig 100 stangardaga til að selja á flugur.is!  Ég hlæ með fólkinu.  Má þakka fyrir að hafa skriðið inn í forföllum með samtals tvo daga.

Litlisjór

Við förum í Litlasjó, þar sem er nes og þar sem maður kastar í átt að eyju.  Við eigum kort frá fyrri ferðum þar sem búið er að merkja inn vænlega staði.  Svona á maður líklega að safna í sarp reynslunnar.  Köstum vandlega í rokinu sem allt í einu er komið, komið fram yfir kvöldfréttir; ekkert.  ,,Ekki neitt?? spyr Hermann sem kemur á jeppa á móti okkur á leið tilbaka, hann er í veiðivörslu með Rúnari og Bryndísi, einn af föstu steinunum á hálendinu.  Nú er Snjóöldufjallgarður baðaður ljóma sólar sem brýst gegnum ský.  Hann réttir höndina út um bílgluggann til að athuga vindátt: ,,vestan?; bendir á nokkra staði við Litlasjó og segir okkur að reyna.   ,,Bara kasta 10-20 köst á hverjum stað, um að gera að leita að honum! segir hann sposkur og hvetjandi   með hinum heillandi málhreim sem er þýskur en hefur blæ af færeysku. Hefur sjálfur tekið togarafarma í Vötnunum, við hann er kennd Hermannsvík þar sem hann fiskaði upp einhvern ótrúlegan grúa fiska í hvílíkum stærðum að mann sundlar.  Sem sagt: maðurinn er goðsögn og við kveðjum hann. 

Ekkert í Hermannsvík.  Ekkert í Litlasjó.  Ég kasta straumflugum:  Svörtum ketti, Rektor, Hólmfríði, Black Ghost, Shaggy dog.  Fyrst á hægtsökkvandi svo á hraðsökkvandi, dreg hægt inn, dreg hratt inn, dreg inn með rykkjum, tel niður, fyrst upp í 10, svo 20, byrja svo... nei.  Enginn fiskur.  Skipti í smáflugur sem ég set þrjár á tauminn:  Zulu, Watsons Fancy, Pheasant tail.  Kem svo með Eggið.  Bæti við púpu úr efni frá Jan Ziman.  Fer svo í lítinn nobbler.  Við förum í Hraunvötn.

Stórfiskavötn

Hér í Hraunvötnum veiðast yfirleitt þeir stóru.  12 pundari kom hér um daginn.  Hér er vík og nú stendur vindur beint inn á hana.  Þetta eru kjöraðstæður.  Vindur á móti, aldan brotnar í kantinum rétt utan við land.  Þar er fiskurinn að éta í rótinu.  Hér fyllist maður sjálfstrausti því hér hef ég sett í fiska áður við sömu aðstæður.  Við rifjum það upp.  Fyrst með gulri straumflugu, Dísu eftir Daða Harðarson. Svo fékk ég högg á svarta nymfu, í roki þegar aldan gruggaði upp. Já, svo man ég þegar ég tók hann á nobbler þegar ég strippaði eins hratt og ég gat.  Þokan skellur á.  Við reynum allt.  Ég finn að vonleysið er að koma hraðar en þokan, svo ég einbeiti mér, veiði meðvitað. Förum á tvo staði í Hraunsvötnum í viðbót, þekkta veiðistaði og ég kasta í allar áttir og með öllum flugum og dreg þær inn með öllum aðferðum.

Nú er ég þakklátur fyrir þá forsjálni að hafa eldað indverska kjötkássu sem bíður eftir að vera hituð. Hún er í aflakassanum á ísnum sem ég tók með fyrir fiskana sem ég veiði ekki í kvöld.  Þegar við rennum í hlað við Tjaldvatn þar sem allir nátta sig eru makrílkarlar tveir að gera að boltafiskum.  Ég ákveð að bergja niðurlægingu fluguveiðimannsins í botn og fer og kjafta við þá.  ,,Gekk ekkert með fluguna?? segir annar.  Það er kominn tími á kássuna.  Ég hugsa um dagbókina sem ég lofaði sjálfum mér að skrifa handa lesendum Flugufrétta.  Fyrsta kafla er lokið þegar myrkið skellur á með þokunni.  Og kássunni sem ég var að klára.  Á morgunn er kominn nýr dagur syngur Pálmi.

2.vakt.

Klukkan sex hringir og ég er enn efins um að halda þessa bölvuðu dagbók.  Hvað ef ég fæ nú ekkert?  Metár í Veiðivötnum en Stefán Jón Hafstein núllar!  Jæja, ég ákveð að deila lesendum sorgum mínum eins og gleði.  Dagbókin verður haldin.

Veiðivötn bjóða upp á margt.  Gígvötnin eru kannski frægust, því sagnir herma að ekki sé hægt að veiða á flugu í svo djúpum vötnum.  Fossvötn eru nú helguð fluguveiðum eingöngu eins og skiltið segir þegar komið er að. Maður lætur sig síga niður gígbarmana, niður að vatninu, rétt utan við flæðarmál er kantur þar sem við tekur hyldýpi.  Ekki draumur fluguveiðimannsins.

Ég nota sökklínu.  Er með Köttinn.  Kasta langt út, tel upp að 20 og dreg svo inn með rykkjum.  Bravó!   Fljótlega er tekið í og það hressilega, ,,fiskur!? hrópa ég til veiðifélagans því þetta er fyrsta líf.  Sem ég tek.  Hann virkar eins og 5pundari og ég tek góðan tíma í að þreyta?ann; svo sterkur, strikar, kafar, rífur kjaft.   En er bara rúmlega 3ja pundari. 

Ég er vanur þessum vötnum og hef mína aðferð:  Kasta langt út.  Meðan línan sekkur tel ég.  Og rölti til hliðar á bakkanum með kantbarminum, gef út línu og lengi í.  Þegar komið er í talningu á 15, 17, eða 20 hef ég færst 5-7 metra úr stað frá því sem ég kastaði.  Þá byrja ég að draga inn skáhallft meðfram kantinum.  Svona fæ ég lengri inndrátt út úr hverju kasti, og það sem meira er: ég fæ lengri inndrátt meðfram kantinum en þegar ég byrja að draga inn á sama stað og ég kastaði.  Ég held að fiskarnir séu frekar nær kantinum en úti, og veiði samkvæmt því.

Við erum hreyfanleg, fáum ekki fleiri, reynum víðar, það er kalt, þoka, en hva?  Þrír tímar líða.  Endum á sama stað.  Ég fæ strax högg og svo tíni ég þá upp við kantinni, 3 í röð, alla frekar litla, en þeir taka Köttinn þegar ég dreg hann inn með rykkjum.

Jamm.  Stundum er ég heppinn.  Við förum út á nesið,  ég er fyrstur, kasta út og lengi í. Bomm!  Línan rýkur út.  Öll.  Ég herði á bremsunni og það  dugar skammt.  Svo stekkur hann  40 metra úti.  Allur upp og flengist niður.  Þið ráðið hvort þið trúið því.  En ég hugsa með mér: Jæja, dagbókin verður þá ekki eintómt píp.  Þetta er 5.5 punda fiskur sem er svo ótrúlega fallegur að ég verð að trúa ykkur fyrir honum áður en ég legg mig til að gera klárt fyirr næstu vakt:Við erum búin að vera rúma fjóra tíma í Fossvötnum og það væri freistandi að fara heim í kofa og borða og sofa.  En ég er veikur fyrir hugboðum. ,,Förum fyrst á litla nesið í Litlasjó? segi ég, teygi mig í pakkann af Köttum sem ég fékk fyrir ferðina og set á ,,sexuna?.  Sexan er með hægtsökkvandi línu númer 6.  Ber varla svona þunga flugu.  Ég er með ,,áttu? líka, þar er sökklínan.  Gulur Köttur fer undir.  Við rúntum á nesið.  Veiðivötn kalla á mikið rúnt.  Sérstaklega ef maður ætlar að taka bara 10-20 köst á hverjum stað til að athuga hvort ,,taka? er í gangi.  Hér er um áttatíu vötn að velja, þúsundir veiðistaða ? held ég.  Hér og þar eru bílar á hæðarbrúnum eða við flæðarmál.  Beitukóngarnir eru með færin úti, standa í litlum hópum og kjafta þar til einhver stöngin bognar.  ,,Taka? er töfraorð í Veiðivötnum. Stundum er taka samtímis í öllum vötnum, allar stangir í keng, eftir margra klukkutíma bið.  Svo slökknar á öllu.  Maður er á ferðinn og athugar, staldrar mislengi við, lengst þar sem maður hefur fengið fisk áður.  Svona er það, sálarlífið.

3. vakt.

Sólin reif af sér skýin meðan ég þreytti ,,þann stóra?, svo sá ég tvo vaka, við fórum í mat og lögðum okkur því ,,enginn fiskur tekur milli klukkan 2 og 4? segi ég.  Sumir segja að fiskurinn í Veiðivötnum syndi í hringi í torfum meðfram ströndinni og því sé málið að vera nógu þolinmóður með agnið þar til hringekjan fer framhjá.  Þá gefi hann sig í hálftíma ? max.  Ég held að fiskurinn sé staðbundinn.  Það er urriði yfirleitt.  Hann syndir ekki í hringi með ströndinni, heldur svifar að og frá landi.  Urriðafjöskyldur eiga heima á um það bil  100-200 metra svæði.  Þær færast að og frá landi, upp og niður í dýpinu, éta þetta og éta hitt, en eru talsvert mikið í kallfæri á svipuðum stöðum og þær hafa sést á áður.  Taka ekki alltaf.  Ónei.  En eru alltaf í rétt í kastfæri eða aðeins utar.    Þetta er mín kenning.  Og þegar ég heyri að sést hafi til ,,dreka? svamla í öldunni í Litlasjó kvöldið áður, langt utan kastfæris, ímynda ég mér að þeir muni svifa að í kvöld. 

Það er orðið áliðið eftir dagbókarskrif, miðdegisverð og miðdegislúr í stærri kantinum.  Sól skín í heiði en mann grunar að nú sé hann að herða sig með vindinn.  Við förum í Grænavatn með nýjar upplýsingar um góðan stað en sá er nú ekki betri en nemur tveimur álftum.  Förum á annan stað í Litlasjó þar sem risastóru alvöruboltarnir sáust stökkva miklu utar í gærkvöld.  Þeir eru ekki komnir að svo merkjanlegt sé.  Hér er grjótbotn og klungur fyrir veiðimenn, ekki mikið dýpi en verulega urriðalegir steinar í botni.   Og festur.  Nú er rokið komið í Veiðivatnalegar hæðir, sem er ekki gott.  Þræsingur lemur allt niður, jafnvel beituveiðimenn sem nenna ekki að skakklappast til að vitja um; hvað mega þá fluguveiðimenn segja?  Þetta er dæmigert Veiðivatnakvöld, ekki eins og þau sem maður man eftir lengi og dreymir um, heldur þau sem maður er alltaf að lenda í.  Hvílíkt rok.  En það er ekki kalt.  Maður rúntar milli staða, þarf að herða sig upp til að fara út og kasta, hlustar á fréttir, borðar kex, drekkur safa, blundar kannski einu sinni, nennir ekki út.  En hér er gamalkunnug vík með malarfjöru, afhallandi, og ég veit að nú þegar rokið stendur inn á hana þyrlast upp æti í fjöruborðinu og hann SKAL vera þarna úti, örstutt frá landi.  Ég hef staðið hann að því við svipuð tækifæri. 

Já, Veiðivatnaveiði er ekki bara sökklína í gígum.  Hér er fiskurinn væntanlega ótrúlega stutt frá landi, svo stutt að enginn trúir því sem ekki hefur reynt.  Ég hef tínt þá upp á 2-3 metra færi.   Lengi vel var það eitt helsta deiluefni Veiðivatnajaxla hvort ætti ,,alltaf? að veiða á móti vindi.  Var haft til marks um að fluguveiðar væru erfiðar.  Menn sögðu að fiskurinn elti vindinn upp að landinu.  Aðrir spurðu: Haldið þið að fiskarnir í heilu vatni færi sig yfir af því að vindurinn blæs í þá átt?  Þótti mörgum spaklega spurt.   Þessir náungar hlógu að dellunni, veiddu bara undan vindi og veiddu stundum vel. 

Eins og svo oft hafa hvorir tveggju rétt fyrir sér.  Fiskurinn færir sig nær landi þegar vindur stendur stífur á fjöruna.  En ekki allur fiskur í því vatni, aðeins sá sem á heima nálægt ströndinni þeim meginn.  Hann sækir í öldurótið þar sem ætið rótast upp.  Þess vegna er gott að veiða á móti vindi í víkum þar sem malar- og sandbotn er á löngum kafla.  Þetta eru vinsælir staðir í Veiðivötnum.

Ég er hættur að veiða beint á móti vindi.  En veiði í víkum þar sem vindur stendur beint upp eins og nú.  Veð út eins og ég kemst, horfi inn með landi og kasta þægilega með vindin á vinstri vanga, þeyti línunni meðfram landi - en ekki út frá því.  Trúi á kenninguna um að fiskurinn komi uppað, þess vegna kasta ég ekki út, heldur meðfram landi.  Ég ákveð að veiða þessa gamalkunnu vík af fyllstu alvöru og af alúð.  Prófa margar straumflugur, dreg mishratt inn, og set svo röð af smáflugum Zulu, Peacok, Pheasant tail, læt þær reka inn í öldurótið við landið.  Hér SKAL hann vera.  Nú hamast rokið.  Einu sinni tók ég urriða hér á heljarstrippi 2 fet frá landi!  En engan í kvöld.

Við erum fisklaus eftir þetta hrakningasama kvöld.  Einmitt þegar allir eiga að fara að pakka saman lægir, kvöldsólin brýst undan skýjum og gyllir fjöllin, en við verðum að hætta þegar takan gæti farið að byrja.  Öldurnar í Litlasjó eru orðnar skaplegar, við köstum út frá malarströnd eins og til að segja góða nótt, og þá tekur einn!  Hangir á í 10 sekúndur og kveður. 

Við eigum næsta morgun eftir og nú er klukkan orðin hálf eitt, og kominn tími til að láta sig dreyma fisk síðustu vaktina.

Síðasta vakt.

Ég sá að einhverjir voru að gera að fiski við borðið hjá húsinu í gærkvöld, en nennti ekki að spyrja, flestir virtust fara beint heim að kofum og tjöldum án þess að gera að.   Nei, þessi síðsta vakt hefst ekki með aðgerðarkvíða.  En gaman væri að fá líf á færið.

Ég frétti að dagurinn í gær hafi verið einn lélegasti veiðidagur sumarsins.  Jæja.

Þegar ég kom hingað fyrst fyrir 10 árum voru flestir á því að ekki þýddi að veiða á flugu í Veiðivötnum, nema sem grín.  Og til var orðtækið ,,skemmtilegir flugufiskar? um smáfiska í tilteknum vötnum, því fáheyrt var að stórir drjólar veiddust á flugu.  Svo sannaðist annað.  Straumflugan er sterk og það er ekki rétt sem sumir segja að draga eigi hægt inn.  Maður á að draga allavega inn, því stundum virkar eitt en annað ekki.  Dentist gaf mér best fyrst.  Nobblerinn svo.  Nú hefur Kötturinn tekið við.  En ég prófa alltaf margar flugur.  Já, og smáflugur virka.  Púpur og nymfur: Hérareyra, Peacock.  Aðrar.  Stærsta fisk sem ég hef tekið hér efra tók ég á svarta, silfraða og rauða nymfu númer 12 á sökklínu.  Það var sjö punda fiskur í gígvatni.  Ég á enn eftir að taka þá á þurrflugu hér, en það kemur að því.  Margir hafa gert það.

Veiðivatnafiskar

Veiðivatnafiskur er ekkert öðruvísi en aðrir fiskar.  Tekur flugur.  Nema hann er flottari en flestir, stærri en  víða sjást, heldur ódýari leyfin og landslagið í kringum þá ótrúlega hrífandi.  Og svo þessi undarlega Veiðivatnamenning sem nú er tekin að blandast: Hér voru beitukóngar allsráðandi á sjógöllum með kerrur undir afla; nú er flugan orðin svo sterk með sínu ,,snobbi? að hér má líta fólk sem lítur ekki á það sem misheppnaðan dag að fá fimm fiska og þar af einn yfir fimm pundum ? á fluguna.

Núna vöknum við fyrst allra í Veiðivötnum.  Erum komin af stað út í vötn á undan öðrum og tökum strikið á vinsælt nes í Litlasjó, tá sem gengur fram með klettum út í vatnið og er vinsælt að standa og kasta.  Makríl, spæni, flugum.  Mér finnst ómögulegt að kasta flugum innan um spónakarlana, svo nú vil ég fá frið smá stund.  Og veitir ekki af!   Þegar við förum niður hólinn að klettatánni heyrist dynkur beint fyrir framan mig, ég sé hringina breiðast út í hægri vindöldu.  Sá var stór.  Ég þarf ekki að gera neitt nema taka út 5 metra af línu og láta Köttinn detta á punktinn. Eitt, tvö stripp.  Og hann tekur.  Hörkunegling,  þetta er greinilega stór fiskur því stöngin fer í keng og hann kafar, strikar  fram og aftur, aldrei langt en er greinilega að hugsa ráð sitt, togar fast í.  Svo skrúfar hann sig upp beint fyrir framan mig, ég get borið hann saman við 5.5 pundarann frá í gær og þessi er stærri.  7-8?  Nja.  Það munum við aldrei vita, því hann kemur æðandi að landi svo ég verð að hlaupa afturábak til að halda strekktu, fer svo út nokkra metra, stoppar.  Og það lekur úr honum.

Eftir stutta stund er annar á og sá virkar mjög lítill.  Reynist 3 pund eftir að ég landa honum. 

Nú hefst sjónarspil sem ég hefði ekki viljað missa af.  Búmm, byltur, hviss og stökk.  Urriðar í öllum stærðum eru á lofti!  Sumir eins og hnýsur með höfuð og sporð í þeirri röð upp.  Aðrir koma á fleygiferð og skrúfast upp í loftið og plamma niður, oftast minni.  Svo koma þessir dynkir þegar fiskar í dularfullum stærðum bylta sér þunglega.  Þetta er feiknasirkús.  Fáir taka í, ég missi einn í viðbót, 2ja pundara, og verð var, kasta á staðina sem ég sé þá.  Eftir þrjá tíma hef ég sett í 3 fiska, náð einum. Allan tíman var samt nóg að gera að fylgjast með látunum og reyna að kasta á þá.  En nú þagnar vatnið.

Við tekur rúntur.  Gærdagurinn virðist hafa dregið móð úr veiðimönnum, bílarnir sjást fáir fyrr en kringum klukkan 10, og menn eru rólegir í tíðinni.  Þegar eftir er klukkutími af síðustu vaktinni endum við á sama nesinu.  Bamm.  Þeir eru byrjaðir að bylta sér aftur.   Ég tek á Köttinn, virkilega fallegan 3ja punda fisk, og svo kemur svakalegur hryggur upp og hrifsar í Rektorinn.  Var það sá sem við sáum fyrr og sýndi hrikalega þykkt bakið?  En ekki festir hann sig.

Síðasta vaktin er búin. Stubbur tekur litla græna flugu, ég er með 3  eftir morguninn og sáttur.  Best var sjónarspilið ? þegar drekarnir byltu sér með dynkjum í fjallasalnum.  Það er bræla, en samt gaman.  Ég tel saman í huganum: átta fiska á tveimur dögum.  Ekkert metsumar hjá mér.  En missti bolta og fékk heilmikið út úr heimsókn í Veiðivötn.  Eins og alltaf.

-sjh

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði