Kötturinn gerði gæfumuninn
Okkar maður var á ferðinni sunnudagskvöld í júní 2002 að koma frá opnun sýningar sem kollegi hans Hallsteinn Sigurðsson hélt í Laxárvirkjun, þegar hann ákvað að taka nokkur köst í Ljósavatni. Guðmundur varð sér úti um leyfi hjá bóndanum á Arnstapa og renndi síðan út frá höfðanum sem þarna er rétt við þjóðveg 1. Hann kastaði hér og þar en varð lítið var. Einstaka bleikjukræða lét þó gabbast en þeim var jafnóðum gefið frelsi.
Guðmundur hafði reynt alls kyns flugur í kvöldblíðunni, til dæmis Dentist og fleiri slíkar, og var eiginlega orðinn hálf dreyminn og áhugalaus þegar hann heyrði þónokkurt skvamp ekki langt undan.
Honum varð litið út á vatnið og sá hvar þokkalegur fiskur kom upp í yfirborðið. Æstist nú okkar maður en það var alveg á mörkunum að hann næði að kasta á punktinn þar sem fiskurinn hafði sýnt sig. Og eins og stundum gerist þegar fluguveiðimenn verða æstir, þá fór nú allt í handaskolum, línan flæktist og köstin mislukkuðust.
Í ergelsi sínu ákvað Guðmundur Ármann að gefa svörtum Ketti tækifæri á að sanna sig, náði góðu kasti og hann var á í fyrsta kasti! Þetta var um 2ja punda urriði sem dansaði heljarmikinn sporðdans á vatnsfletinum og var sleppt að loknu sýningaratriðinu. Í öðru kasti var sömuleiðis á fiskur undir eins og þannig gekk þetta fram eftir kvöldi. Guðmundur Ármann fékk 10 fína urriða og hirti þrjá þeirra.
Flugan kötturinn er hér að ofan.
Ævintýri á öðru kvöldi
Næsta kvöld var okkar maður mættur aftur á sama stað og með nóg af svörtum Köttum í boxinu sínu. Enda var það eins og við manninn mælt að sagan endurtók sig. Guðmundur hirti nú þrjá aðra urriða og sá stærsti var 2,2 kg eða tæp 4,5 pund!
Að sögn Guðmundar Ármanns voru þetta allt mjög fallegir fiskar og feikna vel haldnir. Þeir tóku allir Köttinn en fullvíst má telja að það hafi gert gæfumuninn hversu þung flugan er og nær því vel niður til urriðans í djúpinu. Græjurnar sem Guðmundur notaði: Flotlína, steinsökkvandi taumur og mjög stutt girni.
SJH