Draumur urriðaveiðimanna í Mývatssveit er að komast í tæri við þann stóra. Risastóra. Þeir eru nokkrir á ánni, þessir sem slá hátt upp í 10 pund og svo eru sagnir um fleiri; við kvöldverðarborðið er sagt frá þessum sem sýndi sporðinn sem var eins og skófluspaði áður en hann stakk sér fram af broti og sleit tauminn; SJH man eftir einum sem hann sá undir bakka og minnti á haförn þegar hann blakaði horni af sporði og lét sig hverfa í stauminn.
Um helgina 1.-3. júní náði Svend Richter einum af þessum stóru í opnuninni í Mýtvatssveit. Tók hann undir stíflunni þar sem erfitt er að koma flugu niður. Þetta er ekki draumaveiðistaður. En risarnir sem eiga það til að vera þarna hafa aðdráttarafl.
Veiðimaðurinn lánsami var ekki sá fyrsti til að kasta þarna flugu. Tveimur dögum áður náði SJH að koma flugunni sinni þarna niður, sömu flugu og sá stóri tók. Svarti nobblerinn kafaði í fyssið og línan hlykkjaðist undan flauminum. Þá var kippt hressilega í, línulykkjurnar réttust í vatninu og stangaroddurinn tifaði nett, en veiðimaðurinn náði ekki að bregða við til að festa fluguna. Þarna munaði litlu. Og skömmu síðar fór Rektorinn á sama stað og um leið og gula flugan lenti stóð strókur upp í loftið á; fiskur hafði brugðið hart við og ætlaði að negla fluguna mína en var of seinn. Viðbragð manns og fisks þarf að smella saman. Það tókst hjá Svend daginn eftir. Til hamingju með það Svend.
Kúpurnar
Eins og venjulega í byrjunarhópnum voru miklar umræður um gildi þess að veiða á straumflugu eða kúpur. Fyrir örfáum árum var straumflugan einráð, allir veiddu á hana, og nánast einvörðungu. Black Ghost var eins og trúboð, og svartur Nobbler. Nú hefur Ghostinn ,,klikkað" í byrjun bæði árið 2000 og 2001, en kúluhausarnir verið mjög öflugir bæði vorin.
Þyngd púpa sem menn kasta andstreymis og láta berst fyrir fiskinn kom með norskum veiðimönnum í almenna veiði í ánni. Þeir náðu mjög góðum árangri svo vakti athygli. Fljótlega tóku menn að beita púpum með kúluhausum, kúpum, og sönnuðu þær gildi sitt þegar í stað og eru nú alveg örugglega jafn sterkustu flugurnar í Laxá, mun veiðnari en straumflugur.
Þetta eru gjörólíkar veiðiaðferðir. Straumflugan líkir eftir síli eða vekur árásarhvöt hjá fiskinum svo hann ræðst á hana. Púpan er ætið sem hann vill. Hún kemur til hans, pínulítil, eins og hver önnur lirfa eða skordýr, og hann gleypir hana. Veiðimaðurinn sér að línan stöðvast á reki sínu og bregður snöggt við til að festa. Þetta er lymskuleg aðferð. Að veiða með straumflugu er tilboð til fisksins um að koma í slag, að veiða á púpu er frekar að plata hann í mat.
Í opnun í ár voru það kapparnir í Fluguveiðifélagi Íslands á Akureyri sem voru enn á ferð með kúpurnar sínar og öfluðu vel. Þeir eru flestum harðari við þær veiðar og mjög góðir veiðimenn. Ef maður fengi eina flugu til að hafa með sér í Laxá yrði hún örugglega púpa með kúluhaus. Þessar flugur eru einfaldlega mun sterkari við flestar aðstæður en aðrar. Sumir í opnunarhópnum voru farnir að tala um endalok straumfluguveiða í Laxá, en þá tóku menn kippur af fiskum á einmitt þær, svo enn heldur straumflugan gildi sínu.
Fjölbreytni
Þar sem menn eru frjálsir til að stunda þær veiðar sem þeim sýnist er fáránlegt að binda sig við bara eina tegund flugna. Púpuveiðarnar eru þrælskemmtilegar og gefa góðan árangur. Örugglega jafn bestan. En hvers vegna að neita sér um þá ánægju að kasta straumflugu á fallegan streng bara að því að líkurnar á að veiða með henni eru stundum minni en ella? (Þetta hefði verið fáheyrð spurning fyrir fimm árum! Engum datt í hug annað en straumflugan væri aðalmálið og jafnvel eina málið á urriðasvæðinu. Þá veiddu margir á ekkert nema straumflugu, og gera því miður enn.)
Fjölbreytni er lykilorð í Laxá. Tveir vel vanir kúpuveiðimenn stóðu í tvo tíma yfir streng sem heldur stórfiski í hrönnum. Þeir settu í einn sem reif sig lausan, urðu annars ekki varir. Til að ljúka törninni settu þeir eitt rennsli með Rektor í gang, og tóku rígvænan á innan við fimm mínútum. En síðan ekki söguna meir. Þetta er algengt í Laxá. Hin frægu ,,skot" koma með ýmsum hætti. Þannig sögðu menn að Brotaflóinn væri ,,dauður" fyrsta daginn, en hann hrökk svo eftirminnilega í gang næsta dag. Þá um kvöldið tóku nokkrir Norðlendinganna flotta fiska á kúpur efst í Flóanum.
Staðir og flugur
Umræður manna á meðal eiga ekki að snúast um hvað sé "best". Heldur hvað er skemmtilegt, gefandi, og hvað mann langar til. Það er áreiðanlegt að kúpurnar eru að meðaltali jafn sterkastar í Laxá. Enginn vafi. En staðirnir í ánni eru svo margir og fjölbreytnin svo ríkuleg, að veiðimenn ættu að endurspegla það með aðferðum sínum. Skipta um stíl og aðferð. Hvers vegna ekki að taka 1-2 tíma í að kasta þurrflugu á spegil og athuga hvort maður nær honum upp? Skítt með það þótt maður veiði ekki neitt. Eða gera eitthvað skemmtilegt eins og að setja stóra flugu með teygjulöppum á tauminn, binda litla púpu aftan í hana og draga þær svo með bægslagangi yfir lygnan hyl? Það gerði SJH sér til skemmtunar og náði einum einmitt þannig. Það tók tíma og fyrirhöfn. Fyrir stóraflamenn er svoleiðis föndur náttúrulega bara tímasóun.
Fyrir þá sem kjósa straumflugu er mikilvægt að ná henni niður þegar svo háttar. Nota sökkbúnað af einhverju tagi. Og hafa breytilegan inndrátt. Við hina frægu Þúfu í Hofsstaðaey. Straumflugurnar tóku 6 fiska þann morgunn, teknar inn á miklum hraða. Sá stærsti var 57 sentimetrar.
Púpað á Sauðavaði. Tvær þungar púpur á taumi sem kastað er upp fyrir veiðimanninn og stangarendinn síðan látinn fylgja flugunni á leið niður, þegar þarna er komið er flugunum vippað aftur upp. Þarna tóku fjórir fiskar rétt hjá veiðimanninum á einum klukkutíma. Sama morgunn tóku Óskar Páll og SJH samtals fimm fiska á kúpurnar í Brotaflóa, með því að kasta stutt frá og fylgja rennslinu og bregða við um leið og takan fékkst. Sá stærsti kom á Peacock hjá Óskari Páli, sem höfð var sem ,,dropper" með kúluhaus, sá slagaði hátt í 5 pd. Sami veiðimaður náði að setja í stærri fisk í landi Geirastaða, eftir að hafa staðið lengi yfir frægum streng og púpað. Sá slapp með skrekkinn, en tók ,,tékknymfu". Hún er ekki með kúluhaus, svo jafnvel hann er ekki trúaratriði. Ef eitthvað skiptir máli þá er það að hafa gaman af veiðiskapunum.
Höfundur Stefán J Hafstein
Birt í júní 2001