2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
18.2.2020

Dagbók fluguveiðimanns: Laxá opnar 2002

Urriðasvæðið í Laxá hefur yfir sér dulúðgan blæ. Fyrir suma. Fyrir okkur sem njótum þess heiðurs að fá að ,,opna" fyrsta júní ár hvert er þessi fasti punkturí tilverunni dásamleg sönnun þess að lífið ríkir yfir helköldum dauðanum sem leggst yfir norðrið á veturna. 

 Föstudaginn 30. maí stefna galvaskir veiðimenn að úr öllum áttum, Hólmfríður er búin að draga fána að húni og í kvöld verðum við mættir með alvæpni, búnir að setja saman fyrir háttinn og tilbúinir í slaginn á laugardagsmorgni. Halelúja. Enn á ný. Við bjóðum lesendum að slást í hópinn, gjörðið svo vel, svona byrjar sagan áður en hún hefst:

 
 

Laugardagsmorgunn


Sumir fengu fantafína veiði en einn og einn lenti á upp ákant við hamingjudísir, þannig fréttist af manni sem ekki fékk fisk, tveir félagar aðeins smáa. Fínt veður, dumbungur og stöku regndropar sem urðu að vætu á grasi, liðið fór snemma út og má segja að á öllum svæðum hafi veiði hafist á slaginu átta. Púpurnar gáfu strax vel en straumflugurnar reyndust síðri þessa fyrstu vakt. Snjallir púpuveiðimenn voru á neðstu svæðum, gegnt Hofstaðaey og neðar, á Hamri og Brettingsstöðum og stöku maður setti í stórafla. Vinyl-rib púpur gáfu strax, einn tók átta gegnt Hofsstaðaey og fór þá ofar gegnt Steinbogaey, tók fleiri (og sleppti flestum) og ákvað þá að veiða aðeins á straumflugu. Fékk ekki högg. Þetta má heita dæmigert fyrir fyrstu vaktina: púpurnar gáfu, straumflugur síður. Margir fallegir fiskar komu á land, uppí rúm fjögur pund og niður í Strákaflóa fréttist af risa sem fór sinn eigin veg.

SJH fór niður með Geldingaey til að byrja með og fékk góða fisk fljótlega í Brunnhellishrói (sjá mynd). Tveir gáfu sig undir Björgum en fengu líf vegna smæðar, voru rétt undir 2 pundum, en sá fjórði sem tók fór í pokann, silfurbjartur og fínn, en enginn risi. Svo datt allt niður. Þetta var fínn morgunn þótt misskipt væri láni, nær allir með fisk og sumir marga, fór eftir svæðum, heppni og smávegis getu líka ef allt errétt.

Áin er fögur, ekki skoluð, frekar hlý, fluga að klekjast og á stöku stað má sjá fiska uppi! 

 

Laugardagskvöld:

Þegar liðið kemur í hús má sjá að sumir hafa gert þokkalegan dag í heild og aðrir frábæran, en til eru öngulsárir menn sem enn hafa ekki sett í fisk.Við félagarnir vorum á svæði þar sem lítið líf var í kvöld. Samt fékk ég tvær tökur þar sem heitir Lameyjarstrengur, sá fyrri hreinsaði sig og datt af, sá síðari var mun vænni og þumbaðist þar til hann stakk sér í slý og losnaði. Báðir tóku púpur. Fáir fá viðbrögð á straumflugna enn. Ég fer í Skötueyjarvað, fæ töku en er of seinn að bregða við, ákveð að stækka nymfuna svo hún virki bragðmeiri, fæ strax silfraðan fisk.1.5 pund, en fallegur er hann og sterkur. Vippa sömu púpu út aftur og nú stoppar línan, tveir kippir og svo hreinsar sig bolti upp, hjólið syngur og hann ferð á sporðinum hvað eftir annað. Langur slagur ber hann að landi en eilífar rokur út, með loftköstum. Ég er háflaus. Tekst á endanum að koma honum að bakka og taka í hnakkadrambið. Á land fer hann, mælist 4 pund. Því miður hafa félagarnir ekki orðið varir, vinir okkar úr Hofstaðaey segja að þar hafi verið rólegt. Ég er heppinn, þegar þokan skríður yfir set ég Rektorinn undir og fæ högg um leið, eini straumflugufiskur dagsins hjá mér, kemur á land. Þrír teknir í kvöld, tveir sluppu, þrátt fyrir allt ekki sem verst, en mikið varð maður að hafa fyrir þeim. Karlanir fara í súpu meðan ég skrifa skýrsluna,sumir velta fyrir sér möguleikum morgundagsins meðan hinir sleikja útum yfir sigrum dagsins.


Blíða áfram. Nú kemur 65 sm. fiskur úr Geirastaðaskurði, sá stærsti hingað til, vegur ekki nema ca. 2.5 kg sem sýnir að fiskurinn er ekki enn kominn í góð hold. Kuldinn hér nyrðra segir til sín, lirfa hefur ekki náð að vaxa í góða silungastærð. Þeir eru ekki byrjaðir að tútna út urriðarnir. Þennan morgun eru margir að gera góða hluti. Blítt lætur veðrið og púpurnar virka, hér og þar má sjá fiska uppi.Sunnudagsmorgunn:

SJH á Brotaflóa og það eru komnir fiskar á eftir púpunni með það sama. Ekki nógu stórir en taka rispur. Svo tekur einn vænn, ég sé í gulan kviðinn þegar hann snýr sér. Missi hann. Tek loks einn sem fer í pokann, enda silfraður og feitur, ekki hrygnt síðasta haust. Hér og þar eru svelgir eftir fiska sem snúa sér á eftir æti. Ég fer neðst í Brotaflóann og skima, hér er oft torfa. Svelgur í vatni sannar að ég er á réttum stað. Pheasant tail fer undir og í þriðja kasti fer tökuvarinn á kaf, ég bregð við hart og nú kemur hann upp eins og tundurskeyti úr kafi, hörkunagli, ég sé meira að segja krókinn á hængnum. Þetta verður mikill slagur því nú kafar hann í stað þess að stökkva. Strikar út og kemur þungurinn. Loks í háfinn. Þetta er þokkalegur fiskur sem er í kringum 4 pund. Í næsta kasti fer tökuvarinn aftur á kaf og nú kemur sýnu stærri fiskur hálfan metra í loft upp rétt fyrir framan mig, snarsnýr á punktinum þegar hann lendir og stefnir beint á mig. Ég rétt næ að halda við, hann er mun hraðsyndari en hinn, hristir sig einn metra frá mér og er laus. Svona púpar maðurinn í morguninn, sóarglenna á stöku augnabliki. Alls staðar líf, ekki allir stórir en þolanlegir innan um. Hirði ekki nema tvo í pokann því flestir eiga eftir að fitna betur. Lýk morgunvaktinni með því að taka þrjá í röð sem ég sleppi á Sauðavaði á létta stöng fyrir línu 4, sólin skín og maður leggst bara á bakkann og sofnar út vaktina. Margir gera það gott þennan morgunn, en einn snýr fisklaus úr Hofstaðaey. ,,Nei, nú fer ég að veiða andstreymis með púpu" segir hann. Það þýðir ekkert annað.

Sunnudagskvöld:

Það er dauft í sumum hljóðið en öðrum miklu betra þegar heim er snúið.  Það er von. Svæðin eiga til að ,,detta dauð"  eins og slökkt sé á fiskunum, þeir sem koma úr Hofstaðaey hafa ekki erindi, þeir sem voru í Hamri sáu lítið, en svo spyrst út að tveir strákar hafi lent í torfu í Ærhelluflóa og tekið átján í beit!  (Auðvitað slepptu þeir megninu, því nú hefur kvótinn verið lækkaður í sex á dag).  Við fórum til skiptis í Geirastaði og Geldingaey með þrjár stangir.  Ég er heppinn. Fer í eyna og af því að ég veit að strákarnir eru annars staðar fer ég í Brunnhellishró, nálgast það neðan frá með púpuna og tökuvarann að vopni, stend skáhallt undir hól og hef ,,pottinn" fyrir framan mig án þess að fiskarnir sjái mig.  Fljótt kemur kippur í tökuvarann, hann er á.  Númer eitt.  Svo kemur tvö.  Loks þrjú.  Sólin skín, endur á sundi, skjól undir hólnum.  Þetta er fullkomið.  Ég færi mig aðeins nær og kasta nú fyrir hornið upp í strenginn.  Sá fjórði tekur, og er glæsilegur fiskur eins og Laxá á þá besta.  Reynist rúm tvö kíló.  Þetta er falleg veiði og Hannes bróðir fagnar með mér þegar hann nálgast á hinum bakkanum, ég lyfti aflanum og sýni.  Seinna um kvöldið fer ég í Skurðinn og tek þrjá á straumfluguna, þeir koma í loftköstum, einn hreinsar sig upp úr strengnum þegar hann dembir sér á fluguna, engir risar, en baráttuglaðir.  Nú kemur þoka og kólnar.  Ég segi við Snæbjörn mág minn að nú sé lag að fara í Mjósund áður en við hættum, setja undir straumflugu, stóran Black Ghost og draga hratt inn á sökklínu.  Hann fer og tekur tvo í Hróinu á meðan, ég sný aftur 20 mínútum síðar með ágætan fisk, 2.25 kíló, 57 sm langan.  Góður veiðidagur (og veiðitúr) er á enda.

Höfundur Stefán J Hafstein
Birt í kjölfar opnunartúrs Mývatnssveitar 3 júní 2002  

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði