"Það var gaman að koma að Stóra-Fosspolli þann 14. júlí, þetta var seinni partur laugardags. Ég sá ekki ofan í hylinn en í næsta stað neðan við,Gljúfurhyl, taldi ég 7 laxa, enda gott að skyggna þann stað ofan af berginu sem áin rennur meðfram. Af þeim fannst mér 3 vera vænar tveggja ára hrygnur, ca. 12 punda fiskar. Ég hef ekki séð svona marga laxa í Gljúfurhyl í áraraðir... ef nokkurn tímann.
Þetta er neðst á svæði 4 í ánni og því má ætla að fiskar séu til dæmis í Halldórshyl á svæði 2 og Stórulaugahyl á svæði 3. Einnig mætti segja mér að fiskar væru á svæði 1; í Eyvindarlæknum neðan Vestmannsvatns og á Mayernum ofan við vatnið.
Stóri-Fosspollur og Gljúfurhylurinn eru næstum samliggjandi, eitt lítið brot á milli staðanna. Sonur minn, Atli Hafþórsson, fékk á sínum tíma maríulaxinn sinn í Gljúfurhylnum. Sjálfur fékk ég minn maríulax líka í Reykjadalsá, á svæði 3 á stað sem heitir Skemmupollur. Það eru því góðar minningar tengdar þessari á.
Ég kastaði flugu sem ég hannaði sjálfur í Stóra-Fosspollinn. Hún heitir Grani og var nr.8. Nafnið er tilkomið þannig að pabbi min Helgi Bjarnason, var oft kallaður Helgi Grani. Nafnið hafði loðað við hann frá bernsku þegar hann þóttist vera Grani í "bófaleikjum" þess tíma. Pabbi varð bráðkvaddur þann 28. júlí 1999 og í byrjun september sama ár hannaði ég túbu sem ég skýrði í höfuðið á honum. Ég fékk þrjár gullfallegar hrygnur á hana í Vatnsdalsá í september. Út frá túbunni hannaði ég síðan fluguna. Ég hafði ekki ennþá veitt lax á sjálfa fluguna (enda ekki mikið í laxveiðinni lengur) en hún hafði gefið þeim mun betur í silungnum. Ég man að ég er búinn að fá á hana fiska í Laxá í Mývatnssveit, Laxá í Laxárdal, Grenlæk og Fögruhlíðará. Hún virðist virka á allt; urriða, bleikju og lax. Það getur vel verið að ég sé búinn að fá á hana víðar, þó ég muni það ekki í svipinn.
En áfram með Stóra-Fosspoll. Eftir nokkrar mínútur negldi fallegur hængur Grana. Við áttumst við í góðan tíma og ég renndi honum í lokin upp á steinhellu, spjallaði aðeins við hann (um einkamál milli mín og hans) og setti hann svo út í ánna aftur. Fyrst var hann rólegur eins og hann vildi heyra mig spjalla um eitthvað fleira (sem sannar hvað ég er skemmtilegur maður), en skyndilega tók hann öflugt viðbragð og hvarf á augabragði.Kraftmikill fiskur og með fallegri eins árs hængum sem ég hef séð í Reykjadalsá. Hann var rétt um 70 cm. á lengd og málbandið mitt gefur upp með því ca. 3.6 kg. Þetta var sem sagt rúmlega 7 pd. hængur og eins og þeir gerast fallegastir á Laxársvæðinu; silfraður, nýgenginn og kraftmikill.
Ég kastaði áfram í nokkra stund í Stóra-Fosspoll og síðan reyndi í við fiskana í Gljúfurhyl. En þeir vildu ekki taka þó ég sýndi þeim nokkrar flugur. Tíminn var farinn frá mér, ég hafði komið seint til veiða af ýmsum ástæðum. Það hefði verið betra að koma fyrr og eyða löngum tíma með örsmáar flugur og flotlínu. Þannig vafalítið fá þá til að taka... einn og einn.
Ég hef oft átt skemmtilegar stundir í Reykjadalsá með örsmár túbur og flugur. Þessi stutta stund við Stóra-Fosspoll verður mér eftirminnileg; það var óvænt að fá þennan lax (og sjá um leið svona marga fiska í Gljúfurhyl).... og sérlega ánægjulegt að hann skyld taka Grana... í þessari á þar sem sonur og sonarsonur Grana höfðu báðir fengið sína Maríulaxa.
Meðfylgjandi er uppskriftin að Grana. Með bestu kveðju,
Bjarni Hafþór Helgason
GRANI
Broddur: Ávalt gull
Stél: Krystal flash: 3-4 þræðir af gulu og 3-4 þræðir af rauðu
Loðkragi: Peacock Herl
Vöf: Ávalt gull
Búkur: Rautt flos
Vængur: Hár úr dökkrauðu íkornaskotti
Skegg: Peacock Herl: 4-5 þræðir
Haus: Svartur
Á einkrækju fyrir silungsveiði bætast tvær rauðar fjaðrir sem festar eru við haus og ná aftur fyrir fluguna (með sama hætti og hvítu fjaðrirnar á Black Ghost).
Höfundur Bjarni Hafþór
Endurbirt