Lítið kver hefur að geyma örsögur um flugur. Kverið fæst í nokkrum veiðibúðum, gefið út til styrktar Altlandshafssjóðinum sem hefur það að markmiði að vernda laxinn. Forstöðumaður er Orri Vigfússon. Þetta er skemmtileg bók þar sem heimsfrægir og minna frægir veiðimenn segja frá uppáhaldsflugunni sinni með nokkrum vel völdum orðum.
Orri sendi út eyðublað til valinna veiðimanna um allan heim og bað þá að segja með örfáum orðum hver væri uppáhaldsflugan, og hvers vegna. Tvö svarbréfanna birtast í heild, og mynd af, enda frá "hátignum". Þar má sjá að Karl Bretaprins heldur mest upp á Hairy Mary. En amma hans, drottningarmóðirin, er ítarlegri í svörum: "Elísabet drottning hefur veitt í mörg ár, aðallega í ánni Dee. Reynsla hennar er sú að oft geti komið sér vel að skipta um flugu, eftir atvikum, árstíma, vatnsmagni og tærleika árinnar. Drottningarmóðirin heldur mest upp á þessar flugur þegar hún veiðir í Dee: Rækju, Blue Charm eða Green Charm, og Munro Killer. Og stundum veiðir hún á Ljónsflugu sem er sérstaklega hnýtt úr hárum Afríkuljónsins!"
Vinsælustu flugurnar
Nokkrir tugir veiðimanna til viðbótar við drottningarmóðurina lýsa uppáhaldsflugunni. En hver er vinsælust meðal þeirra vinsælustu? Ally's Schrimp. 12 tilnefna hana. En enginn Íslendingur. Sjálfur hef ég kastað henni en ekki fengið fisk. Það sama gildir ekki um fluguna sem næst kemur með 11 tilnefningar: Blue Charm. Meðal þeirra sem nefna hana eru Uffe-Elleman Jensen, Steingrímur Hermannsson og Matthías Johannessen. Næsta fluga á eftir er Willie Gunn með 10 tilnefningar. Enginn Íslendingur tilnefnir hana, allt Skotar, Írar og Englendingar. Stoat´s tail (og silver) fær 10 atkvæði, og ekkert íslenskt. Síðan kemur hin ágæta Green Highlander með 9 tilnefningar, og áberandi að Rússar, Finnar og Vesturálfumenn eru hallir undir hana. Þetta eru sem sagt þær vinsælustu, og einungis Blue Charm sem fær atkvæði hérlendra veiðimanna sem uppáhaldsflugan. En þar eru auðvitað engir aukvisar á ferð. Steingrímur segir svo frá: "Ég á svo margar uppáhaldsflugur - næstum eina fyrir hvert sumar þau 47 ár sem ég hef veitt lax. En Blue Charm gaf mér fyrsta flugulaxinn þegar ég var 12 ára og líklega fleiri laxa en nokkur önnur fluga".
Night Hawk
Orri Vigfússon og Jóhannes Nordal eru sammála um Night Hawk. Jóhannes segir: "Þetta er sígild
fluga, jafn áhrifamikil og hún er falleg, og ég hef náð 10 löxum á hana á einum degi án þess að skipta um flugu". Margrét Kristinsdóttir á Akureyri hefur góða ástæðu til að velja Crosfield: "Vegna þess að ég veiddi metlax, 22 pund á hana. Slík fegurð veitir ánægju að eilífu!"
Sá frægi Arthur Oglesby velur Munro Killer, sérstaklega til að byrja veiðar og til að leita að fiski. Þröstur Elliðason segir að fiskurinn taki Sunray Shadow með miklum látum.
Svona rekur sig hver örsagan á fætur annarrri og maður fær innsýn í þá gleði sem veiðiskapurinn færir mönnum. Sumir eru þó stuttorðir: "Hún virkar," segir Michael Bailey um Willie Gunn, og fær ekki önnur fluga styttri umsögn.
Íslendingarnir velja
Eini maðurinn sem velur rauða Frances er Íslendingur, Björn Ingi Sveinsson: "Hún gaf mér fyrsta flugulaxinn, 13 punda. Ég gleymi aldrei tökunni, svo mikilfengleg og harkaleg var hún". Kristján Guðmundsson velur Gústa guðsmann enda vann hann fyrstu verðlaunn fyrir hana í fluguhnýtingakeppni. Gunnar Sólnes velur Fox-fly og gefur henni þá einkunn að refsnafnið vísi til starfa hans sem lögmanns! Menn velja flugur af ýmsum ástæðum. Jens Pétur Clausen segir að Black Ghost sé flugan sín: "Árangursrík við margar aðstæður" og hefur meira verið logið um þá ágætu flugu. Forsætisráðherra, Davíð Oddsson, velur Black Sheep: "Fögur fluga og veiðir vel við flestar aðstæður. Eins og Marlodge, fjölhæf fluga".
Pétur Steingrímsson í Laxárnesi velur flugu sína: Bill Young, og að vonum. Hannaði hana sjálfur og með góðum árangri. Ólafur Vigfússon velur Leonardo, en svo kemst "íslensk" fluga á blað hjá erlendum veiðimanni: Michael Martinek yngri velur Stekk Bláan. Íslensk, ja, af því að hún er hnýtt fyrir íslenskar aðstæður og heitir íslensku nafni, en Martinek hnýtti hana sjálfur eftir leiðsögn Johns Bergers sem hannaði hana á einum af eftirlætisstöðum sínum - Stekknum. Martinek notar hana víða um heim með góðum árangri að eigin sögn.
Carter Bandaríkjaforseti
Fylgir hér frásögn Jimmys Carters Bandaríkjaforseta af því hvers vegna hann heldur svo mikið upp á Rusty Rat: "Ég hef aðeins tvisvar veitt Atlantshafslax, og veitt þrjá fiska: 29 pundara í Matapedia; og 27 og 23 pundara í Cascapedia. Tveir náðust á Rusty Rat." Sæmilegt meðaltal hjá hnetubóndanum!