2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
21.1.2020

Sá Stóri - úr safni Flugufrétta

 Sá stóri er lífseigur í bókmenntum og munnmælum veiðimanna. Furðulífseigur. Því ef grannt er rýnt í frásögur þar sem menn koma saman á síðkvöldum, eða gluggað í bækur þeirra sem skrá, virðist einatt koma í ljós að það er ekki sá stóri - og þá á ég við þann stærsta - sem veitir mestu gleðina, heldur einhver annar.

 

Gæðin
Hér er komið enn einu sinni að þeim gömlu sannindum fluguveiðinnar að ekki þurfa að fara saman magn í veiði og gæði. Gæðin eru fólgin í ánægju sem er margslungin. Jafnvel fiskur sem hvorki sést né tekur getur veitt mestu gleðina; fiskur sem mann grunar daglangt að elti flugunaog straumgáran sem rís frá honum úr djúpinu er eini vitnisburðurinn.Þá er hver taug þanin. Þetta vita margir fluguveiðimenn. Hvorki fjöldi fiska néstærð gerir útslagið.

Sagnameistarinn enginn veiðimaður?
Þótt veiðipistlar mínir hafi oft tekið á sig blæ sagnameistara Munchausensbaróns ætla ég ekki að ljúga upp á mig stórum fiskum né mörgum. Ég hef veitt sárafáa stóra fiska og ótrúlega sjaldan lent í góðri veiði. Mjög oft fengið smáa fiska og ákaflega oft ekki neitt. En vonandi efast enginn um að ég er ánægður með minn hlut.

Minn stærsti var 16 punda stórlax í Selá. Dagurinn var yndislegur, eiginkona og veiðifélagi búin að landa 12 punda fiski, klukkan var kortér í lok og ég var með einhenduna mína við hyl. Langt kast, svarta frances túban sökk vel niður - og stoppaði eins og einhver væri að athuga hana. Svo strekktist á línunni. Ég náði að feta mig á hálum botninum niður meðfram bakkanum til móts við laxinn, þar toguðumst við á í 20 mínútur, og það var ekki fyrr en hann var kominn upp á bakkann að við hrópuðum af undrun og gleði yfir sköpunarverki meistarans. Undurfögur var skepnan. Þetta var sá stærsti í pundum.

Stór í huganum
Sá stærsti í huganum er urriði. Dagurinn var yndislegur, ég búinn að landasilfurbjörtum fjögurra punda urriða, einum stærsta og fallegasta sem ég hafði þá veitt. Þetta var á stórfiskastað í Laxá í Mývatnssveit. Nú þreytti ég löng köst út og lét sökkva vel niður af hraunhrygg í ánni, ánægður með hlut minn og syngjandi sæll í sól og hita. Stóri fiskurinn á bakkanum veitti nægjuog hugurinn afslappaður, löng lína úti og flugan á hægu reki. En hvílíkthögg! Stöngin lamdist flöt í greip mér. Hjólið söng þegar línan þeyttist út, en að því hugði ég lítt því nú reis úr staumnum þessi feikna fiskur, allur upp úr, metra í lausu lofti. Þar stoppaði hann. Svo horfði ég agndofa á skepnuna lenda kylliflata með firna skvampi. Þessi slagur varð svo ævintýralegur að ég gleymi honum aldrei og ætla að spara frásögnina í fyrstu veiðibókina mína sem kemur út.

Bleikjan
Eða sá stóri sem ég fékk í Vatnsdalsá. Nei, ég er ekki að tala um 15 punda laxinn sem tók með bakföllum á einum frábærum stað á laxasvæðinu. Ég er að tala um bleikjuna sem ég tók niður í ósi. Veðrið var svo undarlega vont að það var eins og allir árar heljar hefðu ákveðið að halda ball á sandinum. Ég setti saman hröðustu stöngina mína, hún er fyrir línu átta. Á hana setti ég sökklínu, mesta sökkhraða sem ég átti. Og framan á þessa línu setti ég sterkan taum, ekki nema eitt fet. Ég viss að köstin yrðu erfið og lítið vit í að reyna að rétta úr löngum taumi í þessum mótvindi sem ég barðist gegn. Og svo kom stór appelsínugulur nobbler á endann. Öldurnar komu á móti mér. Ég óð út, eitt eða tvö skref, ekki lengra, til að fá ekki votan löðrung. Þrusaði línunni út, fjóra fimm metra, beint inn í öldufald. Línan náði ekki að sökkva neitt. Stöngin lagðist flöt í lófa mér og jafnvel þetta grenjandi rok megnaði ekki að feykja burt smellinum sem heyrðist þegar fiskurinn lamdi vatnið. Svo rauk hann út. Stökk. Rauk lengra burt. Stökk. Ég öskraði á eiginkonuna að koma með háf. "Þetta er lax!" Baráttan var feiknahörð. Ég gat loks þrælað bleikjunni gegnum öldurótið að landi og komið henni gegnum löðrið í flæðarmálinu. Í háfinn. Undrandi varð ég. Þessi "stóri" fiskur var ekki svo stór. Á voginni mældist hún 4 pund. Ég var alveg gáttaður. Ég hef tekið átta punda laxa sem voru smábörn í samanburði.

Þetta vita allir veiðimenn. Góðir veiðimenn. Sá stóri er spurning um hugarfar. Og gleði. Hún mælist létt í pundum.

Höfundur Stefán Jón Hafstein, upphaflega birt í apríl 2002


 

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði