Þetta var fallegur staður, ég dáðist að svörtum hamrinum yfir hylnum, áin féll í streng niður á breiðu, nú var sólin horfin efst en neðarlega var allt í gulli. Ég vissi hvaða fluga færi best við þessar aðstæður: Svört og gyllt. Svört fyrir klettinn, gyllt fyrir sólina. Frances. Í þriðja kasti var hrifsaði í. Og svo aftur. Ég glotti. Nú festist flugan og ég hreppti hana upp úr grjótinu með lagni og dró hratt inn, þá var fiskur á. Laxinn tók roku út, hristi sig hundslegur. Ég dró hann niður með bakkanum úr strengunum og þreytti hann á léttu stöngina og lagði hjá lambagrasinu. "Nú verður staflað" hugsaði ég hróðugur. Hrifs. Hrafs. Það var líf. Svo tók hann með skelli svo vatnsflöturinn rofnaði, en ekki meir. Þá hættu þeir. Þessi hérna fyrir neðan var sá eini sem fór í pottinn.
Næsti dagur
Renndi í Veiðivötn. Bryndís og Rúnar á vaktinni fimmtánda árið í röð. Alltaf jafn viðræðugóð, svona verður maður af því að vera í návígi við hinn mikla eilífa anda mánuðum saman ár hvert. Sól og hiti og hvasst. Ég fór í Ónýtavatn af því að Bryndís sagði að það hefði ekki verið að gefa. Ég er alltaf með metnað. Það gaf ekki. Fór í Skeifupyttluna og borðaði nesti á bakkanum og beið lengi eftir að fiskur sýndi sig. Horfði og hlustaði eins og Stefán Jón Hafstein segir að maður eigi að gera. Beið svo ekki lengur. Kastaði Dentist og fékk ekki neitt. Ók norður með vötnum. Litlisjór hefur gefið tonn af fiski. Ég fékk ekki högg. Fór í Hraunvötn því nú fann ég á mér að með kvöldinu lygndi. Kastaði þar sem ég fékk tökuna um árið, þegar fiskurinn tók nymfuna. Ekki núna. Veiddi vandlega með straumflugum, lét sökkva vel og prófaði mismunandi inndrátt. Setti púpur undir, smáflugur, allt. Notaði firnalangan taum og þyngdar púpur til að ná alveg niður. Ekkert. Fór í Litlasjó og í mannfjöldann meðfram bakkanum til að taka nú einn eða tvo fyrir háttinn. Það hlytu að vera fiskar þarna úr því að allt þetta fólk var að veiðum. Enginn fékk neitt. Fór í annað vatn til að loka kvöldinu og rakast á náunga sem voru með beitu, við spjölluðum í bróðerni og þeir fengu einn. Nóttin kom, en áður frétti ég að rétt eftir að ég fór úr Litlasjó hefði lygnt og vatnsborðið kraumað af fiski. Ekta fluguveður! Nokkrir voru að gera að fiski á planinu. Tunglið óð með Snjóöldufjallgarði.
Sunnudagur
Við vorum mættir nokkrir klukkan sjö niður við Fossvötn. Ég fór í strenginn milli vatnanna og kastaði lengi í útfallinu í litla vatnið. Svo lengst norður í Hraunvötn og fékk ekkert þar heldur. Samt stóð vindurinn bálhvass inn á víkina og ég kastaði með sökktaumi og þyngdum flugum inn með bakkanum. Lét reka inn með bakka svo fiskarnir sæu örugglega flugunar dingla við hraungrjótið á botninum. Lengdi tauminn og festi. Það var svo hvasst og svo hlýtt og sólin svo björt að maður vissi ekki hvort þetta var gott veður eða slæmt. Veiddi vandlega. Fór svo og kastaði í víkur sem öldurótið var að gera vitlausar, þar ætti fiskurinn að liggja í æti, en fékk ekkert. Fór annað og annað og enn annað. Rykið var að drepa mann og ég bruddi sand. Endaði í Ónýtavatni bara til að storka og fékk ekki neitt heldur. Rúnar og Bryndís segja að nú sé rétti tíminn fyrir fluguveiðimenn að koma uppeftir og spreyta sig á vænum urriðum. Ég hugsaði um þessa stóru sem ég tók um árið, háttaði mig í fjörunni og fór í ökumannsklæðin til að keyra heim grútsyfjaður í hitanum. Sofnaði snemma svo kötturinn átti ekki orð.
Mánudagur
Klukkan sex. Vaknaður. Kötturinn átti ekki orð. Drakk kaffi og keyrði austur þar sem sæmdar- og heiðurshjón á Suðurlandi höfðu boðið mér að koma í sjóbirting, besti tíminn. Sól og hiti og dásamlegt að vera niður í fjöru þar sem geldálftin fer í hópum, krían er að gera allt vitlaust, stelkurinn með látum og einhverjir sendlingar eru alltaf að rjúka upp í stressi ef maður lítur til þeirra. Áin rennur á að vera full af boltabitingi. En hann er ekki kominn. Félaginn setur í tvo af smærri gerðinni og missir. Ég fæ högg, högg, högg, en enginn tekur almennilega og ég veit ekki hvort þetta eru tittir eða latir risar. Svona lemjum við allan daginn. Einn risi hefur sýnt sig skammt frá hinu landinu. Ég nota straumflugur: Flæðarmús, svartan nobbler, appelsínugulan, Black Ghost, Dentist, svarta marabúaflugu, smækka niður í zulu og bláa zulu, Kardinal númer 12, það er ekki á mann logið: Eljan er gengdarlaus. Risinnn stekkur og félaginn tekur loks fram spón og kastar í hausinnn á honum. Samt tekur hann ekki. Ég ákveð að prófa eitthvað sniðugt. Tek svarta stóra straumflugu og hengi rauða rækju aftan í hana. Dreg hægt. Nú byrjar: Högg, högg, högg. Enginn festir sig. Við sjáum ekki fleiri fiska. Pökkum saman. Sæmdar- og heiðurshjónin bjóða í mat, við ræðum við sjóara og heimafólk stutta stund og svo rennur maður inn í sólarlagið heim og er sofnaður áður en sólbrúnkan er alveg orðin svört eins og þreytan sem ber mig inn í svefninn. Það er gaman að vera veiðimaður.
Birtist upphaflega í apríl 2002