2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
9.2.2020

Sumarsagan 2004 - úr safni Flugufrétta

 Stóra Laxá á sér marga aðdáendur og það ekki að ástæðulausu. Áin fellur um mikilfengleg gljúfur og er heimili svakalega fallegs laxastofns. 
Áin er í höndum Lax-á sem hefur hlúað að og nostrað við hana síðastliðin ár. Við endurbirtum hér veiðisögu frá Stefáni Jóni Hafstein frá því í apríl 2004. 

 Það var í einni af mínum fyrstu ,,laxveiðiferðum".  Við félagarnir, Smári og ég, vorum í Stóru Laxá í Hreppum.  Þarna stóðum við tvö krækiber í helvíti í einhverju ógnarlegu gljúfri og köstuðum á manndrápshylji.   Við fréttum síðar að eiginlega væri bara veitt á einum stað þarna, nánast óaðgengilegum fyrir ókunnuga enda langliðið á daginn þegar við sáum hann. 

Við tókum okkur stöðu á syllu sem notuð er til veiða við þennan ógnarlega hyl, maður hangir utan í bergi með annari hendi, stendur á einni löpp og slæmir út einhverju agni.  Það var þetta sem Smári gerði, silfraður spónn flaug út. Ég sat á bergsnös og horfði á silfrið koma inn a lygnuna.  Þá fraus blóð í æðum.  Laxveiðitúrinn breyttist í LAXVEIÐITÚR þegar úr djúpinu skaust fagurblár skuggi, það glampaði á kvið og ég sá hann læsa skoltum um krókana.  Hann var á!  Það var Smári sem hélt ró sinni.  Laxinn líka. 
En undirritaður þeyttist niður einstigið og brölti fram klöppina með útrétta
hönd, og háf.  Hann var á!  

Laxinn kom á hægri siglingu upp að klöppinni, sigldi rólega framhjá mér í átt að Smára, svifaði aðeins frá, og svo beint til mín.  Ég slæmdi háfnum út, silungaháfnum sem við höfðum komið með í Stóru-Laxártröllin.  Jafnvægiskúnstin á syllunni, háfurinn litli, fiskurinn óþreyttur, þetta gat ekki endað nema á einn veg: laxinn lenti þvert á háfnum, sló sporði og spónninn þeyttist upp í klettavegginn.  Farvel frans.

Það er þungbært að tapa laxi, en að tapa laxi félagans er verra; Smári var ekki með neinar ásakanir og við vissum svo sem báðir að þetta skrifaðist á reynsluleysi okkar beggja.  En það var ekki dæmið þegar ég fór nokkrum árum seinna með Smára í Rangárnar.  Þetta var eiginlega fyrstu alvöru laxveiðitúrinn okkar saman síðan um árið.  Og Smári setur í fisk.  Og hvað hangir á bakinu áhonum?  Háfur.  Og hver er svo vitlaus að taka hann til að hjápa við löndun?  Ég.  Og hvað gerist?  Ég segi Smára að þreyta fiskinn, og þoka honum nær og við skulum taka þetta - ekki eins og þarna um árið - en það er einmitt það sem gerist.  Einhvern veginn fer fiskurinn framhjá háfnum - og línan? Í handfangið og flugan spítist upp í loftið eins og spónninn forðum.

Ég sagði við Smára að ég myndi ekki hjálpa honum við að landa fiski oftar. Nema hann bæði mig um það.  Það hefur hann ekki gert.

Það var ekki löngu eftir Stóru-Laxárhneykslið að ég var með gamalreyndum silungsveiðifélaga við eina af stórlaxveiðiám landsins.  Þetta var fyrsti ,,flotti" laxveiðitúrinn á ævinni; við áttum samtals 10 laxaflugur. Og einn háf. Undurfögur á, blíða allan tímann, frábærir félagar, fullt af fiski, og við veiddum vel!  

Ég byrjaði á því að reyna að troða 13 punda laxi í háf.  Þetta var fyrsti fiskurinn í ferðinni,
sérlega óvænt ánægja, tók fluguna mína frábærlega vel, og ég þreytti hann skynsamlega,
þar til kom að því við reyndum að skófla honum upp í háfinn.  Hann slapp tvisvar út með
skvettum brambolti og látum.  Í þriðja skipti fór hann í háfinn, sem brotnaði, og laxinn
þaut út.  Í fjórðu atrennu hafði ég það val að reyna að sporðtaka hann, sem ég vissi 
ekki almennilega hvað var, eða stranda honum og moka svo á þurrt land. Sem ég gerði.

Síðar var mér gefinn ,,tailer", sem er snara fram úr skafti og maður á að bregða utan um sporðstæðið á laxinum.

Ekki grunaði mig að frægðarsól mín ætti eftir að ljóma með slíka snöru í hendi.  En það gerðist mörgum árum eftir þetta  í Laxá í Aðaldal, ég búinn að fá snöru í afmælisgjöf, kominn á veiðar og ekki minni kóni en sjálfur Bjarni Hafþór frá Akureyri, veiðifélagi, að setja í lax í Fosshyl og búinn að leiða hann niður fyrir klett! 

Og ég?  Ég kominn út í á með snöruna. Taugaóstyrkur því fyrir hugskotssjónum fóru nú ævinýrin þegar Smári hætti að biðja mig að hjálpa sér að landa.  En Bjarni Hafþór hafði ekki haft tal af Smára.  Og sagði mér að vera bara snöggur að bregða snörunni þegar ég næði henni undir laxinn.  Jæja.  Það var sól í heiði.  Ég úti í á.  Bjarni á bakkanum.  Og laxinn á milli okkar.  Hann færðist nær, og nær, og enn nær.  Svifaði að og frá.  Ég rýndi í strauminn.  Og sá laxana hans Smára, og laxinn hans Bjarna á víxl.  Og snöruna mína, og hann svifaði að, og svifaði frá, og svo...!

Úps.  Ég veit ekki alveg hvernig það gerðist.  Ég hef grun um að þetta hafi verið eins og í leiknum gegn Val hérna um árið þegar þeir voru að  bursta okkur Ármenningana og Jón Ástvalds komst í dauðafæri, lokaði augunum og þrumaði í hausinn á Óla Ben.  Þegar ég opnaði augun var staðan þessi: Laxinn var fyrir aftan mig. Línan lá í gegnum klofið á mér.  Fyrir framan mig var haugur af sökkum og utan um þær vírinn af snörunni minni, en um
handfangið á henni hélt ég.  Í baksýn, aðeins út úr fókus, stóð Bjarni Hafþór.  Og svipurinn á honum.  Ég þurfti engan fókus.

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði