Í vetur munum við rýna í gamlar, skemmtilegar veiðisögur og fréttir sem verða endurbirtar hérna. Þetta er viðleitni hjá Flugur.is til þess að stytta biðina eftir næsta sumri. Nú fer daginn fljótlega að lengja aftur og vetrarsólstöður handan við hornið ásamt jólunum. Það er því nóg að gera hjá flestum þessa stundina en í janúar og febrúar sérstaklega þá er oft þungt yfir veiðimönnum eins og öðrum Íslendingum. Vonandi munu lesendur hafa gaman af því að láta veiðisögurnar færa sig nær eftirlætisstaðnum í uppáhaldsveiðiá sinni, það er gott að láta hugann reika og dagdreyma. Hann Guðmundur Smári Gunnarsson tekur af skarið.
Hver er maðurinn?
.jpg)
Guðmundur Smári Gunnarsson, líffræðingur, framhaldsskólakennari og leiðsögumaður í stangveiði.
Hver er fyrsta minning þín af veiði?
Murtuveiðar í Þingvallavatni með afa heitnum, það var oft mok á maðkinn.
Hvers vegna fluguveiðin?
Fluguveiðin er einfaldlega skemmtilegasta stangveiðin að mínu mati, hún sameinar sportið og veiðina á einhvern fullkominn hátt.
Eftirlætis flugan?
Lítill flotmaur sem ég hnýti töluvert af í ýmsum litum og afbrigðum.
Eftirminnilegasti fiskur sumarsins?
68 cm urriði í Strákál í Laxárdal sem ég veiddi á bambusstöng, á maurinn.
Innskot: myndin efst sýnir Gumma með meters fisk úr Reykjadalsá sem hann minnist hvergi á. Það sýnir vel hversu hugfanginn hann er að þurrflugufiskeríi á urriða.
Eftirlætis áin?
Laxá í Laxárdal
Hvaða fiskitegund finnst þér skemmtilegast að veiða?
Urriðinn er langskemmtilegastur, ég veiddi oftar lax áður fyrr en eftir að hafa kynnst þurrfluguveiðum á urriða hefur allt breyst. Ég held ég myndi alltaf velja urriðann fram yfir laxinn.
Draumaveiðistaðurinn þinn, hvaða staður er efstur á óskalistanum?
Á Íslandi eru þeir flestir í Laxárdalnum, stórir staðir sem maður getur leikandi veitt heila vakt. Stóru flóarnir þar sem stóru urriðarnir eru að vaka og maður ræður ekki neitt við neitt ef þeim dettur í hug að rjúka í burtu (þ.e. ef þeir velja þurrfluguna manns úr öllu úrvalinu sem þeir hafa). Efst á óskalistanum eru sjófluguveiðar á tarpon og bonefish, það kemur kannski að því einhvern tíma.
.jpg)