Jón Ingi er nýkominn úr urriðaparadís á Kolaskaga í Rússlandi vestanverðu oger á leið til Kamtsjanka Kyrrahafsmeginn í sama landi til að elta regnabogasilung. Það er meðalfsikurinn í aflanum kringum 14 pund.
Hann hefur lært af löngum veiðiferli og kynnum við bestu veiðimenn heims að "veiða og sleppa" er leiðin til að endurreisa veiðistofna. Hann er gagnrýninn á ástandið hér á landi og telur að eina leiðin til að veiðimenn geti almennt notið fluguveiði íþróttarinnar sé að gæta ítrasta hófs.
Meira fjör fyrir fleiri
"Íslendingar koma að tómum ám á vorin og veiða leifarnar á haustin" segir hann. "Vorlaxinn er nánast horfinn vegna þess að þeir laxar sem hafa þann arfbera í hausnum að ganga snemma hafa verið veiddir óhóflega. Síðsumars hafa árnar verið nánast tæmdar þegar verst lætur."
Jón Ingi telur að nægilegt sé að leyfa mönnum að hirða "bakkafisk" eins og hann kallar það, einn og einn smálax til að hafa með sér og snæða í húsi, eða taka með sér á síðasta degi heim. Í Rússlandi og Suður-Ameríku þar sem hann þekkir vel til er þessi háttur hafður á í bestu ánum. "Það á alls ekki að drepa stóra laxinn og hafa strangan kvóta á öllum veiðum".
Hvað þýðir það?
Það er áhugavert að heyra álit Jóns Inga á því hvað menn fá í staðinn fyrir að sleppa fiskinum. Í fyrsta lagi fá miklu fleiri veiðimenn meiri ánægju. Þeir sem nú þegar sitja af bestu ánum á besta tíma eru ekki að tapa neinu, síður en svo. "Er ekki betra að endurreisa stórfiskastofninn og vera stöðugt í fiski meðan maður veiðir?" spyr Jón Ingi, "fremur en eyða tímanum í að leita uppi ört fækkandi fiska til að drepa þá?"
Fyrirmyndir
Jón Ingi segist hafa séð ár erlendis þar sem "veiða og sleppa" aðferðinni hafi verið beitt með undraverðum árangri. Hann nefnir Rio Grande ána sem dæmi, þar sem heimamenn voru mjög á móti svona "snobbi", en eru nú bestu varðmenn árinnar vegna þess hve veiði hefur batnað! Munurinn er sá að nú er veiddum fiski sleppt, og nóg að veiða,en áður var hann drepinn og mun minna fjör.
Séríslenskar aðstæður?
"Við erum engir villtir frumbyggjar" segir Jón og vill ekki vísa til þeirrar hefðar að drepa allan fisk; "við erum nútímamenn og eigum að temja okkur nútímalegt viðhorf til veiða."
Veiðiskapurinn snýst um íþrótt, en ekki baráttu um mat. "Strangur kvóti, einn á dag hið mesta" segir Jón Ingi, "og svo á að banna að selja veiðibráð, fugla eða fisk". Dæmi um slíkar aðgerðir eru svo mörg erlendis og árangurinn svo góður að ástæða sé til að staldra nú hressilega við. Í Bandaríkjunum er til dæmis bannað að selja villibráð. Veiðimaðurinn tekur því aðeins til eigin neyslu.
"Við skulum gæta að því að íslenskar ár eru almennt mjög auðveiddar, vatnið tært og þær litlar. Heildar laxagöngur á Íslandi eru líklega minni en í eina stórá á Rússlandi!" Þetta segir Jón Ingi skýra vísbendingu um að hér beri að fara varlega. Benda má á að talið er að í sumum ám hér á landi séu 80% stofnsins veidd hvert sumar.
Öfga maður?
Er Jón Ingi á móti því að veiða sér í soðið jafnvel þótt nógur fiskur sé vissulega fyrir hendi? Nei. Hann tekur dæmi af Þingvallavatni og Elliðavatni sem séu auðug vötn í góðu jafnvægi. Því sé enn furðulegra að þeir sem vilja eiga grafinn og reyktan fisk í frystikistunni skuli fara í viðkvæmar urriðaár til að afla fanga. Hann vill breytilega verndarstefnu eftir ástandi á hverjum stað. Jón Ingi er sannfærður um að allir muni bera mun meiri ánægju úr býtum: fleiri fiska, lengri og sveigjanlegri veiðitíma, stærri fiska. Með því eina skilyrði að drepa þá ekki miskunnarlaust!
-sjh
Frásögnin birtist fyrst í Flugufréttum 29. september árið 2000.