Samkvæmt skýrslu frá Tungufljóti haustið 2000 var flugan "Rubber legs" fjórða aflahæsta fluganí ár með 12 sjóbirtinga. Ekki er líklegt að mjög margir veiðimenn kannist við gripinn en Flugufréttir telja sig hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að flugan hér á myndinni hafi staðið fyrir sviplegu fráfalli nokkurra sjóbirtinga á liðinni vertíð:
SJH rakst á hana í Veiðibúðinni í Bæjarhrauni og festi sér strax tvö eintök, sem að vísu eiga enn eftir að taka fisk. Eigi að síður telur hann sig hafa heimildir fyrir því að einmitt þessi hafi tekið góða fiska í haust. Jón Ingi Ágústsson segir að flugur með gúmmíteygjum séu mjög vinsælar erlendis og kynnti aðra mjög áhugaverða útgáfu. Tarantúlan sést hér:

Eins og sjá má er hausinn "muddler" gerðar og flugan hentug til að láta ferðast með frussi um yfirborð. Jón Ingi segir að snjallt geti verið að hafa litla púpu dinglandi aftan í þessari þar sem hún fari um vatnsborðið, fiskurinn taki eftir einhverju óvenjulegu, en í staðþess að negla Tarantúluna taki hann púpuna sem fylgi í kjölfarið. Bragð sem vert er að prófa? (Einfalt: hnýtið girni með venjulegum fluguhnúti í öngulbeygjuna og hafið ca. metra í púpuna fyrir aftan,gjarnan kúluhaus).

Þessi fluga sem er einskonar "GúmmíPeacock" hefur nú þegar sannað sig rækilega norðan heiða. Ungur Skagfirðingur gerði þessa og létu urriðar glepjast unnvörpum í sumar leið. Öngullinn er straumfluguöngull númersex, búkurinn réttur og sléttur Peacock, hausinn rauður eins og venjulega, en fjórir gúmmíangar skjóta sér út úr búknum og eru mjög lifandi í vatni þegar flugan er dregin inn.
Hver er galdurinn?
Hvers vegna vilja margir veiðimenn hafa þessar flugur í fórum sínum? Gúmmí "lappirnar" sveiflast í vatninu og gefa flugunni sérlega mikið líf. Þá telja margir að þær gefi frá sér álíka bylgjur í vatninu og þegar freyðir af "muddler" haus. Hver sem galdurinn er má ljóst vera að þessar flugur eru í mikilli sókn erlendis, og nú loks komnar í all almenna notkun hér heima. Margir veiðimenn telja að svona fluga þurfi að vera í boxinu með öðru. Hnýtingin er næsta auðveld: áður en búkurinn er vafinn (hvernig svo sem hann er) festir maður teygjurnar við öngullegginn með einföldum hnút og vefur svo varlega í kring svo vel fari. Margir kjósa að láta teygjuna vísa fram í en ekki aftur með búknum,þannig komi ennþá meira líf í hana. Venja er að hafa fjóra svona dinglandi anga út úr flugu afstærð 4-6.
Frétt birtist upphaflega í september árið 2000