2025 - 2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
10.12.2019

Urriðinn fyrir norðan - úr safni Flugufrétta

 

Laxá í Mývatnssveit: Fallegur urriði sem féll fyrir Silfur perlunni í Hesthúsflóa á sunnudaginn var. Þeir voru að súpa flugur í yfirborðinu en það var nærri ókleift að ná til þeirra. Þessi reyndist vera 57 sm.

 

Urriðinn fyrir norðan:

Þurfti að dekstra hann


Það birti yfir í þó skjannabjartri tilveru þegar mér bauðst með stuttum fyrirvara að taka þrjár vaktir í Laxá í Mývatnssveit um síðustu helgi. Ein stöng hafði losnað og ég skyldi bara hraða mér austur. Það þurfti ekki að bjóða mér það tvisvar. Hvernig hefur gengið? spurði ég og svarið var eitthvað í þá veru að menn hefðu verið mishittnir á fisk. Ég hugsaði með mér að líklega vildu Hólmfríður og Hörður ekki vekja mér of miklar vonir.

 

 

 Fyrsta vaktin var á Brettingsstöðum og félagi minn hafði ráðlagt mér að fara beint niður í Hólkotsflóa, beita þar straumflugu á sökklínu, kasta þvert á strauminn, láta hana sökkva en draga síðan hratt í land. Heitasti tökustaðurinn væri þar sem hraunkamburinn byrjaði og það þyrfti löng köst! Best væri ef ég gæti orðið mér úti um Golden Ghost sem Stefán Hjaltested hefði hnýtt því það væri undrafluga.

Greinagóðar lýsingar fylgdu um hvernig Hólkotsflói skyldi veiddur. Þarna hlytu þó ævintýrin að gerast.

Stefán hafði sent mér fluguna með Flugfélagi Íslands en allt kom fyrir ekki. Sannaðist nú hið fornkveðna að yfirleitt er best að treysta eigin hyggjuviti í veiði. Flugufréttamaður barði Hólkotsflóann sundur og saman með Golden Ghost, reyndi af öllum mætti að átta sig á því hvar þessi blessaði hraunkambur byrjaði og hvar hann endaði í öllu þessu endalausa hrauni við bakkann, og fékk ekki högg!

Tók með kviðugganum

Hálfri vaktinni var eytt í Hólkotsflóann og þegar klukkan var farin að ganga átta um kvöldið, ákvað ég að taka eitt kast enn. Og eins og svo oft áður þá skipti þetta eina kast sköpum. Það var tekið með miklu offorsi. Fiskurinn sigldi djúpt ofan í flóann og lét ekki sjá sig. Ég hugsaði með mér að loksins hefði ég krækt í þann stóra í Laxá, þessi hlyti að vera 7-8 pund. En þegar mér tókst loks að þoka fiskinum nær, kom í ljós hvers kyns var - hann hafði tekið með hliðinni! Golden Ghost var tryggilega næld í hann rétt aftan við kviðugga og þess vegna var átakið svona þungt og einkennilegt. Eflaust hefur fiskurinn verið að eltast við fluguna þegar hann hefur orðið fyrir þessu óláni, blessaður, og þar sem hann var þó þokkalegur, eða 48 sm, þá ákvað ég að hafa hann með mér heim.

Urriðahængurinn úr Hólkotsflóa sem ákvað að taka Golden Ghost með kviðnum - gott ef sárið sést ekki rétt ofan og aftan við kviðuggann.

Vörðuflói og Dowdingssteinar

Ég fann á mér að hann hlyti að vera uppi við í Vörðuflóanum og arkaði nú niður slakkann þar sem áin breiðir úr sér á þessum undrastað. En nei, flóinn var dauður og ekkert upp úr honum að hafa. Aðeins ofar, gegnt Þúfunni, eru hinir svokölluðu Dowdingssteinar og nú ákvað ég að láta straumflugurnar lönd og leið, setja undir aðra af mínum eftirlætisflugum í Laxá, Silfur perluna (hin er Pheasant Tail). Og það var ekki að sökum að spyrja. Eftir fáein köst er rykkt í línuna, ég illa vakandi, en það gerði ekkert til því það var rykkt aftur og aftur þar til ég hafði vit á að bregða við. Þesssi fiskur var feigur og hann reyndist vera 54 sm, feit og falleg hrygna.

Dýrðardagur við Hesthúsflóa

Morguninn eftir átti ég Hamarsland og ákvað að líta ekki einu sinni við Hólkotsflóa, nógu miklum tíma hafði hann stolið frá mér daginn áður og í sannleika sagt hef ég aldrei náð neinu sambandi við þann veiðistað. Ég hugsaði með mér að gaman gæti verið að rölta niður í Hesthúsflóa, Strákaflóa og enda jafnvel niður undir Hrafnstaðaey.

En ég fór aldrei lengra en að Hesthúsflóa. Þar blasti við mér sjón sem maður sér stundum á góðum degi í Laxá: Úti á hraunhryggnum í miðri ánni skáru risastórir uggar vatnsborðið hvað eftir annað. Þeir voru fjölmargir saman á um 20 metra kafla neðarlega í flóanum og virtust vænir mjög. Mér varð ekki haggað frá staðnum!

Hinum megin við ána var veiðimaður sem hafði sennilega einnig séð þessa dýrðlegu sjón og reyndi að þenja köstin sem mest hann mátti.

Vindáttin var óhagstæð, strekkingur að norðan. Ég varð að snúa óæðri endanum í ána, þenja köstin upp í lyngbrekkuna og láta fluguna detta niður í bakkastinu, beitti Silfur perlunni með tökuvara. Ég vissi að ef ég næði einu góðu kasti sem næði upp á hraunhrygginn þá fengi ég töku. Og það gekk eftir. Fyrsta almennilega kastið bar fluguna vel inn á hrygginn og hann var á! Fiskurinn tók nettan dans á yfirborðinu, streittist á móti en að lokum hafði ég betur. Hann var 57 sm og virkilega fallegur. Fáeinum góðum köstum í viðbót náði ég út á hrygginn og þá var fiktað við púpuna en síðan datt allt í dúnalogn og urriðarnir hættu að sýna sig í yfirborðinu. Þá var vaktin að verða liðin og ég rölti aftur heim á leið. Gott eiga þeir sem lenda þarna í austanátt við réttar aðstæður þegar silungurinn ristir vatnsfilmuna með sporðum og uggum.

Lambeyjarstrengur hinum megin frá

Síðasta vaktin var í Hofstaðalandi og ég hafði frétt af mjög góðri veiði í Lambeyjarstrengnum veiddum úr Steinbogaey. Því var bílnum lagt í túninu á Hofstöðum og arkað upp í horn. Eftir skamma stund tók 58 sm urriði Silfur perluna þónokkuð langt úti í strengnum við Langhólma. Hann ætlaði niður úr öllu, ég tók fast á móti, og loks hafðist hann á land. Fleiri urðu þeir ekki þann daginn.

Flugufréttamaður rígmontinn með 58 sm urriða úr Lambeyjarstrengnum - óþarfi að halda honum svona upp í myndavélina, hann verður ekkert stærri!

 Vaktirnar þrjár við Laxá voru frábærar þótt aflinn væri e.t.v. ekkert til að hrópa húrra fyrir, og þó. Fiskarnir voru allir pattaralegir og það virtist vera nóg af vænum fiskum á ferli á öllum svæðum. En þeir létu hafa mikið fyrir sér, það þurfti að dekstra þá til að taka, en dvölin við ána var hverrar mínútu virði.

Á fáum veiðistöðum skiptir magnið jafnlitlu máli, því hér eru gæðin eins og best verður á kosið.

- rhr


Hér er endurbirt frábær frásögn Ragnars Hólm frá svipuðum slóðum og síðasta færsla. Upphaflega dagsett í júlí 2007.

23.12.2019

Skötudagur

22.11.2019

Aftur í silunginn?

5.4.2019

Snjóbirtingar

10.2.2019

Bónaðu línuna!

23.11.2018

Aftur í silunginn?