2025 - 2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
13.2.2019

Þetta er allt að koma

 
Flugufréttir eru spenntar í bið eftir veiðinni í ár. það eru rétt tæpir tveir mánuðir í að veiðitímabilið hefjist.
 
Við ákváðum að kíkja í eigin sarp eftir heilræðum frá einhverjum mestu sjóbirtingsgúrúm landsins, Sigurði Pálssyni og Pálma Gunnarssyni.
 
 
 

 Sigurður Pálsson, sjóbirtingssérfræðingur, segir að hann myndi byrja með sökklínu og stórar straumflugur ef hann yrði veiðar í kulda. ,,Þeir sem vilja veiða á kúluhausa eða sérstaklega þyngdar flugur geta gert það og verið ágætlega öruggir með árangur en mér þykir hins vegar frekar leiðinlegt að skrapa botninn með flugunni. Ég vil að flugan sé frjálsleg í vatninu og fiskurinn vill það oft líka," segir Sigurður.

 
Sigurður Pálsson.
 
,,Fyrir mörgum árum, meðan ég enn veiddi á maðk, lærði ég að því minna sem ég hreyfði hann í vatninu, þeim mun meiri var veiðivonin. Þetta kenndi mér að draga fluguna hægt þegar ég er á sjóbirtingsveiðum, því það er eins og sjóbirtingurinn sé ekki mikið fyrir asa og læti. En það allra skemmtilegasta við sjóbirtingsveiðarnar er að eina stundina fellur hann fyrir straumflugum en smáflugum aðra og stundum er hann eins og köttur Bakkabræðra sem étur allt."
 
,,Sjóbirtingsveiðimenn ættu að vera nokkuð öruggir ef þeir eru með sökklínu og straumflugur, en ættu að vera opnir fyrir því að reyna smáflugur, gárutúbur og jafnvel þurrflugur þótt kalt sé í veðri. Ég hef til að mynda oft upplifað að sjóbirtingur stökkvi á þurrflugu í töluverðum kulda og í skoluðu vatni, en ég viðurkenni að veiðimenn þurfa að vera dálítið klikkaðir til að prófa þurrflugu við þær aðstæður, en það getur oft borgað sig."
 
,,Sjóbirtingurinn er einfaldlega flottasti fiskur í heimi og ægilegt ólíkindatól," segir Pálmi Gunnarsson og bætir við að stundum æði hann á allt sem að honum er boðið en aðra stundina sé liggi hann við botninn og glotti djöfullega við því sem að honum sé rétt."
 
Pálmi með sjóbirting úr Litlá. 
 
"Það er klassísk veiðiaðferð að nota sökklínu og stóra þungar straumflugur til að ná til sjóbirtingsins þegar hann liggur í hyljunum, en menn skyldu aldrei vanmeta aðrar veiðiaðferðir. Oft gerist það að birtingurinn rjúki upp eftir smáflugu, jafnvel þótt búið sé að lemja hylinn tímunum saman með þungum og stórum flugum. Það er ekki rétt að menn þurfi að ,,strippa" hratt, til að fá birtinginn til að taka. 
 
Ég hef stundum sagt að athyglin veiði best og ef menn taka eftir því hvernig fiskurinn hagar sér í náttúrunni og líka eftir því, verður árangurinn oft góður. Ég hef til að mynda tekið eftir því að sjóbirtingurinn syndir oft í rólegheitum eftir hornsílum og annarri bráð og geri síðan leiftursnögga árás. Mér hefur því reynst vel að draga fluguna hægt og birtingurinn hefur meira að segja átt það til að taka fluguna, jafnvel straumflugu þótt hún liggi algerlega hreyfingarlaus í vatninu, rétt eins og hann á það til að ráðast á hreyfingarlaus hornsíli.
 
Það skiptur því mestu máli að festast ekki í því fari að nota eingöngu sökklínu og stórar straumflugur. Það getur til að mynda verið árangursríkt að nota þurrflugur og gárutúpur, eins og ég komst að fyrir hreina tilviljun. Þá var ég að kasta Gray Ghost straumflug fyrir sjóbirting og fyrir einhvern klaufaskap myndaðist lykkja utan um fluguna þannig að hún varð að stórri gáruflugu. Birtingurinn sem legi vel hafði ekki litið við því sem höfðum prófað stóðst ekki mátið og rauk á fluguna. Síðan þá hef ég oft notað gárubragðið við sjóbirtingsveiðar með góðum árangri."
 
Pálmi segir að litlar flugur séu oftar en ekki gjöfulli en stóru straumflugurnar, þegar sjóbirtingurinn er annars vegar. ,,Það fékk ég að reyna fyrir nokkrum árum þegar ég var við sjóbirtingsveiðar með amerískum vini mínum. Við sáum sjóbirting sem var í bullandi æti og köstuðum á hann daglangt án árangurs þar til við buðum honum dökkar flugur í stærð 24! ...og þá byrjaði ballið."
 
 
 
-þgg
23.12.2019

Skötudagur

22.11.2019

Aftur í silunginn?

5.4.2019

Snjóbirtingar

10.2.2019

Bónaðu línuna!

23.11.2018

Aftur í silunginn?