2025 - 2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
12.2.2019

Demantur á heimsenda

 
Lónsá á Langanesi er ekki mikið í fréttum en Valdimar Heiðar Valsson þóttist hafa himin höndum tekið þegar hann kynntist ánni fyrir tveimur árum. Áin er fjölbreytt, umhverfið magnað og þarna líður Valda eins og hann sé að veiða á heimsenda, einn úti í buskanum.
 
Valdimar Heiðar með fallegan sjóbirting úr Lónsá. Sjá viðtal að neðan.
 

 

 "Áin er æðisleg, óslípaður demantur "in the middle of nowhere," segir Valdimar dreyminn á svipinn. "Mér er minnisstætt þegar ég var að veiða í Lónsá snemma í júní fyrra sumarið mitt þarna. Litlu lömbin voru komin út í hagann með ánum og yfir hringsóluðu tveir fálkar sem dýfðu sér lon og don yfir lömbin í von um að hrekja þau frá fullorðna fénu. Ég sat á bakkanum í sólarblíðu og fylgdist með baráttunni um líf og dauða. Ógleymanleg stund sem gaf einhvern veginn tóninn fyrir Lónsá á Langanesi."

 
"Áin er mjög fjölbreytt. Þarna skiptast á hægir djúpir hyljir og hraðar flúðir. Það er ekki margar ár sem bjóða manni að veiða á einum og sama deginum lax, sjóbleikju, staðbundinn urriða og sjóbirting. Í því lenti veiðimaður sem ég var með þarna síðasta sumar. Hann var dolfallinn og sagðist aldrei hafa átt von á að ná slíkum afla á einum degi. En þetta gerir það líka að verkum að veiðitímabilið í Lónsá er langt eða frá 1. maí og til 20. október. Góð sjóbirtingsveiði er á vorin og haustin og um mitt sumarið getur þú átt von á öllum tegundum."
 
"Á ósasvæðinu er oft mikið af bleikju og sjóbirtingi. Þar getur maður lent í algjöru ævintýri ef maður hittir á góðar göngur. Það fékk einn félagi minn að upplifa fyrir tveimur sumrum þegar hann landaði meðal annars 70 sm bleikju alveg niður við sjó. Brúarhylurinn geymir oft lax þegar líður á sumarið og það er einn besti staðurinn á ósasvæðinu. Menn ættu ekki að gera þau mistök að kíkja ofan í hylinn af brúnni, það styggir þótt vissulega sé gaman að sjá þar stundum sporð við sporð.
 
Stóra bleikjan sem fékkst niður við sjó.
 
Fyrir ofan ósasvæðið er stórt lón og fyrir ofan það rennur áin mjög hægt í gegnum land Ytra-Lóns. Strax fyrir ofan lónið er góður veiðistaður við Sauðaneseyju. Það er djúpur hylur sem hefur að geyma stóra fiska. Í raun eru þrjú lón sem fylgja Lónsá og því gríðarlega mikið veiðisvæði í boði. Fyrir ofan Ytra-Lón er ekki mikið um veiðistaði en hægt er að setja í stöku fiska sem liggja undir bökkum ef maður labbar með ánni. Þegar kemur að bænum Ytra-Lóni fer áin að sýna meiri karakter og er mjög breytileg. Á stórum parti við Ytra-Lón verður hún nokkuð hröð og þá veiðir maður dautt vatn innan við hraða strengi, bak við stór grjót og undir holbökkum.
 
Þessi kafli er nokkuð langur og nær töluvert upp eftir. Þegar komið er áleiðis upp á fjall fer áin að breyta sér aftur og verða hægrennandi lítil og nett. Þarna myndast ótrúlega fallegir staðir og þá sérstaklega fyrir þurrfluguveiði. Þetta svæði nær síðan alveg lengst upp á fjall og er ómögulegt að segja hversu langt fiskurinn kemst.
 
Laxi sleppt lengst uppi á fjalli.
 
Mér finnst skemmtilegast er að láta skutla mér eitthvað lengst upp í óbyggðir að morgni og labba síðan niður eftir ánni í rólegheitum yfir daginn. Það eru ekki margir sem nenna því enda tekur þessi leið alveg heilan dag. Þú getur hins vegar verið nokkuð viss um að þarna er bullandi fiskur út um allt síðsumars og ekki margir barið á þessum stöðum þannig að fiskurinn getur oft verið ansi gráðugur þegar hann sér fluguna í vatninu."
 
Það fer ekki á milli mála að Valdimar Heiðar Valsson er hreinlega ástfanginn af Lónsá. Hann ljómar þegar hann talar um ána og hrifningin smitar út frá sér.
 
Lónsá hefur svo mikinn karakter. Hún er afar fjölbreytt en oftast nett og hæg og þess vegna kjörin í þurrfluguveiði á löngum köflum. Ég nota alltaf flotlínu þarna eins og annars staðar og það er hægt að veiða með nánast hvaða flugu sem er, hvort sem er straumflugum, votflugum, púpum eða þurrflugum. Þær flugur sem hafa reynst mér einna best eru brúnn og svartur Klinkhammer, Phesant tail, Nobblerar í alls konar litum, Black Ghost, Bieberinn, Black Gnatt, Héraeyra og að sjálfsögðu Marfló fyrir ósasvæðið. Gistiaðstaða er til fyrirmyndar en hjónin á Ytra-Lóni reka sveitahostel og svo eru einnig gistimöguleikar á Þórshöfn. Að fara og veiða í Lónsá er eitthvað sem ég mun gera á hverju einasta sumri hér eftir því í mínum huga er hún óslípaður demantur, perla sem á fáa sína líka."
 
-rhr 
23.12.2019

Skötudagur

22.11.2019

Aftur í silunginn?

5.4.2019

Snjóbirtingar

10.2.2019

Bónaðu línuna!

23.11.2018

Aftur í silunginn?