Hrannar Pétursson, stjórnarmaður SVFR, er í viðtali hér að neðan.
Þar segir meðal annars frá stórum fiskum.Auðvitað hefur fjaran og bryggjan aðdráttarafl fyrir lítinn strák þegar hann er að alast upp á Húsavík og þegar Hrannar Pétursson var að kanna umhverfið og byrja að veiða var auðvelt að athafa sig á bryggjunni, hún var ekki full af ferðamönnum og hvalaskoðunarskipum eins og nú. Þetta kunni strákurinn að nýta sér og hann naut þess, veiðimennskan var honum í blóð borin.
Hrannar Pétursson er í stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur og hann bæði nýtur þess að veiða og leggja sitt að mörkum til þess að Stangó verði stærra og öflugra samfélag veiðimanna. En aftur að veiðinni sem Hrannar segir að sér seinni tíma áhugamál. Hann tók sér sem sagt góða pásu eftir bryggjuveiðina á Húsavík hér um árið.
"Það er vinum mínum að þakka að ég fór að veiða aftur. Þeir voru helsýktir og smituðu mig sem betur fer. Ég fór með þeim í Sogið að stoppaði á leiðinni á Selfossi og keypti mér gúmmívöðlur og í höndunum var ég með 18 feta tvíhendu sem ég kunni ekkert á. Strákarnir kenndu mér að kasta og um leið og ég náði valdi á línunni fann ég gleðitilfinningu streyma um líkamann og ég vissi að það yrði ekki aftur snúið. Það skemmdi heldur ekki fyrir að mér tókst að setja i stóra og fallega bleikju. Það var frábært."
Félgarnir Hrannar og Sigurður Hannesson glaðir á afar góðri stundu.
Já, Hrannar var heppinn því það eru ekki allir sem ná að setja í fisk í sinni fyrstu veiðiferð. Hann þurfti hins vegar ekki að bíða lengi eftir þeim fisklausu, þeir komu en Hrannar missti ekki trúna, hann vissi að fluguveiðar væru hans sport og það kom á daginn þegar ann setti í sinn fyrsta lax, eða heldur laxa.
"Það var í Jarðlangsstaðakvörn í Langá á Mýrum og þar veiddi ég ekki einn heldur þrjá lax á hálftíma. Mér brá reyndar svakalega þegar sá fyrsti tók þannig að ég rykkti honum á land og viðureignin tók 20 sekúndur eða svo. Þessi stutta glíma tók úr mér hrollinn og þær tvær sem á eftir komu voru eðlilegri og skemmtilegri."
Laxarnir þrír tóku Black Brahan sem er ein eftirlætisfluga Hrannars og hann hnýtir hana yfirleitt á öngul #14. "Ég nota yfirleitt litlar flugur og hef mikla trú á Black Brahan sem ég nota snemmsumar, miðsumar og síðsumar," segir hann hlægjandi og nefnir líka Green Butt, Græna Metalikku og Frances sem alltaf eru í boxinu, "en svart og grænt er litasamsetning sem ég fell fyrir og laxarnir líka," segir Hrannar.
Hrannar með þann 19 punda.
Hrannar hefur bankað á dyrnar hjá 20 punda klúbbnum en hefur ekki komist yfir þröskuldinn. Sá stærsti sem hefur tekið fluguna hjá hönum var í Dölunum og var 19 pund. "Það far í Lambastaðakvörn en í þeim hyl er yfirleitt veitt fyrir neðan grjótið eins og veiðimenn þekkja. Ég hafði vaðið yfir ána með félaga mínu ofan við grjótið og spurði hvort við værum ekki að vaða yfir veiðistaðinn en hann taldi svo ekki vera. Daginn eftir komum við aftur að þessum stað og ég óskaði eftir því að fá að byrja ofan við steinana og þegar ég var kominn að staðnum þar sem við óðum daginn áður sá félagi minn stóran skugga skjótast að flugunni og allt fór í keng. Laginn tók með látum, stökk og hreinsaði sig fyrir framan mig og þvílík skepna! Eftir 20 mínútna viðureign var hann kominn á land, 19 pund!
Eins og flestir veiðimenn man Hrannar eftir mörgum fiskum sem hann hefur veitt um dagana. Hann nefnir fyrsta púpufiskinn sem hann veiddi í Laxá í Mývatnssveit einni af eftirlætis stöðunum hans og þeim stóra sem tók í Úlfljótsvatni.
"Það var óvenjuleg veiði. Ég var í sumarbústað við vatnið og fór með krökkunum niður að vatninu og vonaðist til að setja í smásilunga sem þau gætu spreytt sig á. Ég kastaði og dró inn fluguna og það var gripið í hana rétt við landið og ég rétti sex ára gömlu barninu stöngina en þurfti að taka hana aftur því fiskurinn tók þvílíka roku og hefði sennileg dregið banið með sér. En eftir töluverða baráttu tókst okkur að ná fallegum urriða sem var hvorki meira né minna en 84 sentímetrar sem er einn stærsti fiskur sem ég hef veitt á gallabuxunum," segir Hrannar sem langar til að sjá Stangó stækka og eflast og leggja sitt af mörkunum til þess að "styrkja og bæta félagið sem senn verður 80 ára og er líkast til fjölmennasta veiðifélag í heimi."
-þgg